Útreikningur þjóðhagsstærða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér nál. um till. til þál. um endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða. Álit félmn. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana til umsagnar nokkurra aðila. Svör bárust frá Hagstofu Íslands, Náttúruverndarráði, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Þjóðhagsstofnun. Verður hér getið nokkurra atriða úr umsögnunum.
    Náttúruverndarráð fagnar hugmyndum um grunn að nýju þjóðarauðsmati og gagnaöflun um ástand og nýtingu auðlinda á hverjum tíma. Telur ráðið löngu tímabært að afla slíkrar vitneskju ,,enda er hún grundvöllur skynsamlegrar nýtingar auðlinda landsins``.
    Viðskipta- og hagfræðideild segir í umsögn sinni: ,,Nú er unnið að því á vegum Sameinuðu þjóðanna og nokkurra einstakra aðildarlanda að endurskoða þjóðhagsreikningagerð í því skyni að taka tillit til áhrifa umhverfismengunar og eyðingar náttúruauðlinda. Hagfræðingar hafa haldið því fram um margra ára skeið að slík endurskoðun væri nauðsynleg. Þörfin er sérstaklega brýn hér á landi þar eð fiskveiðar eru snar þáttur í þjóðarbúskap Íslendinga.``
    Bæði Hagstofan og Þjóðhagsstofnun benda á að þótt margt megi finna að þeim aðferðum, sem nú er beitt við útreikinga á þjóðhagsstærðum, sé þar um alþjóðlega og samræmda hagsýslugerð að ræða. ,,Ljóst er og viðurkennt, ekki
síst af hagfræðingum, að þær eru takmarkaðar og að ýmsu leyti ófullnægjandi,,, segir hagstofustjóri. Í umsögnum beggja koma fram ábendingar um takmarkanir núverandi reikningsaðferða, en einnig um gagnsemi þeirra. Þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna sé nú í endurskoðun, en ekki séu horfur á að við þá endurskoðun verði tekið sérstakt tillit til þeirra sjónarmiða sem fjallað er um í greinargerð með tillögunni og varða áhrif framleiðslustarfsemi á umhverfi og náttúrulegar auðlindir.
    Hagstofan og Þjóðhagsstofnun eru hins vegar sammála um að með tillögunni sé hreyft þörfu máli.
    Í umsögn Þjóðhagsstofnunar segir þannig: ,,Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að í tillögunni um endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða er hreyft hinu merkasta máli. Hins vegar er hér ekki um að ræða séríslenskt fyrirbæri. Vandamálið er þekkt víða um heim og ýmsar rannsóknir og tillögur í gangi. Að því marki, sem Þjóðhagsstofnun þekkir til þessa máls erlendis, virðist þróunin fremur vera í þá átt að tilraunir eru gerðar til þess að byggja upp sjálfstæð reiknikerfi til hliðar við hina hefðbundnu uppsetningu þjóðhagsreikninga. Enn sem komið er hafa þessar aðferðir ekki leitt til endurskoðunar á útreikningi þjóðhagsstærða eins og lagt er til í tillögunni. Í þessu sambandi má raunar geta þess að Sameinuðu þjóðirnar ásamt OECD vinna nú að lokaundirbúningi við endurskoðun á hinu alþjóðlega þjóðhagsreikningakerfi og er áformað að hið nýja reikningakerfi verði fullmótað á næsta ári. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum stórvægilegum breytingum í þá átt sem þessi

tillaga fjallar um. Engu að síður er full ástæða til þess að Íslendingar fylgist vel með því sem aðrar þjóðir eru að fást við á þessu sviði og hagnýti sér niðurstöður þeirra eftir því sem ástæða þykir til og aðstæður leyfa. Hins vegar hlýtur það jafnan að vera mikið álitamál hvort Íslendingar eigi sjálfir að leggja út í sjálfstæðar rannsóknir á þessu sviði eða fremur að hagnýta sér reynslu annarra þjóða.``
    Í umsögn Hagstofunnar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Sterklega skal undir það tekið með flutningsmönnum að brýnt sé að efla skýrslugerð um umhverfisþætti sem mest. Í nokkrum nágrannaríkjum, ekki síst Noregi, Finnlandi og Svíþjóð, hefur mikið kapp verið lagt á þetta síðustu árin. Íslendingar hafa ekki bolmagn til að stunda í verulegum mæli eigin rannsóknir á þessu sviði. Brýnt er því að þeim stofnunum, sem fást við hagmælingar og hagskýrslugerð, sé gert kleift og þær hvattar til að fylgjast vel með í þessum efnum. Loks er óhjákvæmilegt að hagskýrslugerð um umhverfismál og auðlindanýtingu verði skipulögð hér á landi sem allra fyrst. Þess má geta að Hagstofan hefur tekið nokkurn þátt í alþjóðasamstarfi á þessu sviði en henni hefur ekki verið kleift enn sem komið er að takast á hendur eigin skýrslugerð um þetta efni. Á því er þó áhugi á Hagstofunni og að því stefnt eftir því sem geta hennar leyfir.
    Niðurstaða þess sem hér hefur verið sagt er sú að Hagstofan sé meðmælt því meginatriði sem hún álítur að felist í þingsályktunartillögunni, þ.e. að nauðsynlegt sé að efla mælingar á og skýrslugerð um umhverfisþætti og auðlindanýtingu til þess að unnt sé að taka tillit til þeirra atriða við mat á efnahags- og þjóðfélagsþróun og við stjórn þjóðarbúskaparins. Jafnframt sé nauðsynlegt að fylgjast sem best með þeim rannsóknum sem um getur í tillögunni og þeim tilraunum sem Norðmenn og aðrar þjóðir eru að gera til mælinga á þessum þáttum. Þessi mál eru þó ekki svo langt komin að efni standi til að tímabært sé að breyta þjóðhagsreikningagerð hér á landi. Ekki er heldur raunhæft að Íslendingar greini sig frá öðrum í þessu efni og taki upp aðrar
aðferðir við mælingar og framsetningu þjóðhagsreikninga en tíðkast á alþjóðavettvangi. Fremur en að ályktað væri um endurskoðun grundvallar fyrir útreikning þjóðhagsstærða telur Hagstofan því vænlegra til árangurs að ályktað væri um skipulagningu reglubundinna mælinga og skýrslugerðar um umhverfismál og auðlindanýtingu.``
    Í greinargerð með tillögunni benda flutningsmenn á að í þeim aðferðum, sem mest er byggt á við ákvarðanir í efnahagsmálum hér á landi sem annars staðar, er ekki tekið tillit til þeirra hættumerkja sem hrannast upp vegna spillingar á umhverfi og eyðingar náttúrulegra auðlinda. Bent er á viðleitni nokkurra þjóða, t.d. Norðmanna, sem leitast hafa við að meta umhverfisþætti inn í þjóðhagsreikninga og koma á nýju þjóðarauðsmati. Fram kemur einnig í greinargerð að flutningsmenn gera sér grein fyrir að ,,þetta getur

verið ýmsum erfiðleikum háð, en þeim mun brýnna er að byrja að þróa aðferðir sem skilað geta árangri``.
    Félmn. tekur undir ofangreind sjónarmið og telur mikilsvert að hagstofnunum hérlendis og rannsóknastofnunum verði gert kleift að fylgjast með á þessu sviði og þróa aðferðir sem komið geta að gagni við umrætt endurmat á útreikningi þjóðhagsstærða. Í umsögnum kemur fram að nauðsynlegt sé í þessu skyni að skipuleggja hagskýrslugerð um umhverfismál og auðlindanýtingu og efla rannsóknir og mælingar á umhverfisþáttum og nýtingu auðlinda. Jafnframt þurfi Íslendingar að nýta sér það sem aðrar þjóðir eru að fást við á þessu sviði.
    Með vísan til þessa flytur nefndin brtt. við málið á sérstöku þingskjali og mælir með samþykkt tillögunnar þannig breyttrar.``
    Brtt. félmn., þskj. 1159, er svohljóðandi:
    ,,1. Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna aðferðir við útreikning þjóðhagsstærða þar sem tekið sé tillit til áhrifa framleiðslustarfsemi á umhverfi og náttúrulegar auðlindir. Í þessu skyni verði komið skipulagi á hagskýrslugerð um umhverfismál og nýtingu auðlinda og fylgst með því sem er að gerast erlendis á þessu sviði.
    2. Fyrirsögn till. verði: Till. til þál. um nýjar aðferðir við útreikning þjóðhagsstærða.``
    Mér láðist að geta þess, virðulegi forseti, þegar ég las nál. félmn. að að því standa allir fulltrúar í nefndinni.