Yfirstjórn umhverfismála
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. allshn. Þetta mál er nú komið að lokaafgreiðslu á hv. Alþingi. Ég verð að segja að ég hefði viljað sjá þetta mikilvæga mál afgreitt með meiri reisn hér á hv. Alþingi en raun ber vitni. Ég vil við lokaafgreiðslu málsins leyfa mér að minna á að allar götur frá 1975 hefur Sjálfstfl. haft frumkvæði um að flytja frv. um umhverfismálin svo öllum má vera ljóst að samræmd stjórn umhverfismála er á okkar stefnuskrá. Hins vegar hafa þau mál aldrei verið afgreidd í gegnum þingið og segir það sína sögu.
    Ég vil einnig minna á að frv. það sem þingmenn Sjálfstfl. í Nd. lögðu fram í upphafi þessa þings var samið eftir að náðst hafði, ef orða má svo, breitt samkomulag um skipan þessara mála. Sjálfstfl. leit á það sem farsæla lausn ef hægt hefði verið að ná breiðri samstöðu um afgreiðslu þessa mikilvæga máls á hv. Alþingi. Það hefur hins vegar ekki tekist og ber að harma það.
    Þessi málaflokkur er stór og viðamikill og mikilvægur. Ég held að óhætt sé að segja það að öll íslenska þjóðin sé nú loksins að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að við göngum varlega og umgöngumst varlega landið okkar og að við setjum metnað okkar í það að halda því hreinu. Við Íslendingar höfum stært okkur af því að geta boðið upp á hreint og fagurt land. Ég á enga ósk betri okkur til handa en að svo megi verða í framtíðinni. Það verður tíminn einn að leiða í ljós hvort sú skipan mála sem nú er verið að afgreiða frá hv. Alþingi sé sú eina farsæla lausn sem við öll höfum væntanlega verið að stefna að.
    En nál. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin ræddi málið á einum fundi en hefur ekki fjallað efnislega um frv., enda ætlað að afgreiða það innan sólarhrings frá því að málið kom til deildarinnar.
    Endanleg afgreiðsla þessa mikilvæga máls er staðfesting á því að tilgangur ríkisstjórnarinnar með stofnun umhverfisráðuneytis var að tryggja sér meiri hluta á Alþingi en stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og viðfangsefni ráðuneytis umhverfismála aukaatriði.
    Slík vinnubrögð eru ámælisverð og Alþingi til vansæmdar.
    Afstaða 1. minni hl. við afgreiðslu málsins hlýtur að markast af þessum óhæfu vinnubrögðum.``
    Undir þetta nál. skrifa Salome Þorkelsdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson.