Yfirstjórn umhverfismála
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Hæstv. umhvrh. gaf með orðum sínum hér áðan, þegar hann sendi okkur þingmönnum Sjálfstfl. tóninn sem skrifum undir nál. 1. minni hl., tilefni til að hefja hér umræður að nýju um þetta mál. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ekki geð í mér til að fara að leggja af stað einu sinni enn í slíkar umræður og ætla því að sleppa því.
    Við höfum leyft okkur að gagnrýna málsmeðferðina. Og í nál. gagnrýnum við fyrst og fremst þá málsmeðferð sem þetta mál fær hér við lokaafgreiðslu í hv. Ed. þar sem okkur er ætlað að afgreiða það innan eins sólarhrings frá því það kemur til deildarinnar. Við erum ekki farin að fjalla efnislega um frv. í þessari hv. deild. Það vil ég leyfa mér að benda hæstv. umhvrh. á. Það hefði vissulega verið þörf á því og ástæða til að fara í gegnum frv. í allshn. Ed.,
nákvæmlega á sama hátt og hefur verið gert í hv. Nd. Það hefur hins vegar verið gert samkomulag um að ljúka þessu máli og það höfum við fellt okkur við. En ég verð að segja það alveg eins og er að ég get ekki séð að það sé gagnrýni vert að við gerum athugasemd við slíka málsmeðferð í svo mikilvægu máli sem hér er á ferðinni. Þetta vil ég leyfa mér að ítreka og reyna að koma hæstv. umhvrh. í skilning um. Ég verð að vænta þess að hann geri sér grein fyrir því að þingmenn í Ed. hafa jafnmikla þörf fyrir að fjalla um þetta mál og þingmenn Nd.
    Við ætluðum að láta kyrrt liggja og við munum gera það. Ég ætla ekki að hefja hér umræðu en ég vil aðeins minna á þetta. Ég hef undir höndum tvö bréf sem ástæða hefði verið til að skoða nánar. Þar koma fram athugasemdir frá embættismönnum þeirra stofnana sem verið er að flytja til og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég hafði ákveðið að láta þetta kyrrt liggja og ég mun gera það en ég vil nefna þetta hér vegna orða hæstv. umhvrh.