Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 05. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Frv. er auðvitað til bóta. Það er staðfesting á því að tekjuskatturinn er kominn úr öllum böndum. Hann er orðinn svo hár að ekki er viðunandi og er auðvitað fyrir neðan allar hellur að leggja 40% tekjuskatt á þurftatekjur í staðgreiðslukerfi. Ég vil líka taka það fram, herra forseti, að sú breyting sem hæstv. fjmrh. hefur boðað hér í haust, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja á stighækkandi staðgreiðsluskatt í tekjuskatti sýnir það að löggjöf eins og sú að hafa hér hóflegan tekjuskatt í staðgreiðslu gengur ekki upp á meðan vinstrimenn fara með völd hér á landi. Þeir spilla löggjöf og færa úr lagi. Þeir eru skattpíningarmenn og þess vegna er það nú sem þeir eru að missa fótfestu í landinu og auðvitað getur fólk ekki risið undir þessu til frambúðar. Það er mikilsvert hvert skref sem við náum til réttlætis í sambandi við skattamálin, en þetta er einungis, ég vil undirstrika það, áfangi. Það verður haldið áfram við að byggja upp aftur tekjuöflunarkerfið sem gert var á þeim tíma þegar formaður Sjálfstfl. valdist fjmrh. og síðan forsrh. og hendur verða látnar standa fram úr ermum þegar önnur ríkisstjórn tekur við, hvenær sem það nú verður. En auðvitað sjáum við vinstri sporin víða, sjáum að þá leiðir á villigötur ,,hið rauðgula hnoða, sem rennur á undan mér, fylgir engri átt``, segir Steinn Steinarr, það er á villigötum. Hins vegar vitum við það að hið bláa hnoða frjálsra viðskipta, einstaklingsfrelsis og dugnaðar fylgir beinni átt til vaxandi velmegunar og betra þjóðfélags.