Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á núgildandi jafnréttislögum eftir afgreiðslu málsins úr Nd. eru eftirfarandi:
    Lagt er til að hinu tvíþætta hlutverki Jafnréttisráðs verði skipt þannig að skipuð verði sérstök kærunefnd jafnréttismála sem eingöngu hafi það hlutverk að fjalla um kærur sem berast nefndinni og fylgja þeim eftir fyrir dómstólunum.
    Með þessum hætti getur Jafnréttisráð einbeitt sér að því að gegna öðrum verkefnum, svo sem að vera stefnumótandi í jafnréttismálum, sinna rannsóknarskyldu, fræðslu o.fl.
    Í frv. eru skýrari ákvæði um skipan jafnréttismála í stjórnkerfinu. Kveðið er á um að félmrh. fari með jafnréttismál. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að samkvæmt núgildandi lögum er stjórnskipuleg ábyrgð ráðherra á jafnréttismálum mjög óljós. Sama gildir um stöðu Jafnréttisráðs í stjórnkerfinu. Forsenda markvissra vinnubragða á þessu sviði eins og öllum öðrum er að ábyrgð og skyldur séu ljósar. Á þessu er tekið í frv.
    Samkvæmt lagafrv. er félmrn. heimiluð ráðning jafnréttisráðgjafa sem starfi í náinni samvinnu við Jafnréttisráð. Með þessu ákvæði er komið til móts við óskir sem fram hafa komið um þetta efni, m.a. á Alþingi þar sem tvívegis hafa verið lagðar fram þáltill. um að ríkisstjórninni verði falið að ráða jafnréttisráðgjafa.
    Lagt er til í frv. að beitt verði öfugri sönnunarbyrði í þeim kærumálum sem kærunefnd jafnréttismála berast. Þetta ákvæði gildir þó aðeins gagnvart kærunefnd en ekki fyrir dómstólunum.
    Skýrari ákvæði eru um að heimild til þess að dæma miskabætur verði lögfest. Ég nefni einnig mjög mikilvægt ákvæði um að félmrh. leggi fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs sem ég tel mikilvægt ákvæði því að nú fær Alþingi tækifæri til að ræða slíka áætlun sem áður var aðeins staðfest í ríkisstjórn.
    Fjallað er um jafnréttisnefndir sveitarfélaga í 13. gr. Þar er kveðið á um að í sveitarfélögum þar sem íbúatala fer yfir 500 manns og annars staðar þar sem því verður við komið verði skipaðar jafnréttisnefndir. Enn fremur er tekið fram í hverju störf nefndarinnar skuli fólgin. Þar er sérstaklega tekið fram að þær skuli hafa frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu og er þetta í samræmi við þann tilgang sem kemur fram í frv., að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna.
    Í 15. gr. er lagt til að Jafnréttisráð verði skipað eftir hverjar kosningar til Alþingis í stað tveggja ára eins og nú er. Verður það skipað með sama hætti og verið hefur nema nú yrði það félmrh. sem skipaði formann í stað Hæstaréttar.
    Þar sem frv. gerir ráð fyrir breytingu á starfssviði

Jafnréttisráðs frá því að vera bæði stefnumarkandi og fjalla um kærumál vegna laganna í að vera fyrst og fremst sá aðili sem mótar stefnu í jafnréttismálum og fylgir henni eftir í störfum sínum er eðlilegt að tryggja betur tengslin milli ráðherra jafnréttismála og Jafnréttisráðs eins og hér er gert ráð fyrir.
    Ég vek sérstaklega athygli á einu atriði til viðbótar í sambandi við 17. gr. frv. Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti og undirstofnanir þeirra setji sér sérstök markmið í jafnréttismálum sem unnið skuli að eftir fjögurra ára framkvæmdaáætlun.
    Ég hef, virðulegi forseti, gert grein fyrir helstu atriðum frv., eins og það liggur nú fyrir eftir að það hefur verið afgreitt frá Nd. Ég vek athygli á því að fullkomin samstaða náðist um það í félmn. Nd. að leggja frv. fram með breytingum sem nefndin gerði á frv. eins og það var lagt fyrir þingið og var það samþykkt einróma í Nd. Vænti ég þess, þó að stuttur tími lifi af þessu þingi, að frv. verði að lögum fyrir þinglausnir í dag.