Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég átti ekki von á að þetta frv. kæmi hingað til Ed. á þessu þingi og hef því ekki kynnt mér þær breytingar sem hafa orðið á frv. í meðferð Nd. Hins vegar sat ég í þeirri nefnd sem samdi þetta frv. og tel rétt að ég geri grein fyrir afstöðu minni í nefndinni og þegar mál þetta var lagt fyrir minn þingflokk. Ég gerði, bæði í nefndinni og þegar málið var afgreitt úr mínum þingflokki, fyrirvara um efni þess.
    Ég held að jafnrétti verði ekki komið á með lögum heldur með hugarfarsbreytingu og að þvinga í gegn jafnrétti á þann hátt sem mælt er fyrir í frv. tel ég ekki af hinu góða. Og annað hitt að mér hefur virst frv. bera mikil merki þess að teknar eru stífustu reglur úr flestum löndum, á Norðurlöndum og í Vestur-Þýskalandi og Frakklandi, og þeim steypt í þessi lög sem leiða til þess að svo verði nánast komið fyrir karlpeningnum að hann eigi varla möguleika á því næstu árin að sækja um stöður hjá ríkisvaldinu eða fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Hæstv. félmrh. segir að það sé búið að breyta þessu öllu en alla vega er ég að lýsa, eins og ég tók fram, skoðun minni eins og hún var í nefndinni. Ég hef ekki kynnt mér breytingarnar í Nd. en ef þetta er eins og frá því var gengið í nefndinni er frv. með þeim hætti sem ég lýsti.
    Ég hef einnig vissar efasemdir um það hvort eigi að hafa öfuga sönnunarbyrði sem ég heyrði í ræðu hæstv. ráðherra að sé enn þá gert ráð fyrir í frv. Öfug sönnunarbyrði er mikið og erfitt mál og það leggur miklar skyldur á herðar þeim aðila sem fer með ráðningarvaldið, að hann nái að ganga út frá því að ef tveir aðilar, karl eða kona, sækja um stöðu eigi hann að ráða konuna nema mikilvægar ástæður séu fyrir því að karlinn sé ráðinn.
    Ég vildi bara að þessi sjónarmið mín kæmu hér fram. Ef frv. hefur verið breytt í veigamiklum atriðum í meðförum Nd. sé ég ekki ástæðu til þess að vera á móti því, en ég efast um að ég komi til með að greiða því atkvæði þegar það kemur til 2. umr.