Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég var því miður ekki stödd hér inni í deildinni þegar hæstv. félmrh. lauk máli sínu svo að ég heyrði ekki hvort hún lagði áherslu á að frv. yrði afgreitt í gegnum deildina nú á þessum stutta tíma sem við höfum til loka þessa þings, en ég geng út frá að svo hafi verið og ég ætla ekki að gera ágreining um það. Mér þykir það þó miður að nefndin sem á að fjalla um málið, hv. félmn., fái ekki tækifæri til að fjalla efnislega um svo mikilvægt mál sem hér er um að ræða. Það hefði vissulega verið nauðsynlegt fyrir okkur að fá tækifæri til þess í hv. Ed. eins og í Nd. Þetta mál er nú búið að vera þar nokkuð til umfjöllunar að því er ég best veit, en eins og ég segi ætla ég ekki að gera ágreining um það eða vera á móti því en vildi samt láta það koma fram að mér finnst það mjög slæmt. Við erum búin að hleypa hér mörgum málum í gegnum þessa hv. deild, sumum mjög mikilvægum eins og gerðist hér í dag, án þess að viðkomandi nefndir fái tækifæri til að fjalla einu orði um efnisatriði slíkra frv.
    Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, en þar sem mér skilst að orðið hafi endanlegt samkomulag um efnisatriði þessa frv. í hv. Nd. ætla ég ekki að gera ágreining um afgreiðslu málsins nú.