Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar var unnið og undirbúið af sérstakri nefnd. Í þeirri nefnd sat Geir Gunnarsson fyrir hönd þingflokks Alþb. Hann lagði niðurstöður úr nefndinni fyrir þingflokkinn og þingflokkurinn samþykkti uppkast að frv. Ég lít svo á að ég sé bundinn þeirri samþykkt og tek fullkomlega mark á þeirri vinnu sem sá Geir Gunnarsson vann fyrir þingflokkinn í þessari nefnd. ( EgJ: Það er aldeilis flokksagi.) Ég hef aftur á móti gert mér grein fyrir því að þarna eru vissir hlutir sem orka nokkuð tvímælis. Það kom fram í viðræðum við gesti okkar sem komu til viðræðu við sjútvn. í morgun að fulltrúar frystingarinnar, og sérstaklega Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, töldu að þessi sjóðsstofnun væri ekki rétt og ekki ætti að samþykkja frv. (Gripið fram í.) Það þarf ekki að hjálpa mér neitt í þessu, hv. þm. Fulltrúar frá SÍF, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, lögðust mjög gegn því að frv. væri samþykkt. Það væri mjög óhagstætt fyrir þeirra framleiðslu. Fulltrúi frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Árni Benediktsson, sagðist sjálfur vera meðmæltur frv. og ekki þá til hagræðis fyrir sjávarútveginn heldur fyrst og fremst sem sveiflujöfnunarsjóð fyrir þjóðfélagið í heild. Hann upplýsti einnig að það mundi vera minni hluti í stjórn Sambands ísl. fiskframleiðenda fyrir því að mæla með frv.
    Mér sýnist svona fljótt á litið frv. þó hafa þann kost að það geti þegar fram líða stundir komið til aðstoðar við skelfisk- og rækjuvinnslu, enda mælti fulltrúi þeirra samtaka mjög með samþykkt þess. Eðli málsins er þó þannig að til þess að þessi sjóðsstofnun virki þarf að byrja á góðæri til þess að viðkomandi aðilar í greininni geti safnað einhverjum stofni til að mæta þeim skakkaföllum sem síðar kæmu. Nú er það svo að að meginhluta er núverandi verðjöfnunarsjóður uppurinn og meira en það, kannski síst hjá rækjunni. Það hefur verið tekið lán fyrir frystinguna á
undanförnum missirum og langt er komið með saltfiskssjóðinn, jafnvel að hann sé búinn eða mjög nálægt því. En það er nú sama.
    Þótt þingflokkur Alþb. hafi ekki talið ástæðu til þess að fylgja eftir vinnu minni í nefnd sem mér var falið að vinna fyrir Alþb. og þar sem ég fór eingöngu eftir samþykktum þingflokksins, þá tel ég mig bundinn af því að fylgja þessari samþykkt og þeirri vinnu sem þingmaður okkar, Geir Gunnarsson, vann í þessari nefnd við samningu þessa frv. Þar eð hann er meðmæltur þeirri meðferð sem hér er lögð til tel ég mig bundinn því að greiða atkvæði með frv. og hef gert það í hv. sjútvn. þessarar deildar.