Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fyrr á þessu þingi hefur komið til umræðu með hvaða hætti ríkissjóður kæmi að þeirri fjárvöntun sem kynni að verða upp á skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðsins í samræmi við þau brbl. sem sett voru og síðan staðfest á Alþingi 1988. Í þeim umræðum hefur komið fram af minni hálfu, eins og sjálfsagt er að endurtaka hér, að þessar aðgerðir voru til þess ætlaðar að styrkja atvinnulífið í landinu og er nokkuð ljóst að þær eru tvímælalaust að bera þann árangur. Möguleikar okkar sameiginlega sjóðs til þess að styrkja stöðu sína á næstu árum, m.a. vegna þessara aðgerða, eru þess vegna með þeim hætti að það verður ekki óyfirstíganlegt verkefni eða vandamál að sjá til þess að staðið verði við þessar skuldbindingar.
    Eins og kom einnig fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni í síðustu ræðu þá er það kerfi sem hér er lagt til með þeim hætti að það hefur sérstaka kosti þegar það hefur störf á uppgangstímum, sem eru að hefjast bæði hvað snertir verðlag erlendis og enn fremur samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Ég á þess vegna ekki von á því að það verði neitt sérstakt vandamál á næstu árum að mæta þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í frv.
    Ýmsar aðrar skuldbindingar sem settar hafa verið á ríkissjóð á undanförnum árum eru mun meiri. Ég ætla ekki að nefna þær hér til þess að trufla ekki þann góða anda sem ríkir í deildinni í dag, en vil bara nefna eitt sem mér er stundum kært og vona að mér verði fyrirgefið. Skuldbindingar vegna hinnar glæsilegu flugstöðvar, sem byggð var hér á árum áður og hlutur Íslands fjármagnaður með erlendum lánum, eru nærri tvisvar sinnum meiri en það sem hér um ræðir. Var það þó ekki talið af þeim sem að því stóðu neitt sérstakt erfiðleikaverkefni að ætla framtíðinni að greiða þau. Ég vona að þetta séu nægileg svör að sinni við fyrirspurn sem hv. þm. Halldór Blöndal bar eðlilega fram hér áðan.