Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það var dálítið áhugaverður kafli í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. þar sem hann fjallaði um skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Það vill svo til að á mínum sokkabandsárum þegar ég var að hefja störf eftir nám erlendis starfaði ég hjá íslenskri stofnun sem hafði með að gera samskipti við OIC eins og það hét þá, það er núna skammstafað OECD. Ég kynntist allvel á þessum árum, ég held að ég hafi starfað í 5 1 / 2 ár í tengslum við þessa stofnum, ákveðnum þáttum. Síðan hef ég fylgst með störfum þessarar stofnunar og samskiptum íslenskra aðila við hana og það er afskaplega einfalt mál hvernig þessar skýrslur verða til. Það vita allir sem til þekkja að skýrslan er að meginefni samin af hagfræðingum Seðlabankans, sérfræðingum í viðskrn. og að hluta til í fjmrn. ( Fjmrh.: Þetta er að breytast.) Þetta er að breytast, sagði hæstv. fjmrh., sem þýðir að það hefur ekki orðið 100% breyting á því. Þetta er gert svona meira og minna enn og gert þannig að hingað koma erlendir aðilar frá OECD og eiga viðtal við þá sérfræðinga sem fjalla um þessi mál eða okkar menn erlendis sem starfa við OECD gefa upplýsingarnar sem koma frá Íslandi. Svo er skýrslan samin og yfirleitt er passað upp á það, skilst mér án þess að ég vilji fullyrða það, réttir aðilar passa upp á það --- Það er afskaplega erfitt, virðulegi forseti, að tala þegar miklar ræður eru úti í sal. Ég hef aldrei vanist því annars staðar þar sem ég hef tekið til máls nema hér á hinu háa Alþingi. Það skiptir kannski engu máli en er athyglisvert fyrir þessa virðulegu stofnun og virðist eiginlega vera einkenni hennar að hv. þm. eru alltaf með aukafundi. Ég hef tekið eftir því að þegar jafnvel ráðherrar eru að tala um hin alvarlegustu mál eru fundir úti í sal. Mér finnst þetta hálfgerð óvirðing við stofnunina sjálfa fyrir utan ræðumenn og jafnvel sjálfa þingmenn að þeir skuli ekki hlusta á mál manna eða halda sína fundi bara utan þessarar deildar. En þetta á kannski að vera svona.
    En ég var að tala um það varðandi skýrslu OECD að síðan eru hér nokkurs konar páfar á Íslandi sem fara yfir handritin. Það eru náttúrlega mennirnir sem setja útlínurnar. Og það vill svo til að í núv. ríkisstjórn er einn æðsti páfinn á þessu sviði frá upphafi þessarar skýrslugerðar. Það er núv. hæstv. iðnaðar- og viðskrh. Hann er sérstakur sérfræðingur í einmitt hönnun svona skýrslna og hann hefur unnið að þessu meira og minna allar götur síðan 1973 eða 1974. ( Gripið fram í: Fyrr.) Eða jafnvel fyrr. Það er því náttúrlega mjög eftirtektarvert og athyglisvert að nú skuli vera í ríkisstjórn maður sem hefur haft með að gera, ég vil segja ,,redaktion`` á þessum skýrslum, maður sem hefur raunverulega mótað niðurstöðu þessara skýrslna fyrir hinar ýmsu ríkisstjórnir. Ég ætla ekki að gera ráð fyrir því og trúa því að hann hafi alveg skrifað þessa skýrslu. En ansi er ég hræddur um að hann hafi komið einhvers staðar við sögu.
    Þá ætla ég að víkja að umræðunum um þetta frv., um Verðjöfnunarsjóð. Mér finnst sú umræða sem hér

fer fram vera dæmigerð kerfisumræða. Ég vil þó taka það fram að hæstv. ráðherra fór ekki inn í málið með þeim hætti nema að mjög takmörkuðu leyti. En mér finnst þetta dæmigerð kerfisumræða að því leyti að verið er að ræða um hagstjórnartæki sem að mínu mati eru úrelt fyrirbrigði. Ég skal rökstyðja það nokkuð hvers vegna ég lít á þetta sem úrelt fyrirbrigði.
    Við erum hér með ríkisstjórn sem hefur innan sinna vébanda utanrrh. og iðnrh. sem hafa báðir stært sig af því, þessir tveir hæstv. ráðherrar, að þeir hafi verið að færa Ísland nær þeirri þróun sem hefur átt sér stað í Vestur-Evrópu. Á sama tíma sem þessir menn eru að tala um að Ísland þurfi að vera frjálsara, það þurfi að vera opnara og hér þurfi að vera frjálsir fjármagnsflutningar, svo að dæmi sé nefnt sem hefur geysilega mikil áhrif og þýðingu í þessu máli, þá er verið að leggja til að sett séu höft á íslenskan sjávarútveg í gegnum það sem ég vildi kalla miðstýrt kerfi, sem Verðjöfnunarsjóður óneitanlega er. Þess vegna vil ég halda því fram að við séum raunverulega að tala um þessi mál út frá prinsippsjónarmiði. Annars vegar eru þeir menn sem vilja lifa í fortíðinni og starfa á grundvelli þessara hagstjórnartækja, sem eru að verða úrelt fyrirbrigði. Hins vegar erum við hinir sem gerum okkur grein fyrir því að gerðar eru það miklar kröfur til sjávarútvegs og fiskiðnaðar í landinu í samkeppni við aðra aðila, innlenda sem erlenda, að með því að hafa slíkan sjóð sem Verðjöfnunarsjóður er erum við raunverulega að vinna gegn því markmiði að þessi fyrirtæki, sem stöðugt er verið að heimta meira af, geti mætt þeirri samkeppni og mætt því breytta umhverfi sem við lifum í.
    Ég er ekki að ásaka hæstv. sjútvrh. Þetta er ekki endilega hans sjónarmið, að vilja viðhalda þessum Verðjöfnunarsjóði, alls ekki. En ég bendi á það í þessari umræðu, að við erum raunverulega að ræða um þetta út frá þessum prinsippsjónarmiðum. Ég aðhyllist það sjónarmið að við eigum að hætta slíkri
miðstýringu sem þessi verðjöfnun felur í sér, en þó með ákveðnum takmörkunum, það skal viðurkennt. Það sem mér finnst vera höfuðgallinn við þetta frv., fyrir utan það að ég er á móti því að viðhafa slíka miðstýringu, er það að
raunverulega er verið að fresta því að þær hámarkstekjur sem atvinnugreinin getur fengið á hverjum tíma komi strax til notkunar eða nýtist henni á því augnabliki sem tekjumyndun verður. Ég tel að það henti ekki íslenskum fiskiðnaði að fresta því að þessar greiðslur komi til baka í verðjöfnunarformi eins og frv. gerir ráð fyrir. Um þetta finnst mér raunverulega málið snúast. Þetta er meginatriðið en ekki það hvernig stjórn er skipuð o.s.frv. Það finnst mér vera algert minni háttar atriði.
    Þegar maður ræðir um áhrif þessa út frá sjónarmiði efnahagslífsins, þá er það alveg rétt að eins og þessar atvinnugreinar voru, ég vil segja fyrir tíu árum, þá er ég að tala um fiskvinnsluna, sérstaklega frystiiðnaðinn og saltfiskvinnsluna, má segja að ef vel gekk og söluverð hækkaði mikið, þá hlutu miklar

viðbótartekjur að hafa mikil áhrif inn í íslenskt efnahagslíf. Það var á þeim tíma sem ísfiskur eða ferskur fiskur var tiltölulega lítill í útflutningi landsmanna. Það var á þeim tíma þegar stærsti hluti sjávaraflans fór í þessar vinnsluaðferðir, að viðbættri skreið. Nú hefur sú breyting orðið á að stöðugt stærri hluti aflans er fluttur út ísaður og ferskur. Og áhrif verðbreytinga koma inn í okkar efnahagslíf með allt öðrum og ég vil segja með miklu minni margfeldisáhrifum en þær miklu verðhækkanir höfðu í för með sér þegar við vorum að tala um unna vöru, vöru sem var unnin sérstaklega í hraðfrystiiðnaðinum. Þetta er atriði sem ég held að menn verði að íhuga mjög gaumgæfilega þegar verið er að ræða um Verðjöfnunarsjóðinn. Þar við bætist að við erum með núna um það bil, ef ég man rétt, 25 frystitogara eða skip sem geta fryst um borð. Framleiðsla þeirra afurða sem þar á sér stað er þess eðlis að margfeldisáhrifin vegna mikilla verðhækkana á þeim afurðum eru ekki hin sömu eins og fullunninna afurða í frystihúsum.
    Þetta eru efnisatriði sem ég vildi láta koma fram í þessari umræðu vegna þess að þau styðja þá skoðun mína að þau fyrirtæki sem eru með landfrystingu, þau fyrirtæki sem eru með saltfiskvinnslu í landi, hlutdeild þeirra og áhrif í sambandi við efnahagslífið í heild vegna aukinna tekna, vegna verðhækkana, eru ekki nærri því eins mikil og þau voru hér áður fyrr. En til að þessi fyrirtæki, þ.e. frystihúsin og saltfiskvinnslan, geti mætt þessum breytingum er það lífsspursmál fyrir þau í samkeppninni við ferska og ísaða fiskinn og frystitogarafiskinn að fá sínar tekjur að fullu þegar þær myndast. Það er í mínum huga grundvallaratriði. Þess vegna kvaddi ég mér hljóðs aftur, virðulegi forseti, vegna þess að ég vildi koma þeim sjónarmiðum fram sem svari við skoðunum þeirra efnahagssérfræðinga sem hafa lagt á ráðin um þennan Verðjöfnunarsjóð. Þess vegna segi ég það að þessi Verðjöfnunarsjóður mun koma með fullum og mjög neikvæðum þunga á frystihúsin og saltfiskvinnsluna og gera samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja enn þá verri en hún er í dag.
    Í stuttu máli sagt: Ég er á móti því að binda hluta tekna, væntanlegra, ef verðhækkanir halda áfram, með þessum hætti. Þess vegna held ég að ég hafi líka svarað því atriði sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf. að Verðjöfnunarsjóður stuðli að stöðugleika. Það er misskilningur að mínu mati vegna þess að verðbreytingaáhrifin eru ekki eins mikil og þau voru hér áður fyrr þannig að íslensku efnahagslífi stafar ekki sú hætta af umtalsverðum verðhækkunum á afurðum hraðfrystingar og saltfiskvinnslu.
    Ég vildi hins vegar segja þetta: Það væri nær að grípa víðar inn í, eða réttara sagt, grípa annars staðar inn í til að koma í veg fyrir þensluáhrifin. Þar á ég við að draga mætti úr þensluáhrifunum sem stafa frá ríkisgeiranum. Þau eru enn til staðar. Það mætti einnig draga úr þensluáhrifunum sem stafa af byggingariðnaðinum. En það sem er kannski summan í þessu öllu saman og niðurstaðan er: Það á að láta íslenskan sjávarútveg og fiskiðnað mæta hugsanlegum

þensluáhrifum sem verða ef samið verður um stóriðju á þessu ári. Ef íslenskur sjávarútvegur á í vændum betri tíma þá verði viðbótartekjur hans frystar með þessum hætti eða geymdar til þess fyrst og fremst að stórvirkjunarframkvæmdirnar og uppbygging stóriðjunnar hafi ekki eins mikil þensluáhrif og ella. Þetta er kjarni málsins. Það er sjónarmið út af fyrir sig og þá eiga menn bara að viðurkenna það. En ég, sem er fylgjandi því að sjávarútvegur og fiskiðnaður hafi góða stöðu í þeirri baráttu sem á sér stað milli atvinnugreina í landinu og hef trú á þeirri atvinnugrein, legg áherslu á það að þessi stefna í sambandi við stórvirkjanir og stóriðju komi ekki niður á betri og batnandi stöðu sjávarútvegs. Þess vegna er ég á móti því að þessi sjóður verði til. Ég vil leggja hann niður.
    Varðandi það atriði að með þessu frv. sé verið að staðfesta það að ríkissjóður sé skuldbundinn vegna lántöku frá fyrri tíma upp á 2 milljarða vil ég segja þetta: Hæstv. sjútvrh. er þekktur fyrir það að standa við sín orð. Hann hefur hér í ræðustóli gefið þær yfirlýsingar að þau lán sem tekin voru á sínum tíma vegna greiðslna með frystiiðnaðinum verði greidd af ríkissjóði. Það þarf því ekki að staðfesta það með einhverjum sérstökum lögum. Ég tek það trúanlegt, og það er næg staðfesting fyrir mig, að þær yfirlýsingar ráðherra standi. Ríkissjóður hlýtur að taka þessa 2 milljarða á sig. Það er svo annað
mál hvort hæstv. fjmrh. ætlar að fresta því hvenær og með hvaða hætti það gerist.
    Ég mun ekki, virðulegi forseti, ræða þetta mikið frekar en vil segja þetta að lokum: Hæstv. sjútvrh. kom inn á þetta atriði eins og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, að það þyrfti að jafna hinar miklu sveiflur sem eru í sjávarútvegi með þessum hætti. Ég tel mig hafa svarað því að ekki þurfi að óttast þær sveiflur með sama hætti og áður fyrr. Ég vil segja síðan að lokum, virðulegi forseti, að grundvallarforsenda fyrir afkastamiklum sjávarútvegi á Íslandi er að greinin fái að njóta að fullu tekna sinna á þeim tíma þegar þær myndast. Það tryggir að sjálfsögðu betri afkomu fyrir heildina og gerir það eftirsóknarverðara fyrir, ég vil segja unga menn að starfa í þessari atvinnugrein, þ.e. við útgerð og fiskiðnað. Þess vegna verður greinin að fá að njóta þeirrar uppsveiflu sem er á hverjum tíma. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að of mikil útjöfnunarsjónarmið sem nálgast svokallaðar núlllausnir geti verið mjög hættuleg í sambandi við þessa atvinnugrein. Útjöfnunarsjónarmið geta leitt til atgervisflótta í þessari atvinnugrein. Og þegar ég tala um atgervisflótta minni ég hv. þm. á það að hvergi í nokkurri atvinnugrein á Íslandi mun tæknivæðing vera komin á jafnhátt stig og í nýtísku íslenskum fiskiskipum. Það eru engir aular sem sitja þar í brúnni og stjórna þessum skipum og enn síður sá mannskapur sem er á dekki og framkvæmir verkin þannig að tæknin og mannshugurinn ráði þar við þá útfærslu sem nú er komin í sambandi við íslenskar fiskveiðar. Við Íslendingar megum ekki við því að atgervisflótti

eigi sér stað í útgerð og fiskvinnslu. Við sjósókn, við fiskvinnslu verður að vera okkar hæfasta fólk. Þess vegna má ekki nota góða stöðu þessara aðila til neikvæðrar, almennrar jöfnunar. Það eru úrelt sjónarmið og beinlínis mjög hættuleg fyrir Íslendinga í þeirri stöðu og vegna þeirrar framtíðarsýnar sem við horfum á í sambandi við nánari tengsl okkar við Vestur-Evrópu og þá miklu samkeppni sem þar ríkir. Í þessu eins og öðru vil ég segja að hjá ríkisstjórninni gæti ákveðins ósamræmis í störfum og stefnu.
    Einn flokkur segir: Frelsi og samkeppni. Við skulum fara inn í Evrópubandalagið gegnum EFTA. Þetta er sjónarmið Alþfl. Framsókn segir: Takmörkum samkeppnina. Höfum ákveðin afskipti af hálfu ríkisvaldsins, samanber þetta frv. Sleppum ekki miðstýringu. Spurningarmerki hvað gera skal í sambandi við Evrópubandalagið. Alþb. er svona á milli vita. Formaður flokksins er mjög framfarasinnaður og ég vil segja að hann vilji nálgast þau sjónarmið að ýmsu leyti sem við sjálfstæðismenn túlkum í afstöðu okkar til þessara mála. Þó er miðstýringin enn ofarlega í hugum margra í þeim flokki og varðandi Evrópubandalagið eru þeir eins og flestir aðrir íslenskir flokkar á móti því að Íslendingar gangi þar inn.
    Í stuttu máli er niðurstaða mín þessi: Í þessu frv. felst vinstri stefna, miðstýring, ákveðin lokun. Það eimir eftir af hinu lokaða hagkerfi í þeim kenningum sem fylgja þessu frv. hjá þeim hagfræðingum sem við höfum spjallað við. Í stuttu máli sagt byggist þetta frv. á stefnu framsóknar og þeirra Alþb. sem vilja enn þá ákveðið ófrelsi og kerfisstýringu.