Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um að Húsnæðisstofnun hafi neitað að taka á móti umsóknum sem lagðar hafa verið fram vegna greiðsluerfiðleika. Ég vil upplýsa hv. þm. um það að á sl. ári voru veittar um 290 millj. sem voru ætlaðar til lána úr Byggingarsjóði ríkisins á árinu 1989 fyrir íbúðareigendur í greiðsluerfiðleikum. Húsnæðismálastjórn afgreiddi um 760 umsóknir vegna greiðsluerfiðleika á árinu 1989. Á yfirstandandi ári, eins og kom fram í mínu máli þegar við ræddum þetta við fyrri umræðu, lágu fyrir 250 umsóknir í janúar. Það tókst að semja við viðskiptabanka og sparisjóði um 130 millj. sem ætlaðar voru til þessara umsókna. Mér var tjáð að þessi fjárhæð ásamt því sem eftir var á síðasta ári mundi duga til þess að afgreiða þessar 250 umsóknir. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að langt sé gengið á þessa fjárhæð en engu að síður er ég upplýst um að þessi upphæð muni duga fyrir þeim 250 umsóknum sem liggja fyrir. Ég veit ekki af hverju ríkisstjórnin ætti hér og nú að fara að samþykkja 200--300 millj. í greiðsluerfiðleikalán það sem eftir lifir ársins þegar ekki liggja fyrir umsóknir. Hún hlýtur að taka afstöðu til þess hvort og hvað mikið hún setur af fjármagni inn í þennan lánaflokk þegar umsóknir liggja fyrir. Annað væri óeðlilegt. Kannski þarf meira, kannski þarf minna. Engu að síður liggur það fyrir að þetta dugar fyrir umsóknum sem þegar liggja fyrir og Húsnæðisstofnun hefur ekki neitað að taka á móti umsóknum frá þeim sem hafa óskað eftir greiðsluerfiðleikalánum.