Starfslok efri deildar
Laugardaginn 05. maí 1990


     Forseti (Jón Helgason):
    Það er ljóst að þessi fundur í hv. Ed. er síðasti fundur deildarinnar á þessu þingi. Því vil ég að lokum þakka hv. deildarmönnum fyrir mjög gott samstarf á þinginu sem nú er að ljúka. Að sjálfsögðu hafa verið skiptar skoðanir um efnisatriði þeirra mála sem við höfum verið að fjalla um hér en menn hafa leitast við að greiða fyrir afgreiðslu svo að ég tel að til fyrirmyndar sé og fyrir það ágæta samstarf við hv. deildarmenn færi ég mínar bestu þakkir. Ég þakka einnig varaforsetum og skrifurum deildarinnar fyrir ágæta aðstoð. Þá vil ég þakka skrifstofustjóra Alþingis og starfsliði öllu fyrir mikla og góða samvinnu við alþingismenn og mig í mínu starfi.
    Miklar annir hafa verið núna í lok þingsins eins og jafnan áður, en þó held ég að óhætt sé að fullyrða að afgreiðsla mála hefur verið í fastari skorðum og skipulegri en oftast áður vegna þess ágæta starfsliðs sem hefur ráðist hingað til starfa á Alþingi til aðstoðar þingmönnum við nefndarstörf og fyrir það tel ég sérstaka ástæðu að þakka.
    Ég vil svo að lokum árna hv. deildarmönnum og starfsliði Alþingis allra heilla á komandi sumri og ég vonast til þess að við hittumst hér öll heil að hausti þegar Alþingi hefur störf að nýju.