Skipan prestakalla
Laugardaginn 05. maí 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir það hve vel og rösklega hún hefur starfað að þessu mikilsverða máli. Þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi og farið víða til umsagnar og umfjöllunar og ber þess merki á marga lund. Allar brtt. nefndarinnar sem hér eru fluttar eru í rauninni hluti af því og ég get í sjálfu sér vel fellt mig við þær allar. Varðandi brtt. hv. 1. þm. Vestf. vil ég segja þetta:
    Svipuð tillaga var flutt þegar málið var til umfjöllunar í hv. Ed. Þá kannaði ég nokkuð hug manna sem höfðu undirbúið frv., biskups og fleiri aðila. Með það í huga og enn fremur vegna þess að ég er því sammála að það þarf að finna betri lausn á þessu atriði en frv. ber með sér, þá vil ég lýsa fylgi mínu við það að sú aðferð verði viðhöfð sem formaður hv. allshn. Ed. gerði grein fyrir hér áðan. Verði sú tillaga samþykkt mun ég vitaskuld beita mér fyrir framkvæmd hennar.