Sveitarstjórnarlög
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég tel að með því að ætla að veðsetja tekjur sveitarfélaga fram í tímann sé farið út á mjög hættulega braut. Að mínu viti er það miklu eðlilegri hlutur þegar þannig stendur á að sveitarfélög eru í miklum vanda, að þau fái framlög úr Jöfnunarsjóðnum. Menn verða að gera sér grein fyrir því að það er varla við það búandi þegar skipt er um stjórn yfir sveitarfélagi að ný stjórn taki við því í því standi að búið sé að ráðstafa tekjunum fram í tímann. Ég er hræddur um að margur mundi hugsa sig um tvisvar ef hann stæði frammi fyrir því hvort hann ætlaði að búa áfram í því sveitarfélagi sem þannig væri búið að dæma til kyrrstöðu um þó nokkuð mörg ár. Og brottflutningur mundi náttúrlega þýða það að enn þá færri yrðu til að greiða.
    Ég geri mér aftur á móti grein fyrir því að ráðherra flytur þetta í þeirri von að með þessu verði hægt að leysa bráðabirgðavanda og Lánasjóður ísl. sveitarfélaga mundi lána þessum sveitarfélögum. Það út af fyrir sig er rétt, það mundi verða til að leysa þann hnút sem nú er. En ég persónulega tel að hér sé farið út á mjög hæpna braut. Ég mun ekki beita mér gegn þessu ákvæði en ég treysti mér ekki til að veita því stuðning vegna þess að mér sýnist að sú eina raunhæfa lausn á slíkum málum sem þessum sé að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé virkari og komi oftar inn til jöfnunar þar sem nauðsynlegt er.