Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Því miður er það staðreynd sem ekki verður umflúin að hv. fjh.- og viðskn. Nd. hefur ekki meðhöndlað þetta frv. eins og raunar hefði mátt búast við þar sem hér er um að ræða eitt af þýðingarmestu frv. sem allir eru í raun sammála um að þurfi að taka öðruvísi á, ríkisfjármálum og greiðslum úr ríkissjóði, en viðgengist hefur í áratugi. Þróunin á síðustu árum og síðustu missirum sannar svo áþreifanlega að þörf hefði verið á að taka af skarið um það hvernig rétt er að meðhöndla þessi mál, bæði með tilliti til stjórnarskrár landsins og þeirra nauðsynlegu aðgerða sem þarf að viðhafa í sambandi við þessi mál, ekki síst þar sem umfangið hefur margfaldast og tæknin orðin slík að það þarf að meðhöndla þetta á allt annan hátt en gert er.
    Það verður að harma að nefndin skyldi ekki taka þetta mál til meðferðar t.d með því að leita til hæfustu manna í þjóðfélaginu til þess að láta í ljós skoðun sína á þessum málum. Nefndin sem samdi frv., milliþinganefnd, leitaði aðstoðar hæfustu lögmanna eins og Sigurðar Líndals og Stefáns Más Stefánssonar um þessi mál. Það var því reynt af nefndarinnar hálfu að gera þetta eins vel úr garði og hægt var en hins vegar gerðum við okkur grein fyrir því að það þurfti að skoða ýmsa þætti frv. með tilliti til ýmissa annarra atriða og þess vegna reiknuðum við með því að málið fengi þinglega meðferð og þá umfjöllun sem slík mál verða að fá hér á hv. Alþingi til þess að geta gengið beint að afgreiðslu þeirra. Því miður var þetta ekki gert og ber að harma það.
    Hins vegar hefur komið í ljós að forusta ríkisstjórnarinnar, og þar á ég við hæstv. forsrh., hefur í seinni tíð haft mikinn áhuga fyrir því að þetta mál yrði tekið þeim tökum að það yrði skoðað til hlítar. Hann hefur raunar í viðtölum og ég reiknaði með að hann mundi staðfesta hér í hv. deild, en því miður er hann ekki viðstaddur, þannig að það væri ótvírætt að hann óskaði
eftir því að fá tækifæri til þess að vinna áfram að þessu máli með fjvn. Raunar hefur hið sama komið fram hjá hæstv. fjmrh. sem sýnir sig best í þeim punktum sem hann lagði fram þar sem hann tók ýmislegt upp úr nál. og skýrði það hér sem sína skoðun. Það er því út af fyrir sig eðlilegt úr því sem komið er að þetta mál fái slíka meðhöndlun í samráði við fjvn. milli þinga og komi fram sem heilsteypt frv. í haust sem allir aðilar sem hlut eiga að máli hafa áttað sig á að er hið þarfasta og brýnasta mál. Og ég segi fyrir mig að ef Alþingi gloprar niður þessu tækifæri að taka þetta mál föstum tökum þá er illa farið. Þess vegna treysti ég því með tilliti til þeirra viðtala sem ég hef átt við hæstv. forsrh. að þetta mál verði meðhöndlað milli þinga þannig að það verði alvara í því að afgreiða það þegar þing kemur saman. Það er hið rétta í þessu máli. Frv. þetta hefur vakið mikla athygli í þjóðfélaginu og menn undrast það af hverju Alþingi tekur ekki rögg á sig í sambandi við þetta mál þegar allar staðreyndir sanna að fáum

málum er eins brýnt að koma í fast og eðlilegt horf hér á Alþingi og fjármálum ríkisins og meðhöndlun fjárreiðu almennt hjá því opinbera, að það skuli ekki vera hægt að taka á því öðruvísi en að vísa málinu frá. Ég legg áherslu á þetta sjónarmið og í trausti þess að þetta mál fái þá meðferð sem ég hef hér lýst þá leggst ég ekki gegn nál.