Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Mér kemur út af fyrir sig ekki á óvart nöldur hv. 2. þm. Norðurl. v. Hann hefur verið með óttalegt harðlífi út af þessu máli, rokið upp hér hvað eftir annað utan dagskrár og verið óspakur. Ég viðurkenni ekki að það hafi verið unnið illa að þessu máli. Í nál. segir að hér sé hreyft mjög þörfu máli en það kann að vera að við höfum ekki komið auga á einhverjar veilur í frv. úr því að við komumst að þessari niðurstöðu.
    Mér finnst engin ástæða til þess fyrir hv. fjárveitinganefndarmenn, eða öllu heldur hæstv. fjárveitinganefndarmenn eins og mér ber sjálfsagt að titla þá, að vera óánægðir með þessa afgreiðslu. Nefndin tekur undir meginefni frv. Nefndin tekur undir það að heppilegt sé að setja um fjárgreiðslur fastari reglur og ég vil persónulega ítreka það að ég held að það sé heppilegt að setja fastari reglur um aukafjárveitingar. Ég tel hins vegar að þær eigi rétt á sér og frv. sé gallað að formi.
    Það liggur fyrir að hæstv. forsrh. hefur óskað eftir því að gerð væri lögfræðileg úttekt á þessu máli og þeirri úttekt er ekki lokið. Forustumaður að því er einn virtasti lögfræðingur þjóðarinnar, Markús Sigurbjörnsson. Hann hefur ekki haft tíma eða aðstæður til þess að ljúka þeirri athugun sem hann er að gera fyrir forsrh. og þá þegar af þeirri ástæðu er ekki tímabært að ganga frá þessu máli. Við vitum að verið er að vinna í málinu, við ætlumst til þess að það verði unnið að málinu áfram og í trausti þess gengum við svona frá því í nefndinni. Ég tek það fram enn og aftur að fjh.- og viðskn. var sammála um þessa afgreiðslu.
    Við ræddum þetta mál á þremur fundum, þó að menn hafi verið að spauga með það, einn skrökvaði nú að við hefðum á einum fundinum einungis rætt það í sjö sekúndur, annar hélt fram að það hefði ekki verið rætt nema í mínútu. Hvort tveggja er rangt. Þetta mál var tekið fyrir á þremur fundum og ítarlega
rætt í eitt skipti og engin ástæða eða aðstæður til þess að vinna meira að málinu á þessum vetri úr því að úttekt hæstv. forsrh. lá ekki fyrir.
    Út af fyrir sig er gott hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að líta stórt á sig og vera vandur að virðingu sinni, en mér finnst hann ganga aðeins of langt í þessu tilfelli með dreissugheitin og reisa sér hurðarás um öxl.
    Ég endurtek, ég tel að hér sé um að ræða mál sem þarf að athuga. Það þarf að setja fastari reglur um aukafjárveitingar en hafa verið í gildi. Ríkisstjórnin er inni á því líka og þess vegna er þetta mál á réttum rekspöl. Fjvn. er mjög mikilvæg nefnd en ef frv. yrði að lögum óbreytt þá er fjvn. orðin mikilvægasta nefnd í þjóðfélaginu og það verður meiri vandi að velja í hana en ríkisstjórn.