Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram frá hv. 1. þm. Vesturl. og 2. þm. Norðurl. v. Það er mjög miður að ekki skuli hafa verið tekinn sá tími sem til þurfti svo mál þetta gæti fengið efnislega meðferð í hv. fjh.- og viðskn. Ástæðurnar fyrir því eru tvær. Í fyrsta lagi sú að við, flm. málsins, sem lögðum það fram í desember, féllumst á ítrekaðar beiðnir frá hæstv. ráðherrum um að fresta umræðu um málið. Þó fór það svo þegar málið var loksins tekið til umræðu að sumir af þeim hæstv. ráðherrum sem höfðu beðið um frestun á málinu töldu ekki ástæðu til að tjá sig á einn eða annan veg. Önnur skýringin er sú að hv. 1. þm. Norðurl. v., og formaður fjh.- og viðskn., er andvígur málinu. En hann virti ekki málið meira en svo að eftir að hann sjálfur hafði lýst yfir andstöðu sinni við það hér og komið fram með ýmsar ábendingar sem hann taldi þarfari þá vék hann úr þingsal og hlustaði ekki einu sinni á það sem flm. höfðu um málið að segja. Hann gaf sér því engan tíma hvorki til þess að lesa frv., eins og glögglega kom fram í ræðu hans þegar málið var hér til 1. umr. því að vanþekkingin í þeim athugasemdum sem hann gerði við frv. var svo alger að það er óhjákvæmilegt að álykta að hv. þm. hafi aldrei lesið málið. En það var ekki bara það að hann vanrækti það, hv. þm., heldur vék hann úr þingsal strax eftir ræðu sína og tók ekki frekari þátt í meðferð málsins hér í deildinni, hlustaði ekki á það sem aðrir höfðu til málanna að leggja og áframhaldið var svo í þeim anda í hv. fjh.- og viðskn. Þar tók hv. þm., formaður nefndarinnar, málið ekki fyrir til efnislegrar meðhöndlunar. Það var ekki sent út til umsagnar, það var ekki kallað á einn eða neinn til að tjá sig um málið og þó lá það fyrir að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. höfðu báðir undirbúið sig undir það að veita efnislega umsögn um málið og báðir tveir falið embættismönnum í sínum ráðuneytum að undirbúa umsögn fyrir þá. En þeim gafst enginn kostur á því að
koma ábendingum sínum á framfæri við hv. fjh.- og viðskn. því hv. formaður nefndarinnar, sem var andvígur málinu og taldi ekki ástæðu til að lesa það né ástæðu til að kynna sér það sem þeir höfðu að segja sem málið fluttu og aðrir þingmenn sem til máls tóku hér, sá ekki ástæðu til þess svo mikið sem að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar í nefndinni.
    Ég vil aðeins láta það koma fram hér að hæstv. forsrh. hafði óskað eftir því að fá að tjá sig um þetta mál við þessa umræðu og hefði gert það ef hann hefði verið hér viðstaddur. Það sem hann mundi hafa óskað eftir við þessa umræðu og hafði sagt mér að hann mundi gera, og engin ástæða til að efa það, var að flm. frv. féllust á það að gefa honum og öðrum kost á því að koma á framfæri ábendingum sínum um þetta mál sem honum hefði ekki verið gefinn kostur á í meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. Og jafnframt hugðist hæstv. forsrh. bera þá ósk fram við flm. málsins að þeir féllust á að vinna með honum og

starfsmönnum hans að þeirri meðferð málsins í sumar sem átt hefði að fara fram í hv. fjh.- og viðskn. en ekki var gefið tækifæri til að þar gæti fram farið.
    Við fjölluðum um þessi tilmæli hæstv. forsrh. í fjvn. á síðasta fundi hennar og vorum sem flm. frv. einróma sammála um að fallast á óskir hans þannig að sú efnislega meðferð málsins sem átt hefði að eiga sér stað á Alþingi í vetur gæti þá orðið í sumar á grundvelli samkomulags forsrh. og flm. frv. þar um þannig að hægt yrði að leggja frv. fram að nýju, breytt eða ekki breytt, strax í upphafi næsta þings og þá lægi fyrir umsögn þeirra aðila, svo sem ríkisstjórnar og ráðuneyta, Lagastofnunar Háskólans o.fl., sem um þetta mál þurfa að fjalla.
    Ég vil einnig staðfesta það sem komið hefur hér áður fram að tveir mjög virtir lögfræðingar og raunar prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands hafa um þetta mál vélað. Við sendum það til umsagnar þeirra. Það er því auðvitað úr lausu lofti gripið að lagafróðir menn hafi ekki um málið fjallað. Ég ítreka einnig það sem hefur raunar komið fram hér áður en hv. 1. þm. Norðurl. v. auðheyrilega ekki hlýtt á, að tilgangur með þessu frv. er ekki sá að auka völd fjvn. heldur þvert á móti. Það mundi verða til að auka völd fjvn. ef fallist yrði á þá hugmynd sem hv. 1. þm. Norðurl. v. kom fram með í þeirri einu ræðu sem hann flutti um þetta mál þar sem hann lagði til að þær skorður yrðu reistar við aukafjárveitingum fjmrh. að hann þyrfti að fá leyfi fjvn. fyrir slíku. Með því móti væri verið að auka völd fjvn. því fjvn. hefur ekki fjárveitingavald fremur en ráðherra. Sú eina sem hefur fjárveitingavaldið er löggjafarsamkundan, Alþingi. Og það er ekkert meira réttlæti í því að fjvn. taki þetta vald, sem nefndin hefur ekki leyfi til að taka af Alþingi, það er ekkert meira réttlæti í því að fjvn. hafi þetta vald en eins og nú er að ríkisstjórn eða handhafar framkvæmdarvalds hafi það. Ef á hugmyndir hv. 1. þm. Norðurl. v. hefði því verið fallist í þessu sambandi þá væri verið að auka vald fjvn. En það er ekki tilgangurinn með frv. og ekkert af því sem í frv. stendur er þess eðlis, heldur þvert á móti gengur allt þetta frv. út á það að sækja aftur það vald sem Alþingi Íslendinga ber en ekki einstökum nefndum á þess vegum.
    Virðulegi forseti. það hefur verið rætt í svo mörg ár og svo oft og svo lengi að gera þyrfti einhverja bragarbót, og þá heldur meiri en minni, á þeim samskiptum sem verið hafa á undanförnum árum og áratugum milli löggjafarstofnunarinnar og framkvæmdarvaldsins. Svo margir þingmenn, þar á meðal mjög merkir þingmenn, gamlir í hettunni, menn eins og bæði Eysteinn Jónsson og Þórarinn Þórarinsson, ég nefni þá sérstaklega til sögunnar, tvo af merkum þingmönnum Framsfl., hafa bæði í rituðu og töluðu máli vakið sérstaka athygli á því að framkvæmdarvaldið væri farið að seilast allt of langt inn á verksvið löggjafarvaldsins og að snúa þyrfti við þeirri öfugþróun. En alþingismenn hafa ekkert gert meira í þessu máli en það eitt að tala. Þeir hafa kvartað um þetta ár eftir ár, bent á þessa agnúa, sagt

að bráðnauðsynlega þyrfti að gera einhverjar breytingar á en það hefur aldrei orðið annað en orðin tóm. Menn virðast bara bíða eftir því að framkvæmdarvaldið ákveði hvernig þessum málum skuli skipað ef breytingar eigi að gera. Og rís þá ekki löggjafarsamkundan undir nafni ef hún treystir sér ekki til að hafa skoðun á því sjálf eða frumkvæði um það sjálf hvernig hún hyggst verja réttindi sín og vald sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Það frv. sem hér er lagt fram er tilraun af hálfu hóps alþingismanna til að setja fram í lagatexta þær hugmyndir og ábendingar sem komið hafa fram í almennum umræðum hér á þinginu um ára og jafnvel áratuga skeið, en menn aldrei komið í verk að gera meira en bara tala um. Hópur þingmanna tók sig til og reyndi að setja einhvern lagatexta niður á blað sem gæti náð þeim markmiðum sem alþingismenn, hver um annan þveran, hafa haldið ræður um árum og jafnvel áratugum saman að gera þyrfti.
    Nú er ég ekki að segja að allt sem í frv. stendur sé kórrétt, sumu megi ekki breyta og annað megi ekki bæta. En það er auðvitað ekki til virðingar fyrir Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkomuna, að geta ekki eða vilja ekki taka á slíkum málum til afgreiðslu, gera þær breytingar sem samstaða er um að gera á frv. og afgreiða það síðan frá Alþingi án þess að ætlast ávallt og eilíflega til að framkvæmdarvaldið hafi vit fyrir löggjafarvaldinu í slíkum málefnum.
    Nú er það ekki hægt, virðulegi forseti, að afgreiða málið með þessum hætti. Hins vegar liggur það fyrir frá hæstv. forsrh. að hann hefur áhuga á því að skoða málið með okkur flm. sem vandlegast í sumar og gefa færi á því að vinna þá vinnu sem hefði þurft í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar en var þar ekki unnin og ég ætla ekki að endurtaka hvers vegna. Og við fögnum því, flm. frv., að fá þannig tækifæri til þess að halda áfram meðferð málsins og erum fúsir til þess að vinna með forsrh. að þeim störfum.