Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er afar mikilvægt og varðar í raun verkefnaskiptingu milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það er rétt sem kom fram hjá hv. frsm., að ég hafði þegar frv. kom fram fullan hug á því að láta skoða það mjög vandlega af löglærðum mönnum á þessu sviði og reyndar hófst sú athugun en því miður vannst ekki tími til að ljúka henni á nokkurn máta áður en málið fór til nefndar. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að skoða málið í sumar og fagna því að hv. fjvn. er reiðubúin að hafa samstarf um það. Ég fer því fram á að þetta mál verði ekki afgreitt núna en hins vegar vandlega skoðað í samstarfi mínu og hv. fjvn. og þá að því stefnt að frv. verði lagt fyrir Alþingi á haustþingi.