Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þau ánægjulegu tíðindi hafa nú gerst að ákveðin nefnd hefur skilað frá sér frv. þó að um nokkurt harðlífi hafi verið að ræða.
    Þetta leiðir hugann að því hver staða þingmanna er til þess að fá afgreiðslu á málum úr nefndum og gjörsamlega vonlaust við það að búa, herra forseti, að mál sem var samþykkt í Nd. í fyrra og sent til Ed. komst ekki frá henni þá, var aftur samþykkt í Nd. í vetur og fór til sjútvn. Ed. og situr þar fast, er ekki enn afgreitt þar úr nefnd. Ég hafði vissa samúð með nefndinni á meðan þar var til meðferðar stórt mál sem flutt var af sjútvrh. og hafði forgöngu í vinnu. En ég tel að þegar ég horfi upp á það að Ed. sefur nú svefni hinna réttlátu þessa stundina sé rétt að ýta á að þetta mál verði afgreitt úr nefnd. Og hvaða möguleika hefur þingmaður til að gera það? Þingmaður í Nd.? Hann hefur að sjálfsögðu ekki möguleika til að standa uppi í Ed. og krefjast þess af forseta þar að málið verði afgreitt úr nefnd. Hann hefur ekki tök á því. Hann hlýtur að verða að gera þær kröfur til forseta Nd. að hann ýti á það svo dugi að þetta mál fari úr nefnd. Það fær ekki staðist að frá 20. febr. og til okkar tíma sé ekki kominn eðlilegur umþóttunartími á afgreiðslu á máli sem samþykkt er í Nd. þar sem tveir þriðju hlutar þingmanna sitja. Og á sama tíma búum við við það að frá Ed. kemur eitt stærsta mál þingsins og það er ætlast til að það fari hér í gegn á örfáum dögum.
    Herra forseti. Ég hef ekki verið til þess að tefja fyrir því að hér gangi mál fram. En það er óvíst að ég hafi geðprýði til að bera til að vera til friðs ef svo fer sem horfir að þetta mál verði saltað í Ed. aftur á þessum vetri.