Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Það er eins með höfðingja Pál og aðra höfðingja, þeir þurfa stundum að láta segja sér hlutina þrem sinnum og skal ég nú gera það.
    Ég hef hér úr þessum ræðustól tvisvar sinnum lýst hvað fyrir okkur vakir með 2. gr. frv. Ég hef fengið hv. þm. Páli Péturssyni fyrir tveimur eða þremur dögum síðan nýjan texta að þeirri lagagrein sem varpar skýrara ljósi á það hvað við ætlumst til með flutningi hennar. Það virðist vera að hv. þm. hafi ekki einu sinni lesið það blað sem honum var þó afhent formlega í sæti sínu þannig að það þarf að segja hv. þm. hlutina oftar en þrem sinnum til þess að hann skilji þá.
    Hvað 10. gr. varðar þá er ég líka búinn að svara þeirri viðbáru hv. þm. og geri það nú í þriðja skipti. Þetta er sá háttur sem nú er hafður á þessum málum. Ef eitthvað kemur upp á, t.d. tjón í óveðrum eða annað slíkt, og hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin telja sig þurfa að grípa til tafarlausra aðgerða sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum, þá er þetta sá háttur sem hafður er á í því sambandi að hæstv. fjmrh. óskar eftir samstarfi við fjvn. Alþingis um þá hluti. Í þessari grein er ekkert sagt eða gert sem er ekki í samræmi við þann hátt sem tíðkast hefur í þessu sambandi. Þetta var búið að segja hv. þm. margoft og geri ég það nú í fjórða skiptið en ég held að það hafi ekki frekar möguleika á því að staðnæmast í hugsanakeðju þessa hv. þm. þó honum yrði sagt það fimm sinnum.