Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. meiri hl. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):
    Virðulegi forseti. Félmn. hefur komið saman milli 2. og 3. umr. og flytur sameiginlega þrjár brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér er til afgreiðslu. Ég ætla að kynna þessar brtt.
    1. brtt. er þess efnis að við 3. gr. bætist ný mgr. svohljóðandi: Heimilt er sveitarstjórn að fela félagsmálaráði umsjón og útleigu leiguhúsnæðis í eigu sveitarfélags.
    2. brtt. er einnig við 3. gr., ss.-lið, sem verður 95. gr., um að 1. mgr. orðist svo: Byggingarsjóður verkamanna skal að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings um félagslega íbúð kanna hvort kaupandi uppfyllir þá enn skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 80. gr. og upp frá því á þriggja ára
fresti. Uppfylli kaupandi ekki lengur þessi skilyrði skal breyta vöxtum hans þannig að þeir verði hinir sömu og gilda um almenn lán úr Byggingarsjóði ríkisins. --- Efnisleg breyting er að fara með árin úr átta niður í sex, að það verði fyrst kannað að sex árum liðnum hvort hagir hafi breyst og orðalagsbreyting í raun um orðun greinarinnar að öðru leyti.
    3. brtt. er að ákvæði til bráðabirgða orðist svo: Við gildistöku laga þessara taka húsnæðisnefndir við hlutverki stjórna verkamannabústaða eftir því sem við á. Enn fremur taka húsnæðisnefndir við réttindum og skyldum stjórna verkamannabústaða, þar með töldu húsnæði, tækjum og búnaði, skuldbindingum vegna verksamninga og framkvæmda og öðrum samningum eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð eða sveitarfélag ákveður. --- Þessi tillaga er um að hafa þetta ákvæði til bráðabirgða fyllra en var áður.
    Ég mælist til þess að brtt. verði samþykktar.