Raforkuver
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. meiri hl. iðnn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 1267 er fyrirliggjandi svofellt nál. meiri hl. iðnn:
    ,,Nefndin hefur athugað frv. vandlega og voru eftirtaldir kvaddir á fund hennar.`` Ég mun, herra forseti, ekki lesa þá romsu alla en 37 aðilar voru kvaddir á fund nefndarinnar.
    ,,Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 1098 eftir afgreiðslu Ed.
    Þótt ekki liggi fyrir samningar um byggingu álvers telur meiri hl. nefndarinnar nauðsynlegt að heimild fáist til að verja fjármunum, allt að 300 millj. kr., til rannsókna og undirbúnings virkjana á þessu ári samkvæmt ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar og að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar. Slík heimild er nauðsynleg til að greiða fyrir framkvæmd samninga ef þeir takast. Þá telur meiri hl. mjög mikilvægt að heimild sé lögfest til stækkunar Búrfellsvirkjunar.
    Með áliti þessu er birt sem fskj. kostnaðaráætlun frá Landsvirkjun um nauðsynlegan undirbúning í ár vegna virkjanaframkvæmda.``
    Undir þetta rita Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Birgir Ísl. Gunnarsson.
    Ég vil vekja athygli hv. þm. á fskj. sem er kostnaðaráætlun og hvernig hún dreifist á mánuði. Á því kemur í ljós að fyrirhugað er að nota meginhluta peninganna síðari hluta ársins og stemmir það saman við þau áform sem menn hafa uppi um samningagerð um álver.
    Ég verð að játa það að mér fannst nokkuð vandasamt að vinna að frv. Hér er Alþingi ætlað að veita heimildir til byggingar á raforkuverum en því miður liggur ekki fyrir hvað gert verði við orkuna. Vonir eru bundnar við að þrjú fyrirtæki vilji reisa hér álbræðslu en að mínu mati liggur ekki neitt fyrir sem bindur þessi þrjú fyrirtæki annað en viljayfirlýsing. Samningar hafa ekki tekist og ég hef það á tilfinningunni að það sé talsvert langt í land og mikið vatn renni til sjávar áður en þeir samningar nást ef þeir þá nást. Það er hins vegar ástæða fyrir Íslendinga að mínum dómi til þess að reyna að fá reista álbræðslu af þeirri ástæðu að við höfum offjárfest í virkjunum á undanförnum árum. Það hafa verið teknar rangar ákvarðanir um virkjanamál. Þær ákvarðanir hafa verið bundnar við að raforkunotkun í landinu yrði meiri en raun ber vitni og þar af leiðir að þessi offjárfesting bindur hendur okkar og offramleiðsla er að verða á rafmagni. Ef ekki kæmi til orkufrekur iðnaður eða einhver stórnotandi þá mun orka frá Blönduvirkjun duga eitthvað fram á næstu öld til að fullnægja þörfum hins almenna markaðar.
    Þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvort eðlilegt sé að slá af rafmagnsverði til þess að reyna að fá heldur eitthvað fyrir það en ekki neitt. Víst er það að illskárra getur verið að selja rafmagn fyrir lítið en að fá ekkert fyrir það. Gallinn á þessu er að plönin

eru mjög stór og orkunotkunin í svo stóru álveri sem hér er verið að tala um er það mikil að fjárfesting í virkjunum er verulegt átak og þarf að undirbúa í tíma. Að sjálfsögðu má ekki undir nokkrum kringumstæðum samningur um orkusölu til álvers leiða til þess að orkuverð til almennra notenda verði hærra en ella, enda er svo fyrir mælt í lögunum um Landsvirkjun að óheimilt er að gera slíka samninga sem ekki tryggja það.
    Þetta frv. er talsvert viðamikið. Raunverulega vantar ekki nema tvennt eins og stendur, þ.e. heimild til að taka að láni peninga til þess að vinna fyrir í ár við undirbúning virkjana og það vantar heimildarlög til þess að byggja síðari áfanga Búrfellsvirkjunar. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að byggja þessa virkjun við Búrfell sem næstu stórvirkjun hvernig sem á það er litið og það hefði verið fjárhagslega hagkvæmast að byggja hana á undan Blönduvirkjun. Þar af leiðir að ég tel rétt að lögfesta heimild til að virkja þar. Hvað varðar hinar 300 millj. sem farið er fram á að verja til virkjunarrannsókna og undirbúnings virkjana í sumar er, ef tímasetning álsamninga stæðist, nauðsynlegt að nota sumarið í sumar til þess að unnt sé að skapa hugsanlegu álveri orku. Það er eðlilegt að búa sig undir það þó hins vegar með því fororði að peningunum sé ekki varið nema með tilliti til samningahorfa. Það eru varnaglar í frv. samkvæmt því sem segir í bráðabirgðaákvæði II: ,,Landsvirkjun er heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að verja allt að 300 millj. kr. á árinu 1990 ...`` Með orðalaginu ríkisstjórn reikna ég með því að átt sé við ríkisstjórnina sem slíka þó að júridískt heyri málið sjálfsagt eingöngu undir orkumálaráðherra.
    Ég vil að endingu þakka formanni nefndarinnar fyrir framúrskarandi ötula vinnu við þetta mál og ég vil láta það koma sérstaklega fram vegna þess að hann á ekki samleið með okkur sem myndum meiri hl. við afgreiðslu málsins að ég tel að vinnubrögð hans við nákvæma skoðun hafi verið til fyrirmyndar og hann hraðaði afgreiðslu málsins svo sem frekast var kostur í nefndinni og gætti þess jafnframt að málið fengi ítarlega umfjöllun.