Raforkuver
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. iðnn. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. iðnn. sem leggur til að það frv. sem hér er til umfjöllunar verði fellt.
    Með frv. er leitað eftir samþykki Alþingis á breyttri virkjanaröð, heimildum fyrir nýjum virkjunum og stækkun annarra. Með frv. er einnig lögð til sú meginbreyting að iðnrh. skuli ákveða röð virkjanaframkvæmda og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum í stað þess að það sé í höndum Alþingis. Í ákvæði til bráðabirgða er Landsvirkjun veitt heimild til að verja allt að 300 millj. kr. á árinu til frekari framkvæmda við virkjanir en gert var ráð fyrir í upphafi ársins.
    Frv. er flutt ,,til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi`` eins og segir orðrétt í athugasemdum með frv. Það er því hluti af stærra máli, byggingu nýs risaálvers hér á landi.
    Ef einungis er miðað við almennan markað dugar sú raforka, sem nú hefur verið virkjuð, fram yfir næstu aldamót. Frv. er því óþarft. Nýjar virkjanir og sú mikla fjárfesting, sem þeim fylgir, eru því fyrst og fremst í þágu erlendra aðila sem vilja byggja hér álver. Á undanförnum árum hefur miklum fjármunum verið varið til undirbúnings virkjana án þess að séð væri að þörf væri fyrir þá orku sem kæmi frá þeim virkjunum í langri framtíð. Það væri því mjög óskynsamlegt að verja enn meiri fjármunum í virkjanaundirbúning og framkvæmdir eins og hér er gert ráð fyrir án þess að a.m.k. sé líklegt að hægt verði að selja orkuna fyrir það verð sem eðlilegt er að krefjast. Á þeim tíma, sem frv. er lagt fyrir Alþingi, liggur ekkert fyrir um hvort um samninga verður að ræða milli Landsvirkjunar og erlendu álfyrirtækjanna og hafa komið fram sterkar efasemdir frá aðilum, sem til þekkja, um að samningar takist. Get ég m.a. vitnað til orða hv. frsm. meiri hl. iðnn., hv. þm. Páls Péturssonar, sem sagði það hér í umræðunni áðan.
    Um árabil hafa ráðamenn verið uppteknir af því að það eina, sem bjargað gæti íslensku efnahagslífi, væri bygging nýs álvers. Fullvíst er að þeim fjármunum, sem áætlað er að eyða til þessara stórframkvæmda af Íslendinga hálfu, væri betur varið til atvinnuuppbyggingar á öðrum sviðum. Álver það, sem nú eru hugmyndir um að byggt verði hér á landi, veitir aðeins rúmlega 600 manns atvinnu þegar byggingarframkvæmdum er lokið. Slík uppbygging er því engin lausn fyrir þann fjölda sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum. Gert er ráð fyrir að álver muni kosta um 50 milljarða króna og virkjanir því tengdar nær annað eins. Þarna er því gert ráð fyrir óhemju fjárfestingu fyrir hvert starf.
    Þrír staðir hafa aðallega verið nefndir fyrir álver: Eyjafjörður, Reyðarfjörður og höfuðborgarsvæðið. Í samræmi við annað í þessu máli hefur það, að því er virðist, verið lagt í hendur erlendu aðilanna hvar á landinu verksmiðjan skuli reist. Ef á annað borð á að byggja hér álver verður það að vera í höndum Íslendinga sjálfra að ákveða hvar það verður sem og

aðrar grundvallarforsendur í málinu.
    Umhverfismál eru stór þáttur sem tengist nýju álveri. Í þeim efnum verður að gera ýtrustu kröfur um mengunarvarnir og ekki minni en gerðar eru í nágrannalöndunum. Reynslan af álverinu í Straumsvík ætti að sýna okkur að verksmiðjueigendur ganga eins langt og hægt er til að koma sér hjá kostnaði við mengunarvarnir. Í samkomulagi milli íslensku ríkisstjórnarinnar og Alusuisse eru ákvæði um að mengunarvarnir skuli vera samkvæmt góðum siðvenjum í öðrum löndum. Allir vita hverjar efndirnar hafa verið.
    Víst má telja að bygging 200 þús. tonna álvers með öllu, sem því fylgir, mun hafa veruleg áhrif hér á landi þótt ekki séu allir sammála um hvort þau áhrif yrðu jákvæð. Í athugasemdum með frv. er gerð tilraun til að meta hve mikið hagvöxturinn muni aukast vegna byggingar álvers. Reiknimeistarar frv. hafa komist að því að álver muni auka hagvöxt á mælikvarða landsframleiðslu um 1% á ári næstu árin. Ýmislegt er vert að athuga í þeim útreikningum. Óeðlilegt er að taka með í reikninginn vexti og arðgreiðslur sem fara til útlendinga eins og gert er í þessum útreikningum. Ef tekið er tillit til þessara þátta verður hagvöxtur verulega minni. Ekki er heldur gerð nein tilraun til þess að meta hvaða áhrif það hefði ef hliðstæð fjárfesting yrði í íslenskri atvinnustarfsemi. Ekki er tekið tillit til áhrifa á umhverfið og félagslegrar röskunar við útreikninga á slíkum þjóðhagsstærðum. Aukning í hagvexti er því slæmur mælikvarði á hag fólks og velferð sem og áhrif á umhverfi þegar til lengri tíma er litið.
    Í umræðum á Alþingi og í fjölmiðlum hefur það verið notað til að sannfæra fólk um ágæti og nauðsyn þess að reisa hér álver að hvert tonn af áli skili jafnmiklu til þjóðarbúsins og hvert tonn af þorski. Þessi fullyrðing sýnir hve auðvelt er að beita töfrabrögðum með tölum til að slá ryki í augu fólks. Það er erfitt að sjá hvaða tilgangi það hefur verið talið þjóna að setja fram svo villandi fullyrðingar. Útreikningar Þjóðhagsstofnunar sýna að hreinar gjaldeyristekjur eru tvö- til þrefalt meiri af þorsktonni en áltonni. Þó eru ekki teknir inn í það dæmi vextir af innlendri fjárfestingu sem á uppruna í
erlendum lánum og er því ljóst að hlutfallið milli þorsktonns og áltonns er enn hærra ef þessar forsendur væru teknar með í dæmið eins og eðlilegt væri.
    Reikna má með að um helmingur fjárfestingar í nýju álveri verði af innlendum toga, eða u.þ.b. 45 milljarðar kr. Ef ekkert er að gert mun sú fjárfesting hafa í för með sér röskun og verðbólgu. Til að draga úr þenslu hefur verið talað um að draga úr framkvæmdum hins opinbera meðan á stóriðjuuppbyggingu stendur. Virðist þá helst litið til vegagerðar og annarra byggingarframkvæmda í því sambandi. Engin áætlun liggur þó fyrir um hvernig þetta megi gera.
    Aukin stóriðja mun auka skuldasöfnun okkar erlendis en nú nema erlendar skuldir um helmingi af

landsframleiðslunni.
    Gert er ráð fyrir að selja 2800 gwst. af raforku til 200 þús. tonna álvers. Nær útilokað er fyrir Alþingi að meta hvort hægt verði að standa við ákvæði 13. gr. laga um Landsvirkjun ef af sölu á raforku verður til nýs álvers. Þar er kveðið á um að orkusölusamningar við iðjuver til langs tíma megi ekki valda hærra orkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir til iðnrn. og Landsvirkjunar var nefndinni ekki veittur sá trúnaður að hún fengi þær upplýsingar sem gerðu henni kleift að meta þetta atriði. Óljósar upplýsingar voru gefnar um að sala á raforku ,,gerði gott betur en að standa undir flýtingarkostnaði vegna virkjana`` sem og að verð til almennings yrði ekki hærra en ella hefði orðið. Á grundvelli svo óljósra upplýsinga er ekki hægt að gera sér grein fyrir hvort raforka frá virkjunum, sem verið er að veita heimildir fyrir, geti selst á viðunandi verði.
    Í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl. nefndarinnar, kom fram að hann teldi að svo mikil umframorka væri í raforkukerfinu að það réttlætti að selja raforku til útlendinga á afsláttarprís. Þetta er furðuleg afstaða stjórnarmanns í Landsvirkjun. Ég teldi miklu eðlilegra að ef um umframorku væri að ræða yrði hún seld á innlendum markaði og þá við lægra verði, ef það teldist fært af hálfu Landsvirkjunar. Það er ekki langt síðan við ræddum það hér í þessari hv. deild að eðlilegt væri að veita afslátt til fólks utan hinna svokölluðu heitu svæða á raforku til húshitunar. Þannig tel ég miklu eðlilegra að raforkan væri notuð í þeim tilgangi fremur en að afhenda hana erlendum aðilum við allt of lágu verði.
    Gert er ráð fyrir að orkuverð verði tengt verði á áli. Því fylgir veruleg áhætta. Á undanförnum árum hefur verð á áli sveiflast mjög. Ef slíkar sveiflur verða álíka og verið hefur munu tekjur af orkusölu verða mjög sveiflukenndar, jafnvel um tap að ræða um lengri eða skemmri tíma. Þegar haft er í huga að eftir byggingu 200 þús. tonna álvers yrðu rúmlega 60% af orkusölu Landsvirkjunar tengd verði á áli er ljóst að verið er að taka verulega áhættu með því að tengja svo stóran hluta raforkusölunnar við álverð á heimsmarkaði. Enn meiri áhætta verður tekin ef áform um byggingu 400 þús. tonna verksmiðju verða að veruleika en þá má búast við að um 70% af raforkusölu verði til stóriðju. Það getur því lent óþyrmilega á almennum raforkunotanda ef verð á áli helst lágt um langan tíma á heimsmarkaði.
    Á síðustu mánuðum hefur orðið sú jákvæða þróun að líkur hafa aukist verulega á afvopnun og að þar með muni draga verulega úr framleiðslu hergagna. Þetta hefur að öllum líkindum áhrif á álverð. Þess má einnig geta að nýlega bárust um það fréttir að tengsl gætu verið milli Alzheimer-sjúkdómsins og notkunar á álumbúðum fyrir mat- og drykkjarvöru. Ef eitthvað er hæft í þessum fréttum má búast við að notkun áls í umbúðir muni dragast verulega saman. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar er talið að
aukning í eftirspurn eftir áli verði ekki síst vegna

vaxandi notkunar á áli í umbúðir, sérstaklega fyrir drykkjarvöru. Þrátt fyrir fyrirspurn um það hversu mikið af álframleiðslu færi til hergagnaframleiðslu fengust ekki upplýsingar um það hjá markaðsskrifstofunni. Skýringin var sú að það væri hvergi sundurliðað þannig að ekki er gott að gera sér grein fyrir því hversu mikil áhrif minnkun hergagnaframleiðslu muni hafa í þessu sambandi.
    Þar sem mörgum veigamiklum þáttum málsins er haldið frá Alþingi er útilokað að gera sér grein fyrir áhrifum þess á raforkuverð til almennings og hve mikil sú áhætta er sem þarna á að fara að taka.
    Fullyrt er að tryggðar verði fullnægjandi kröfur um mengunarvarnir og umhverfisvernd í nýju álveri. Enn virðist þó ekki vera búið að skilgreina hvað er fullnægjandi í þessu sambandi og er ástæða til að óttast þá hlið málsins. Mengun frá álverum er einkum ryk, flúoríð, brennisteinsdíoxíð og úrgangur frá kerum og skautum. Allir þessir þættir geta valdið skaða í umhverfinu. Því er mikilvægt fyrir okkar viðkvæmu náttúru að gera miklar kröfur til mengunarvarna og þá einnig til álvers ef það verður byggt hér á landi. Brennisteinsdíoxíð er eitt þeirra efna sem valdið hafa stórfelldum skaða í umhverfinu. Í Evrópu hafa heilu skógasvæðin beðið alvarlegan hnekki vegna mengunar. Í Noregi og Svíþjóð hefur súrt regn valdið því að fiskur í ám og vötnum hefur drepist og sums staðar hefur súrnunin valdið aldauða í vötnum. Auk þess getur brennisteinsdíoxíð haft áhrif á heilsu fólks, valdið eyðileggingu á menningarverðmætum og tæringu á málmum. Nú er lagt kapp á það á
alþjóðavettvangi að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs út í andrúmsloftið. Í upplýsingum sem mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins gaf nefndinni segir m.a., með leyfi forseta: ,,Á Íslandi erum við svo lánsöm að þurfa lítið að nota orkugjafa sem valda mikilli brennisteinsdíoxíðmengun. Við getum því gert þær kröfur til okkar umhverfis að mengun af þessum völdum sé í lágmarki og þannig tekið mið af viðkvæmasta þættinum, þ.e. gróðri, þegar sett eru viðmiðunarmörk fyrir þetta efni. Í mengunarvarnareglugerð, nr. 386/1989, eru fyrir brennisteinsdíoxíð sett mörkin 50 míkrógrömm á rúmmetra sem sólarhringsmeðaltal en 30 míkrógrömm á rúmmetra sem ársmeðaltal. Þessi mörk taka mið af því að minnsta magn brennisteinsdíoxíðs sem þekkt er að geti valdið gróðurskaða eru 30 míkrógrömm sem langtímameðaltal. Samsvarandi gildi fyrir heilsufar fólks er 100 míkrógrömm á rúmmetra.`` Þarna eru kröfur í mengunarvarnareglugerð miðaðar við viðkvæmasta gróðurinn.
    Svo segir áfram í bréfi Hollustuverndar: ,,Viðmiðunarmörk eru að jafnaði hærri eftir því sem viðmiðunartíminn er skemmri þar sem sveiflur jafnast út á lengri mælitíma. Þar sem veðurfari á landinu er þannig háttað að gróður á erfitt uppdráttar er ekki síst ástæða til að vernda gróðurinn fyrir mengun þar sem það er mögulegt.``
    Það er því mikilvægt að ekki sé slegið af að því er varðar ýtrustu kröfur um hreinsun á þessu efni.

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að lítið sé gert úr hættu af brennisteinsdíoxíðmengun vegna álvers hér á landi. Slíkt verður að telja mikið áhyggjuefni. Bent hefur verið á að víða hér á landi hafi jarðvegur meiri möguleika á að taka við vetnisjónum en víða annars staðar og því þurfi ekki að gera eins strangar kröfur varðandi efni sem valda súrnun. Í þessu sambandi virðist það alveg gleymast að skaðleg áhrif á gróður eru fyrst og fremst vegna beinna áhrifa á plöntur þótt auðvitað hafi súrnun jarðvegs einnig veruleg áhrif.
    Á fundi Náttúruverndarráðs 3. maí 1990 var samþykkt bókun þar sem lögð er áhersla á að ýtrustu kröfur verði gerðar til mengunarvarna í nýju álveri sem kunni að verða reist hér á landi. Náttúruverndarráð leggur sérstaka áherslu á að ekki verði slakað á kröfum varðandi hreinsun á brennisteinsdíoxíði. Bréf Náttúruverndar fylgir með nál. 2. minni hl. sem fskj. En það sem ég vil benda sérstaklega á í því er að þar er lögð mikil áhersla á að um vothreinsun á brennisteinsdíoxíði verði að ræða og segir að ýmsar tegundir plantna hér á landi séu viðkvæmari fyrir mengun en í nágrannalöndunum vegna erfiðra lífsskilyrða. Þetta er mjög mikilvægt atriði að hafa í huga þegar kröfur eru gerðar um mengunarvarnir.
    Mikilvægt er að með umhverfis- og mengunarmálin verði ekki farið þannig að hugtakið ,,ýtrustu mengunarvarnir`` verði skilgreint upp á nýtt og að gefið verði eftir í þessum efnum.
    Nú er gert ráð fyrir að ákvörðun um hvort Atlantsálsaðilarnir reisi hér álver verði tekin í lok júní. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram komu í nefndinni, eru fjölmörg atriði óviss. Auk þeirrar óvissu, sem er um orkuverð og álverð, sem á að verða grunnurinn að verðlagningu, hefur ekki verið upplýst hvert verði fyrirkomulag skattlagningar fyrirtækisins, kröfur um mengunarvarnir hafa ekki verið ákveðnar og staðarval er enn óljóst. Það er því ábyrgðarhluti að ætla sér á þeim stutta tíma, sem gefinn er, að taka ákvarðanir um svo mörg og mikilvæg atriði. Hætta er á að staða íslenskra samningamanna verði veik ef ekki liggur skýrt fyrir hverjar séu grundvallarforsendur af Íslands hálfu í slíkum samningum.
    Sú stefna í atvinnumálum, sem mörkuð er með þessu frv., er varhugaverð fyrir Ísland. Stóriðja svarar einungis að mjög takmörkuðu leyti þörf fyrir fleiri störf og meiri fjölbreytni í atvinnulífi. Hún leysir ekki vanda kvenna sem nú eru atvinnulausar víða um land og eru jafnan fyrst látnar víkja þegar atvinnuleysi segir til sín.
    Fullvinnsla sjávarafla og iðnaður, sem hentar okkar fámenna og viðkvæma landi, eru vænlegri kostir en þau stóriðjuáform sem nú er einblínt á. Ferðaþjónusta er einnig vænlegur kostur fyrir okkur. Það verður erfitt að skapa jákvætt viðhorf til Íslands sem matvælaframleiðslu- og ferðamannalands ef ekki verður breytt um stefnu nú þegar. Mengun hefur aukist hér undanfarin ár og nú á að auka þar enn við

með stóriðju.
    Fólk er almennt að vakna til vitundar um að jörðinni hefur verið ofboðið með mengun og eyðingu auðlinda og nú þurfi að snúa við blaði. Álframleiðslu tengir enginn við friðsæla og óspillta náttúru, heldur fremur við mengun og ófrið. Álver á hverju landshorni eru ekki líkleg til að laða hingað ferðamenn né heldur skapa jákvæða ímynd af matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er sama hve margir verða til þess kallaðir að þeysast um heiminn til að sannfæra fólk um að hér sé að finna frið og ró og óspillta og ómengaða náttúru, staðreyndin sem við blasir er önnur ef ekki verður stefnubreyting.
    Kvennalistakonur telja að aukin stóriðja og virkjunarframkvæmdir í hennar þágu séu ekki lausn á þeim vanda sem við blasir í íslensku atvinnulífi.
Ókostir slíkra lausna eru yfirgnæfandi. Þingkonur Kvennalistans munu því greiða atkvæði gegn frv.