Raforkuver
Laugardaginn 05. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég styð að sjálfsögðu meirihlutaálitið, á sæti í nefndinni og hef fylgst með þessu máli. Ég vil eins og aðrir nefndarmenn þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það ötula starf sem hann hafði forgöngu um í nefndinni og varð ekki til að tefja málið. Ýmsar merkar upplýsingar komu fram sem ég tel að hafi gert það að verkum að enn meiri ástæða sé til þess að styðja þetta frv.
    Ég vil leggja áherslu á það, og það kemur fram í þessari umræðu og reyndar í nefndarstörfunum, að ekki er einhugur meðal stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar. Þvert á móti virðist vera talsverður brestur í þessu máli og sést það best á ítarlegri ræðu formanns nefndarinnar þegar hann flutti framsöguræðu sína fyrir 1. minnihlutaálitinu. Ég hef áhyggjur af því, og deili þeim með ýmsum öðrum, að sú sundurlynda ríkisstjórn sem hér situr geti orðið þess valdandi að tafir verði á eðlilegum samningaviðræðum og niðurstaðan kunni að verða í hættu, enda sýnast málin vera þannig að innan Alþb. séu öfl sem ætli sér að koma í veg fyrir það að hér verði byggð upp stóriðja í samstarfi við erlenda aðila á næstu árum. Það er athygli vert að í Nd. hefur enginn af svokölluðum talsmönnum Alþb. tekið til máls annar en hv. 2. þm. Austurl., sem reyndar er fyrrv. iðnrh. og hefur löngum verið talinn helsti talsmaður flokksins í iðnaðar- og orkumálum.
    Yfirlýsingar hæstv. menntmrh. í Ed. voru ekki afspyrnuskýrar og virtust koma fram hjá honum ýmis skilyrði og forsendur fyrir því að Alþb. gæti staðið að frekari samningsgerð sem byggðist á þeim hugmyndum og áætlunum sem fyrir liggja varðandi samstarf við útlendinga um álver. Þetta frv. fjallar hins vegar ekki um álver heldur um undirbúning, rannsóknir vegna hugsanlegra raforkuvera sem reisa þarf ef af samningum verður.
    Ég hygg, herra forseti, að Alþb. hafi ætlað sér að ná tökum á þessu máli, m.a. með því að setja í ákvæði til bráðabirgða II ákvæði þess efnis að Landsvirkjun sé heimilt að verja allt að 300 millj. kr. á árinu 1990, ,,að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar``. Nú er það svo að ef skoðuð eru önnur ákvæði frv., þá segir í 2. gr. frv. að iðnrh. sé heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun. Í 3. gr. segir að iðnrh. ákveði röð framkvæmda. Í 4. gr. segir að iðnrh. gefi Landsvirkjun leyfi og að iðnrh. heimili Landsvirkjun. Þegar þessi ákvæði eru skoðuð gæti maður ætlað að hugtakið ,,ríkisstjórn`` í bráðabirgðaákvæði II þýddi ríkisstjórnin öll. Svo er ekki.
    Kennari minn í lagadeild Háskólans, fyrrum forsrh. Ólafur Jóhannesson, sagði margoft frá því, öðrum hv. þm. til glöggvunar, að ríkisstjórn Íslands væri ekki fjölskipað stjórnvald. Með öðrum orðum, þegar hugtakið ríkisstjórn kemur fyrir í lögum er átt við þann ráðherra sem í hlut á. Þess vegna skiptir ekki máli hvort í bráðabirgðaákvæði II stendur:

,,Landsvirkjun er heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar`` eða hvort þar segir: ,,Landsvirkjun er heimilt að fengnu samþykki iðnrh.`` Það er enginn merkingarmunur á þessum tveimur hugtökum í þessum lögum, jafnvel þótt einhverjir samningar hafi farið fram innan ríkisstjórnarinnar um að þetta þýði sitt hvað.
    Þetta segi ég vegna þess að það hefur þýðingu að átta sig á þessu. Til að mynda ef hæstv. ríkisstjórn færi frá á næstu dögum, sem ég á nú ekki sérstaklega von á, og ný ríkisstjórn tæki við, þá er alveg augljóst hvernig skýra á þetta lagaákvæði. Hitt er svo annað mál að í ríkisstjórnarsamstarfi geta menn gert með sér samning um það hvernig með mál skuli fara og þar geta menn í pólitísku samstarfi auðvitað ákveðið að þeir taki ekki vissar ákvarðanir nema með leyfi fulltrúa eða ráðherra úr öðrum stjórnarflokkum. Slíkt er sjaldnast, ef nokkurn tíma, lögbundið heldur byggir á siðferðilegum grunni. Slíkt bindur aldrei nýjar ríkisstjórnir. Ég vek athygli á þessu því þetta hefur þýðingu. Það er vissulega ástæða til þess enn á ný að reyna að átta sig á hvort það sé rétt sem hefur verið haldið fram, að hæstv. iðnrh. sé siðferðilega bundinn af einhverju samkomulagi sem ekki kemur fram í þessum heimildarlögum, siðferðilega bundinn til þess að bera ákvarðanir sínar í þessum málum undir samráðherra sína og um hvaða álitaefni er að ræða. Ég hygg að ég fái ekki svar við þessari spurningu frekar en hv. formaður nefndarinnar fékk svör við ýmsum þeim spurningum sem hann vildi fá upplýsingar um og svör við. En ég bendi á að lagatúlkunin hlýtur að vera þessi, ef það skyldi vera í huga einhverra að þeir hefðu náð auknum rétti með því að setja inn: ríkisstjórn í stað ,,iðnrh.``
    Það eina sem ég vildi segja til viðbótar, virðulegur forseti, er það að við sjálfstæðismennirnir í nefndinni höfum reynt að greiða fyrir þessu máli, viljum greiða fyrir því þannig að það geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi. Og að við gætum þannig greitt götu þess að hægt sé að stefna að samkomulagi um þetta mál, samningum við þá erlendu aðila sem sýnt hafa áhuga á því að reisa og reka iðjuver, eins og um hefur verið talað, hér á landi. Ég minni á að það var í tíð síðustu ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Þorsteins
Pálssonar, sem lagður var grunnur að þessu starfi. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar að síðan hefur verið haldið þannig á málinu að hvergi hefur verið hvikað frá þeirri stefnu sem þá var mörkuð. Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvort Alþb. hefur fyrirvara eða hvort yfirlýsingar hæstv. ráðherra Alþb. eru eingöngu í nösunum á þeim, eins og sagt var í blöðunum um daginn. En vissulega vonast ég til þess að liðin sé sú tíð að Alþb., aðrir en einstakir alþýðubandalagsþingmenn, reyni að leggja stein í götu þess að hægt sé að auka hagvöxt hér á landi og bæta lífskjörin með því að nýta þær auðlindir sem hér eru til, breyta þeim í gjaldeyri, öllum íslenskum borgurum til hagsbóta.