Raforkuver
Laugardaginn 05. maí 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að tala hér mjög langt mál þó ég sé með töluvert meðferðis. En það er óhjákvæmilegt að fara betur ofan í sum þau atriði sem hér hefur verið rætt um.
    Það er misskilningur hjá hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur að aðeins sé fyrirhugað að fjárfesta fyrir 40 milljarða. Eftir þeim tölum sem Landsvirkjun gefur upp þarf að fjárfesta, til að fá það orkumagn sem álbræðslan er talin þurfa, fyrir 48,7 milljarða. Og eftir svörum Landsvirkjunar er alls ekki ætlað að taka meðaltal af þeim virkjunarkostum sem er búið að athuga og gera áætlanir um, sem er auðvitað sjálfsagt mál því ef það er ekki gert verða þeir sem síðast þarf að virkja fyrir að greiða meira, en þá þyrfti þetta að vera um 7 milljörðum meira. Það er dálítið merkilegt hvernig Landsvirkjun setur fram sumar upplýsingar, þó að svör þeirra við öðrum spurningum séu mjög ófullkomin. Þeir segja t.d. að á byggingartímanum reikni þeir með 5,5% vöxtum. Getur hæstv. iðn.- og bankamálaráðherra útvegað mér nokkra milljarða með 5,5% vöxtum?
    Það er líka sagt að reiknað sé með 4--7% vöxtum af fjárfestingunni allri. Hvað eru vextir hér hjá okkur og erlendis? Það fær enginn lán til langs tíma fyrir minna en 8--8,825% raunvexti. Vextir eru að stíga erlendis og eru meira að segja komnir upp hjá járnfrúnni, miðað við 12 mánaða vexti, í 15,6%. Vextir eru alls staðar að hækka og það er sagt að erlendis sé yfirleitt talað um að í þessari tölu sé 2--3% verðbólga. Það er auðvitað hægt að koma með svona tölur sem eru algerlega út í loftið, langt frá öllum veruleika. Og hver á að borga? Ætlar hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir því að það verði svo köldu svæðin sem verði látin borga mismuninn þegar fram líða stundir? Það verður náttúrlega að gera kröfur, ef á að fara út í svona ævintýri sem ég kalla, um
að þessum virkjunum verði alveg haldið sér og eigendurnir borgi og beri ábyrgð á að gera svona samning, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyri. Ég mun beita mér fyrir því á næsta þingi að fjallað verði um þá leið hér í þingsölunum.
    Hvar verður svo þetta álver, þessi draumur fyrrv. iðnrh. og núv. iðnrh.? Þessi draumur um álver, þessi þráhyggja að ekkert komi til greina í atvinnuuppbyggingu á Íslandi nema álver. ( FrS: Þetta er rangt.) Þetta er rétt. Ég spurði Þjóðhagsstofnun að því hvaða samanburð hún hefði, annars vegar um að byggja álver, hver hagvöxturinn yrði, eða að byggja eitthvað annað. Hvert var svarið? Við höfum engan samanburð. Það hefur ekki verið leitað eftir neinu öðru. Og svo segir hv. 1. þm. Reykv. að það sé rangt. ( FrS: Það er ekki það eina.) Það hefur ekkert komið frá þessum ráðherrum um hvað væri hægt að auka hagvöxtinn ef farið væri út í aðrar fjárfestingar. Það er málið.
    Hvar verður svo þetta álver reist? Ég spurðist fyrir um það hjá mengunarvörnum Hollustuverndar hvort líklegt væri að þeir mundu mæla með því að reist

yrði álver í Eyjafirði. Það mætti náttúrlega byggja það hérna hjá ráðhúsinu mín vegna. En mér var sagt að lögð væri til grundvallar reynslan frá því að staðarvalsnefnd athugaði þessa hluti. Viðmælandi minn var alveg undrandi á því að farið væri að skoða þetta aftur. Ég spurði um líkur fyrir því hvað færi mikið af fosfóri út. Svarið var: Við munum gera kröfu til 0,8% en miðum við 1%. Það hefur ekki náðst betri árangur. Ég spurði þá: Er þá ekki skárra að setja þetta við Reyðarfjörð? Nei, Reyðarfjörð, ekki er veðurfarið nú betra þar. Veðurfarið og lokunin þar, ekki er það nú betra. --- Hvað hugsa ráðamenn þjóðarinnar? Er það ekki eins og ég var búinn að segja hér fyrr í vetur? Það hefur aldrei komið til mála að byggja neitt álver nema einhvers staðar á Reykjanesi, það hefur aldrei komið til mála. Allt hitt er sýndarmennska, einfaldlega vegna þess að skynsemin ræður stundum, þó það sé nú því miður ekki ævinlega.
    Og hvernig er svo boðskapurinn? Boðskapurinn er að byggja 400 þús. tonna álver. Það verði búið á 10 árum, næstu 10 árum. Boðskapurinn er sá að draga úr öðrum framkvæmdum, t.d. úti um land og hv. 1. þm. Reykv. sagði hér á dögunum að það þyrfti að gera það. Hann nefndi t.d. jarðgöng á Vestfjörðum en sagði svo aftur: Ja, ég meinti það ekki, en nefndi samt sem áður jarðgöng á Vestfjörðum. Auðvitað sjáum við hver byggðastefnan verður hjá þessum mönnum ef þeir ná völdum í landinu. Það verður að byggja álver á þessum áratug á Reykjanesi, ef þeir finna einhverja sem vilja borga það mikið fyrir orkuna að þeir treysti sér til þess að borga mismuninn með einhverum hætti niður. Það skal verða hart ef það á að láta köldu svæðin gjalda þess, það skal verða hart. Og eftir því sem ég skoða þetta betur og betur, þá finn ég alltaf fleiri og meiri rök fyrir þeirri vitleysu sem er hér verið að ræða um. Ég er algerlega á móti því að farið verði í nokkrar framkvæmdir og ég tel að hæstv. iðnrh. hafi ekkert leyfi til þess, öðruvísi en fyrir liggi samningar. Og að þessir erlendu álfurstar, sem ég kalla svo, segi að þeir séu vanir því að gera ekki samninga fyrr en orkan liggi fyrir. Ég skil þá vel. Ég veit hvernig er verið að fara með þessa þróunarsjóði, ég er búinn að kynna mér það. En ég hélt nú satt að segja að við mundum ekki láta niðurlægja okkur þannig að hægt væri
að bera okkur saman við vinnubrögðin sem viðgangast gagnvart þeim. En það væri sami samanburður ef við færum að virkja og semja svo síðar um orkuna.
    Ég mun greiða atkvæði á móti þessu frv. Ég þykist vera búinn að færa fyrir því rök að verði álver byggt, þá verði það á Reykjanesi. Það hefur komið fram hjá ráðherrum og ráðamönnum og forustumönnum flokkanna að það þurfi þá að draga úr framkvæmdum annars staðar. Sem sagt, það á að flýta fyrir flutningunum af landsbyggðinni. Það er stefnan þótt þeir segi fyrir kosningar að þeir vilji halda byggðinni við. En það er annað þegar kemur að framkvæmdinni.
    Þrátt fyrir það að þetta frv. verði samþykkt tel ég að hæstv. iðnrh. hafi ekki leyfi til að fara út í framkvæmdir að neinu leyti öðruvísi en samningar

liggi fyrir, þetta sé ekki þannig umboð.