Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 1269 við frv. til laga um stjórn fiskveiða. Brtt. er svohljóðandi:
    ,,Við ákvæði til bráðabirgða VII bætist ný mgr. svohljóðandi:
    Þar til endurskoðun laganna hefur farið fram getur sjútvrh., þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna, veitt veiðiheimild með sóknarmarki í ákveðinn dagafjölda á þeim svæðum er henta þykir og með þeim takmörkunum á ákveðnum fisktegundum sem ráðherra ákveður að tillögu Hafrannsóknastofnunar. Ráðherra skal setja reglur um sóknarmark í samræmi við gildandi lög um fjölda sóknardaga, skiptingu í tímabil, fjölda skipa, aflahámark, veiðisvæði og annað það er þurfa þykir.``
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð fyrir þessari brtt. Þetta mál er hér í tímaþröng og skal ekki tafið af mér. Tillagan skýrir sig sjálf. Að mínum dómi á að vera jafnrétti milli aflamarks og sóknarmarks. Það er ekki rétt að fella niður sóknarmark eins og gert er í frv. án þess að tryggja sóknarmarksskipum rétt út frá þeim afla sem þau hafa áunnið sér undir núverandi kerfi. Spyrja má: Af hverju má ekki úthluta sóknarmarksskipi þeim afla í aflamarki sem það hafði í sóknarmarkinu? Sóknarmarkið var notað til útreiknings hjá stórum hluta útgerðarmanna er þeir endurbyggðu skip sín eða keyptu ný. Minnkun heildarafla úr sjó mun að sjálfsögðu ganga jafnt yfir alla.
    Herra forseti. Það er kunnugt að hæstv. sjútvrh. hefur mikið vald samkvæmt lögum þeim sem hér eru til umræðu. Texti þessarar brtt. dregur ekki úr því valdi. Þess er hins vegar að vænta að hæstv. ráðherra noti sitt mikla vald hóflega og taki tillit til eðlilegra sanngirnisviðhorfa sem þessi tillaga boðar.