Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það er flestum kunnugt að það mál sem hér er til umfjöllunar, löggjöf um stjórnun fiskveiða, er ein hin mikilvægasta löggjöf sem Alþingi Íslendinga hefur sett. Um er að ræða löggjöf um takmörkun á atvinnufrelsi. Ég held að sá þáttur hafi ekki verið skoðaður nægilega, eins og ég sagði áður, þegar frv. var til 1. umr. Þessi löggjöf um stjórnun fiskveiða er til komin vegna þess að ekki er jafnvægisástand milli afrakstursgetu fiskstofnanna og þess flota sem við eigum í dag. Mér finnst að vinnan í kringum þetta frv. hafi öll beinst að því að búa til skömmtunarkerfi en miklu minna rætt um það hvernig við eigum að fara að því að fiskstofnarnir hér í kringum Ísland geti gefið af sér jafnmikið og þeir gerðu hér áður fyrr. Um það er sáralítil umfjöllun.
    Ýmislegt bendir til þess að vistkerfið í kringum Ísland hafi raskast. Bæði hafa verið köld ár og fleira sem inn í það kemur. Við höfum ekki veitt nægilegum fjármunum í að rannsaka það. Hvernig getum við, með okkar stjórnunaraðferðum, stjórnað fiskveiðum þannig að fiskstofnarnir gefi meira af sér en þeir hafa gert? Alla vega er ljóst að við erum ekki á réttri leið því að síðustu tvö ár hefur þorskveiðin verið skert um 10% hvort ár um sig. Og niðurstöður í nýjustu rannsóknarferð, svokölluðu togararalli, urðu þær að þorskurinn væri 5--10% léttari en á sama tíma í fyrra. Þetta eru mjög skuggalegar niðurstöður og benda til þess að næsta ár verði sennilega að skerða þorskveiði enn þá meira. Þetta eru allt saman vísbendingar um að við séum ekki á réttri leið. Við fjöllum ekki um þetta atriði nægilega mikið að mínu mati. Þetta er sá þáttur málsins sem hefur ekki fengið rétta umfjöllun. Ég ætla ekki að fara neitt út í það hvers vegna ég álíti að svo sé en það eru miklar umræður um þetta úti í þjóðfélaginu um þessar mundir. Ég legg mikla áherslu á að það er mjög bagalegt að sjávarútvegsnefndir Alþingis skuli ekki, eins og útlit er fyrir, fá að fjalla um þetta mál í sumar.
    Hreggviður Jónsson, Matthías Bjarnason og ég flytjum frávísunartillögu um að Alþingi feli sjútvrh. að kalla saman í sumar þá alþingismenn sem eiga sæti í sjávarútvegsnefndum Alþingis til þess að fjalla um þetta frv. Í framhaldi af því verði reglulegt Alþingi kallað saman 3. sept. Ég tel að alþingismenn séu rétt kjörnir fulltrúar þjóðarinnar til að fjalla ítarlega um þetta mál. Við nefndarmenn í Nd. höfum ekki fengið að gera skyldu okkar í þessu efni. Við höfum fengið að hafa þetta mál til umfjöllunar í nokkra klukkutíma, fyrir utan að hafa setið á nokkrum nefndarfundum í vetur í nokkra klukkutíma og hlustað þar á álit hagsmunaaðila. Efnisleg umfjöllun um þetta mál hefur ekki farið fram í sjútvn. þessarar hv. deildar.
    Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur að nefndarmenn, eins og í sjútvn. í þessu tilviki, skuli ekki fá tíma til þess að gera skyldu sína fyrir ofríki
framkvæmdarvaldsins hér á Alþingi. Það er hreinlega verið að hrifsa þetta mál úr höndum réttkjörinnar

nefndar sem fer með það að það á að greiða atkvæði um það núna á næstunni. Ég sagði við 1. umr. málsins að það væri ekki verið að greiða atkvæði um þetta mál. Það er verið að greiða atkvæði um framhaldslíf þessarar vesalings ríkisstjórnar. Það er nú enn þá bagalegra, þegar jafnmikilvægt mál og þetta er til umfjöllunar.
    Ég ætla ekki að tefja tímann hér frekar en ég vil ítreka mótmæli mín við þessum vinnubrögðum.