Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Ég get tekið undir því sem næst hvert orð sem hv. 5. þm. Austurl. viðhafði hér áðan. Ég vek enn athygli á því að umræðan fer hér ekki fram um meginatriði málsins, þ.e. ástandið á miðunum, orsakir þess að fiskifræðingar telja að þorskstofninn við Ísland þoli stöðugt minni og minni veiði. Umræðan fer ekki heldur fram um það sem er auðvitað kjarni málsins, hvort þær aðferðir sem notaðar hafa verið til þess að vega og meta veiðiþol fiskstofnanna við Ísland séu réttar eða rangar í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum fengið annars staðar frá, þar sem í ljós kemur að þær forsendur sem fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa gefið sér standast ekki. Þetta er auðvitað meginatriði málsins. En þetta meginatriði liggur í þagnargildi í þessari umræðu sem fyrst og fremst snýst um stjórntækið sjálft en ekki spurninguna um það hvort þurfi að beita því og hvort hætta sé á því að því sé beitt þannig að það hafi þveröfug áhrif á við það sem til er ætlast.
    Í stuttu máli er mín afstaða til þessa máls sem hér segir:
    1. Ég dreg mjög í efa þær forsendur sem notaðar eru nú af fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunar og þeir styðjast við til þess að undirbyggja tillögur sínar til stjórnvalda um fiskveiðistefnu. Sumar þessara aðferða hafa þegar verið hraktar af t.d. þeim fiskifræðingum sem unnið hafa að endurskoðun Norðursjávarmódelsins og komist að raun um það, eins og á við um allt umhverfi bæði manns og dýralífs, að ekki er hægt að meta afrakstursgetu þorskstofnsins án tillits til þess hvað er að gerast í lífinu í sjónum þar í kring. Ég dreg því mjög í efa þær forsendur sem fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa notað til þess að undirbyggja málflutning sinn. Ég vísa bara til þess hvaða niðurstöðum menn hafa komist að í því sambandi varðandi þorskveiðar við Kanada, í Barentshafi og í Norðursjó. Og ég vísa til þess að þær aðferðir sem menn eru farnir að nota nú, þ.e. fjölstofna fiskveiðilíkön, leiða í mörgum
tilvikum til þveröfugrar niðurstöðu á við það sem einstofna líkön gefa, sem þýðir auðvitað að þær ráðleggingar sem fiskifræðingar reisa á einstofna líkönum hafa þveröfug áhrif á við það sem til er ætlast.
    2. Ég byggi afstöðu mína á því að þrátt fyrir það að reynt hefur verið að stjórna þorskveiðum við Ísland meira og minna í 25 ár, bæði með aflatakmörkunum og sóknartakmörkunum af ýmsu tagi, þá er niðurstaðan sú að fiskifræðingar telja ekki óhætt að veiða nema um helminginn af þeim afla sem tekinn var á Íslandsmiðum á árunum 1933--1939 og frá 1947 til 1979/1980. Og eins og hv. þm. sem lauk máli sínu hér áðan sagði, þá virðist stjórnunin leiða til þess að fiskifræðingar komist að þeirri niðurstöðu að það verði að minnka aflakvótann ár frá ári. Mig uggir að fá ár verði í það að þeirra ráðleggingar verði að ekki sé óhætt að taka af þorski við Ísland nema 100--150 þús.

tonn. Þangað stefnir, miðað við þá reynslu sem við höfum fyrir okkur í því efni. Og ég vil enn vitna til orða hv. 5. þm. Austurl. hér áðan um niðurstöðu af nýjasta togararallinu fyrir Austurlandi.
    Reynslan er að sjálfsögðu ekki fiskifræði. En fiskifræði hlýtur að styðjast við reynsluna eins og aðrar fræðigreinar og reynslan kennir okkur það að þær aðferðir, sem menn hafa notað til þess að stjórna fiskveiðum við Ísland, hafa skilað þveröfugum árangri. Ég tel að þetta hafi vantað alfarið inn í þá umræðu sem á sér stað um kvótakerfið. Menn eru farnir að ræða kerfið kerfisins vegna en sleppa úr umræðunni ástæðunni fyrir því að til stjórntækja þurfi að grípa og hver reynslan hefur verið af þeirri stjórnun sem viðhöfð hefur verið.
    Virðulegi forseti. Ég gat þess við 1. umr. um þetta mál að vissulega mæti ég ýmsar þær breytingar sem gerðar hefðu verið frá upphaflegum frv., og tala þá bæði um frv. til laga um stjórn fiskveiða og frv. til laga um Úreldingarsjóð. Vissulega mæti ég þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á þessum tveimur frv. í Ed. Sumar af þeim eru mjög mikilvægar, aðrar ekki. Þessar breytingar eru hins vegar svo mikilvægar en koma svo seint fram að nauðsynlegt er ekki bara að ræða þær og kynna betur í sjávarútvegsnefndum þingsins heldur fyrst og fremst fyrir almenningi og samtökum fiskvinnslufólks, sjómanna og útvegsmanna. Ég verð hreinlega að viðurkenna það, og ég hygg að svo sé um fleiri, að ég treysti mér ekki til að taka afstöðu í svo mikilvægu máli sem hér um ræðir öðruvísi en geta haft samráð um það við stuðningsfólk mitt á Vestfjörðum, sem auðvitað hefur tekið þátt í því ásamt mér að móta afstöðu jafnaðarmanna á Vestfjörðum til kvótakerfisins.
    Þær breytingar sem orðið hafa á frv. koma hins vegar svo seint fram að það er gersamlega ógerningur fyrir mig og aðra að kynna málið fyrir stuðningsmönnum okkar heima í héraði og fá viðbrögð þess fólks sem við erum umboðsmenn fyrir hér á Alþingi. Og ég tel það vítavert um svo stórt mál eins og hér um ræðir að alþingismenn skuli ekki geta kynnt þá afgreiðslu sem hér á að fara fram fyrir því fólki sem kýs þá til þings. Geri þeir það ekki, eins og ekki er unnt að gera, þá geta þeir ekki lýst vilja þjóðarinnar í svo mikilvægu máli því að þeir vita hann ekki sjálfir. Þeir hafa ekki fengið tækifæri til að kanna vilja þess fólks sem hefur kjörið þá á Alþingi til þeirra stóru og
mikilvægu og að mörgu leyti jákvæðu breytinga sem gerðar hafa verið í Ed. Ég lýsi því yfir að ef ekki verður fallist á að gefa mönnum það tækifæri með því að fresta afgreiðslu málsins þangað til síðar í sumar eða í haust --- annað eins hefur nú skeð í jafnmiklu þjóðþrifamáli og þetta er og jafnmikilvægu fyrir þjóðarheildina, að tekinn yrði nokkurra vikna frestur til afgreiðslu svo að hægt yrði að kynna það fyrir almenningi --- ég lýsi því yfir að ef ekki næst samstaða um það ætti ég ekki annars úrkosti en að flytja tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Yrði sú tillaga ekki samþykkt mundi ég greiða

atkvæði gegn frv.
    Nú hefur slík frávísunartillaga komið fram, þó svo hún sé rökstudd nokkuð á annan veg en ég hef rökstutt mál mitt hér. Hún er fyrst og fremst rökstudd með því að það þurfi að gefast tími fyrir sjávarútvegsnefndir þingsins til þess að vinna betur í málinu en minn rökstuðningur varðar fyrst og fremst kynninguna fyrir almenningi. Fyrst og fremst það að alþingismenn sem ætla að taka jafnafdrifaríkar ákvarðanir fái tækifæri til að kynna málið fyrir kjósendum sínum sem þeir eru fulltrúar fyrir hér á Alþingi áður en þeir taka endanlega ákvörðun, en til þess er ekki tími. Er ég þá að sjálfsögðu að ræða þær miklu breytingar sem orðið hafa á þessum tveimur frv. í meðferð þeirra í Ed. Eins og ég segi, það er að vísu nokkur annar rökstuðningur með þeirri frávísunartillögu sem hér hefur verið flutt, en niðurstaðan er sú sama. Því mun ég greiða þeirri frávísunartillögu atkvæði. Falli sú tillaga, sem ég vona að ekki verði, mun ég greiða atkvæði gegn frv. við lokaafgreiðslu málsins. Ég mun láta aðrar brtt. sem fluttar kunna að verða afskiptalausar því ég hef ekki hvað þær varðar haft tækifæri til þess að hafa um það samráð við mína kjósendur fremur en þær brtt. sem samþykktar hafa verið í Ed. Alþingis.