Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Þó efni þessa frv. og þær brtt. sem ríkisstjórnin lagði fram við það séu í anda þess sem Kvennalistinn hefur látið frá sér fara um fiskveiðimál höfum við ýmislegt að athuga við efni frv. og málsmeðferðina alla.
    Markmið frv., eins og það var lagt fram, er einkum þríþætt:
    1. Að draga úr afkastagetu fiskiskipastólsins.
    2. Að koma í veg fyrir að úrelt og gömul fiskiskip séu endurnýjuð með mun afkastameiri fiskiskipum.
    3. Að sjóðurinn eignist kvóta fiskiskipa eftir ákveðnum reglum. Þeim kvóta má síðan úthluta að hluta til til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir áföllum sem, eins og það er orðað, ,,valda straumhvörfum í byggðarlaginu``.
    Það er athyglisvert að þessi hugsanlegu áföll eru helst afleiðing núverandi fyrirkomulags á stjórnun fiskveiða og þess sem verið er að leggja til að haldið verði áfram, þ.e. ef skip eru seld úr byggðarlögum og eftir stendur byggðarlagið hugsanlega án atvinnu og bjargar. Þannig er ríkisstjórnin að leggja til plástur á þau sár sem hún mun valda í byggðarlögum.
    Þó er það svo að með þessu frv. og með þessum brtt. örlar á viðurkenningu á þeim sjónarmiðum sem við kvennalistakonur höfum haldið fram og flutt tillögur um, þ.e. að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu og að ekki sé sjálfgefið að úthluta veiðiheimildum ókeypis til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta hagnast um tugi eða hundruð milljóna á óveiddum fiski sem lögum samkvæmt er sameign íslensku þjóðarinnar.
    Í þessu frv. felst þó engin framtíðarlausn á vanda byggðarlaga, það er aðeins verið að lagfæra einstök atriði. En það gildir kannski hér eins og í mörgu öðru að maður verður að láta sér nægja litlu, veiku sporin fyrst. Með þessu frv. er verið að tengja það frv. til laga um fiskveiðistefnuna órjúfanlegum böndum, fyrst og fremst í því skyni að jafna ágreining innan ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða.
    Við teljum að þessi úrræði séu ekki nógu sterk og að þau tryggi í rauninni ekki þau markmið sem þó liggja að baki frv. Það kann hins vegar vel að vera að þetta sé eina úrræði ríkisstjórnarinnar, eða hafi verið, til þess að þoka frv. til laga um fiskveiðistjórnun í gegnum þingið. Í ljósi þess, ef sú er raunin, og þeirra staðreynda að þetta frv. er mikilvægur þáttur þeirrar fiskveiðistefnu sem við kvennalistakonur höfum hafnað sterklega þá munum við ekki veita þessu frv. stuðning okkar.