Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Þetta frv. lýtur að því að veita nokkrum starfshópum lagalegan rétt til þess að vera aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Minn fyrirvari felst í því að þetta hnoð væri eiginlega ónauðsynlegt ef tekið hefði verið fyrir og samþykkt frv. til laga sem ég flutti á þessu þingi. Það frv. laut að því að mönnum sé frjálst að velja sér hvar þeir kaupa sér þau réttindi að taka lífeyri í ellinni. Í greinargerð með því frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Verstu ágallar núverandi kerfis eru þó þeir að fólkið á ekkert val. Það er háð tilviljun starfsferils þess hvaða laun það hlýtur í ellinni því að hverjum og einum launamanni er gert það að skyldu að vera í lífeyrissjóði stéttarfélags síns og verður hann þá að hlíta því eins og hluta af sínum kjörum að lífeyrissjóður hans sé öðruvísi en annarra. Í þessu felst töluvert ranglæti þegar menn eru í raun að kaupa sér þessi réttindi, að þeir fá ekki að ráða hvað þeir kaupa.``
    Það getur komið þannig út að menn greiði á sama árabili sömu upphæð í iðgjöld en hljóti síðan mismunandi lífeyri að lokum.
    Það var þetta sem ég vildi gera fyrirvara við, að það þurfi sérstakt hnoð til að koma sérstökum starfshópum með lögum inn í sérstakan lífeyrissjóð.