Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 173 . mál.


Ed.

196. Frumvarp til sóttvarnalaga.






I. KAFLI

Skilgreiningar.

1. gr.

    Sóttvarnir nefnast þær ráðstafanir, almennar og opinberar, sem lög þessi kveða á um til að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar berist til Íslands, breiðist út meðal landsmanna eða berist frá Íslandi til annarra landa.
    Almennar sóttvarnaráðstafanir eru þær ráðstafanir sem lög þessi kveða á um að ávallt skuli beita vegna smitsjúkdóma.
    Opinberar sóttvarnaráðstafanir eru þær ráðstafanir sem lög þessi kveða á um að beita skuli:
    a.    þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi,
    b.    þegar hætta er á útbreiðslu farsótta innan lands,
    c.    þegar smitaður einstaklingur skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu.

2. gr.


    Með smitsjúkdómum í lögum þessum er átt við sjúkdóma eða smitun sem örverur, eiturefni (toxín) eða sníkjudýr valda.

3. gr.

    Smitsjúkdómar skv. lögum þessum skiptast í tvennt, farsóttir og næmar sóttir.
    Með farsótt er átt við skráningarskyldan smitsjúkdóm sem ógnað getur almannaheill.
    Með næmri sótt er átt við tilkynningarskyldan smitsjúkdóm.
    Heilbrigðisráðherra ákveður með reglugerð hverjir smitsjúkdóma teljast farsóttir og hverjir næmar sóttir. Í fylgiskjali með lögum þessum eru taldir upp þeir smitsjúkdómar sem við gildistöku laganna teljast til farsótta og næmra sótta.

II. KAFLI

Yfirstjórn sóttvarna.

4. gr.

    Embætti landlæknis ber ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
    Til embættis landlæknis skal ráða lækni, sóttvarnalækni, til að sinna sóttvörnum. Læknir þessi skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Sóttvarnalæknir skal í starfi sínu hafa samvinnu við héraðslækna, heilsugæslulækna, sjúkrahús og rannsóknastofur auk heilbrigðisnefnda, eftir því sem við á.
    Héraðslæknar eru ábyrgir fyrir sóttvörnum, hver í sínu héraði, undir stjórn sóttvarnalæknis.
    Héraðslæknar og sóttvarnalæknir skulu hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef með þarf.

5. gr.

    Verksvið sóttvarnalæknis er aðallega eftirfarandi:
1.    Að skipuleggja og samræma sóttvarnir um land allt, m.a. með útgáfu ábendinga um viðbrögð við farsóttum.
2.    Að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma innan lands sem utan og koma upplýsingum um þau efni með reglubundnum hætti eða eftir þörfum til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
3.    Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
4.    Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni.

6. gr.


    Ráðherra skal skipa sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til fjögurra ára í senn.
    Ráðið skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Í sóttvarnaráði sitja sjö menn skipaðir af heilbrigðisráðherra. Þar skal vera starfandi embættislæknir, sérfræðingur á sviði smitsjúkdómalækninga, sérfræðingur í örverufræði, starfandi heilsugæslulæknir og maður sérfróður í heilbrigðisfræði. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.
    Sóttvarnaráð skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og skal sóttvarnalæknir vera ritari þess.

III. KAFLI

Almennar sóttvarnaráðstafanir.

1. Skyldur einstaklinga.

7. gr.

    Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.
    Hver sá, sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af sjúkdómi, sem lög þessi gilda um, er skyldur að leita læknis. Leiði læknisrannsókn í ljós að um smitsjúkdóm sé að ræða er viðkomandi skyldur að fylgja fyrirmælum læknisins um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smitun.

8. gr.

    Einstaklingur, sem reynist hafa smitsjúkdóm skv. lögum þessum, skal láta lækni þeim sem staðfestir greiningu í té alla vitneskju sína um það af hverjum hann gæti hafa smitast, svo og hverja hann kann að hafa smitað.

2. Skyldur lækna og annars heilbrigðisstarfsliðs.


9. gr.

    Allir læknar skulu í starfi sínu hafa vakandi auga með smitsjúkdómum og útbreiðslu þeirra.
    Ef læknir kemst að því í starfi sínu að einstaklingur hefur smitast af sjúkdómi sem er skráningarskyldur og ekki hirt um að leita læknis skal hann þegar í stað tilkynna það, sbr. 11. gr.

10. gr.

    Nú leitar til læknis einstaklingur sem grunar að hann hafi smitast af sjúkdómi sem lög þessi gilda um og skal læknir þá tafarlaust láta gera nauðsynlegar rannsóknir til greiningar. Geti læknir ekki sjálfur sinnt þessum rannsóknum ber honum að vísa sjúklingi annað til greiningar og meðferðar.
    Staðfesti rannsóknir smitun skal læknirinn útskýra fyrir sjúklingi hvað að honum gangi. Jafnframt skal hann útskýra vandlega fyrir sjúklingi hvernig sjúkdómur smitist og hverrar varúðar beri að gæta.
    Ef ástæða er til skal læknir kanna vandlega hvernig sjúklingur hefur smitast, svo og hvort hann kunni að hafa smitað aðra. Læknir skal sjá um að hinir grunuðu séu rannsakaðir og teknir til meðferðar ef þörf krefur.

11. gr.

    Læknir, sem kemst að því í starfi sínu að einstaklingur hefur smitast af sjúkdómi sem skv. lögum þessum er skráningarskyldur eða hefur rökstuddan grun um að svo sé, skal þegar í stað tilkynna það viðkomandi héraðslækni og sóttvarnalækni.
    Sama skylda hvílir á forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana.
    Heilbrigðisráðherra setur, að fengnum tillögum landlæknis, reglugerð um fyrirkomulag tilkynninga skv. 1. og 2. mgr. Við það skal miða að eigi séu í tilkynningu skráðar meiri upplýsingar en nauðsynlegar eru taldar til að fylgjast megi með útbreiðslu smitsjúkdóma og unnt sé að byggja á þeim ákvörðun um frekari aðgerðir, ef þörf krefur.
    Skylt er að aðstoða sóttvarnalækni m.a. með því að veita nauðsynlegar upplýsingar vegna sóttvarna.

12. gr.

    Hafi læknir, sem hefur til meðferðar sjúkling sem haldinn er smitsjúkdómi, rökstuddan grun eða vitneskju um að sjúklingurinn fylgi ekki fyrirmælum sem honum voru sett um umgengni og meðferð, skal hann tilkynna það þegar í stað til sóttvarnalæknis. Í tilkynningunni skal eingöngu gefa þær upplýsingar sem reglugerð skv. 11. gr. mælir fyrir um.
    Komist aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustu, starfsmenn félagsmálastofnunar eða lögreglu að hátterni sem 1. mgr. fjallar um skulu þeir þegar í stað tilkynna það lækni sjúklingsins eða héraðslækni.

3. Skyldur heilbrigðisnefnda.


13. gr.

    Heilbrigðisfulltrúar og formenn heilbrigðisnefnda skv. lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81 3. ágúst 1988, skulu tilkynna sóttvarnalækni jafnskjótt og þeir hafa orðið varir við hugsanlega smithættu. Sóttvarnalæknir skal gefa heilbrigðisnefndum nauðsynlegar upplýsingar og ráð og hafa yfirumsjón með að til viðeigandi ráðstafana sé gripið.
    Heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar skulu aðstoða við sóttvarnir og bera ábyrgð á að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef hætta er á að dýr, matvæli, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómum.
    Ef til ágreinings kemur um ráðstafanir milli heilbrigðisnefndar og sóttvarnalæknis sker heilbrigðisráðherra úr.

IV. KAFLI

Opinberar sóttvarnaráðstafanir.

1. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands.

14. gr.

    Ef tilkynningar til sóttvarnalæknis um smitsjúkdóma benda til að farsótt sé yfirvofandi skal hann þegar í stað gera heilbrigðisráðherra viðvart.
    Ráðherra ákveður hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns.
    Nánari ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafnir skal setja með reglugerð.

2. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi.


15. gr.

    Um sóttvarnaráðstafanir, sem grípa má til vegna hættu á farsóttum frá útlöndum eða frá Íslandi til útlanda, skal setja reglugerð í samræmi við efni þeirra alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

3. Aðgerðir gagnvart einstaklingum til að hefta útbreiðslu smits.


16. gr.

    Nú telur sóttvarnalæknir, er honum berst tilkynning um smitsjúkdóm, að grípa þurfi til frekari ráðstafana en læknir hefur þegar gert til þess að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smitunar. Skal hann þá, í samráði við héraðslækni, sjá til þess að til slíkra aðgerða sé gripið.

17. gr.

    Fái sóttvarnalæknir tilkynningu um að sjúklingur grunaður um smitsjúkdóm vilji ekki gangast undir læknisrannsókn eða að sjúklingur smitaður af smitsjúkdómi fylgi ekki reglum, sem honum hafa verið settar, getur hann og ef þurfa þykir með aðstoð lögregluyfirvalda gripið til nauðsynlegra aðgerða til varnar smiti.
    Með nauðsynlegum aðgerðum er átt við læknisrannsókn, einangrun sjúklings á sjúkrahúsi eða með öðrum hætti, svo og aðrar ráðstafanir gerðar án samþykkis sjúklings. Áður en gripið er til slíkra aðgerða skal ætíð reyna að leysa mál með öðrum hætti.
    Ákvörðun sóttvarnalæknis um aðgerðir af þessu tagi má áfrýja til ráðherra. Slík áfrýjun frestar ekki framkvæmd.

18. gr.

    Ef maður haldinn smitsjúkdómi fellst ekki á að fylgja reglum um meðferð og umgengni við aðra eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli lagður inn á sjúkrahús í einangrun eða að hann skuli einangraður með öðrum hætti. Um þessa dvöl skulu gilda ákvæði lögræðislaga, nr. 68 30. maí 1984, sbr. 3. mgr. 13. gr.
    Þurfi einangrun að vara lengur en 15 daga skal gera kröfu fyrir dómi um sjálfræðissviptingu, sbr. 19. gr. lögræðislaga.

19. gr.

    Sá sem er einangraður skal eftir því sem við verður komið njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og sem venjuleg sjúkrahúsvistun væri.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

    Setja skal á stofn göngudeild smitsjúkdóma og skal hún vera í Reykjavík.
    Á sjúkrahúsi, sem heilbrigðisráðherra ákveður, skal vera aðstaða til einangrunar þeirra sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smitsjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm.
    Heilbrigðisráðherra getur falið ákveðnum rannsóknastofum að ábyrgjast greiningu örvera eða sníkjudýra úr sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma og fylgjast með ónæmisástandi einstaklinga gegn þýðingarmiklum smitnæmum sjúkdómum.

21. gr.

    Kostnaður vegna þeirra sem haldnir eru smitsjúkdómum greiðist á sama hátt og annar sjúkra- og lækniskostnaður.

22. gr.

    Auk þeirra reglugerða, sem lög þessi tilgreina sérstaklega, hefur heilbrigðis- og tryggingaráðherra heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði vegna framkvæmdar laga þessara, m.a. reglugerð um forvarnir smitsjúkdóma.
    Sama máli gegnir ef til sérstakra ráðstafana þarf að grípa vegna sóttvarna við náttúruhamfarir.

23. gr.

    Um refsingar vegna brota á lögum þessum skal fara skv. ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og læknalaga nr. 58/1988.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991. Þá falla úr gildi eftirfarandi lög:
1.    Lög um útbúnað og ársútgjöld spítala handa holdsveikum mönnum, nr. 2 4. febrúar 1898.
2.    Lög um aðgreining holdsveikra frá öðrum mönnum og flutning þeirra á opinberan spítala, nr. 3 4. febrúar 1898, sbr. breyting á þeim lögum nr. 57 30. júlí 1909.
3.    Berklavarnalög nr. 66 30. desember 1939.
4.    Lög um ráðstafanir til varnar gegn fýlasótt nr. 70 7. maí 1940.
5.    Lög um eyðing á rottum, nr. 27 12. febrúar 1945.
6.    Lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki, nr. 7 3. febrúar 1953.
7.    Sóttvarnarlög nr. 34 12. apríl 1954.
8.    Farsóttalög nr. 10 19. mars 1958.
9.    Lög um varnir gegn kynsjúkdómum, nr. 16 28. apríl 1978, sbr. breyting á þeim lögum nr. 7 7. apríl 1986.


(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)



Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
    Hinn 17. október 1988 skipaði heilbrigðisráðherra nefnd sem falið var það hlutverk að endurskoða farsóttalögin frá 1958, sóttvarnalögin frá 1954 og ýmis sérlög um varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum, svo sem berklavarnalögin frá 1939, lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978, með síðari breytingu, og lög um varnir gegn holdsveiki sem sett voru í kringum síðustu aldamót.
    Í nefndina voru skipuð: Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, formaður, Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir, Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum, Skúli Johnsen borgarlæknir og Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og var hún jafnframt ritari nefndarinnar.
    Þróun íslenskrar löggjafar á sviði sóttvarna hófst ekki að ráði fyrr en á síðari hluta síðustu aldar. Árið 1875 gengu í gildi lög um „mótvarnir gegn því að bólusótt og hin austurlenska kólerusótt og aðrar næmar sóttir flytjist til Íslands“. Á tæpri öld þróuðust þessi lög í löggjöf um varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands og síðan í núgildandi sóttvarnalög sem eru frá árinu 1954.
    Liðlega tuttugu árum síðar, eða árið 1896, gengu í gildi fyrstu lögin um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma. Þessi lög hafa síðan þróast í núgildandi farsóttalög frá 1958.
    Um aldamótin var ástand í málum holdsveikra og berklaveikra hér á landi mjög bágborið og aðgerðir aðkallandi. Árið 1898 gengu í gildi tvenn lög er snertu holdsveika annars vegar lög um aðgreiningu þeirra frá öðrum mönnum og flutning á spítala og hins vegar lög um stofnun holdsveikraspítala á Íslandi. Þó úrelt séu og óþörf eru þessi lög enn í gildi.
    Fyrstu lögin um varnir gegn berklaveiki gengu í gildi nokkrum árum síðar, eða árið 1904. Núgildandi berklavarnalög eru frá árinu 1939.
    Í starfi sínu hefur nefndin kynnt sér gildandi lagaákvæði um varnir gegn smitsjúkdómum. Nefndin hefur tekið saman yfirlit um þróun íslenskrar löggjafar á þessu sviði, sbr. fylgiskjal I. Þá hefur nefndin kynnt sér erlenda þróun sem hefur verið nokkuð hröð undanfarin ár. Í fylgiskjali II er að finna samantekt um stöðu löggjafar á sviði sóttvarna á Norðurlöndunum.
    Nefndin ákvað að við endurskoðunina yrði, sem svo oft áður, fylgt fordæmi grannþjóða á Norðurlöndum, en þar hefur farið fram endurskoðun á lögum um sóttvarnir, sbr. fylgiskjal II. Nefndin gerir tillögu að rammalöggjöf um sóttvarnir. Í frumvarpi því, sem nefndin samdi og hér er lagt fram, var haft að leiðarljósi að færa sóttvarnir til nútímahorfs á grunni nær aldar reynslu af löggjöf um þessi efni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


I. KAFLI

Skilgreiningar.

Um 1. gr.

    Hér er að finna almenna skilgreiningu á því hvað sóttvarnir eru. Skilgreiningin er í fullu samræmi við sambærileg ákvæði í gildandi sóttvarnalögum, farsóttalögum og ýmsum sérlögum um varnir gegn einstökum smitsjúkdómum.
    Jafnframt skilgreinir ákvæðið nánar þær tvenns konar sóttvarnaráðstafanir sem grípa skal til. Annars vegar eru hinar almennu sóttvarnaráðstafanir, en það eru ráðstafanir sem ávallt skal beita gegn smitsjúkdómum sem lögin taka til. Hins vegar eru hinar opinberu sóttvarnaráðstafanir sem grípa getur þurft til í þremur tilvikum:
    Í fyrsta lagi þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá landinu.
    Í öðru lagi þegar hætta er á útbreiðslu farsóttar innan lands.
    Í þriðja lagi þegar smitaður einstaklingur skapar með framferði sínu hættu á útbreiðslu smits.

Um 2. gr.

    Rétt þykir að skilgreina í lögunum við hvað er átt þegar talað er um smitsjúkdóma. Með smitsjúkdómum er átt við sjúkdóma sem orsakast af örverum (bakteríum, sveppum, veirum eða öðrum frumstæðum lífverum) og sníkjudýrum (einfrumungum, ormum, lúsum og flóm) sem geta fjölgað sér, lifað á eða í hýsli og valdið sjúkdómi og borist manna á milli eða frá dýrum til manna. Margar örverur geta framleitt eiturefni (toxín) sem valdið geta sjúkdómum í mönnum, t.d. með mengun matvæla, jafnvel þótt örverurnar sem slíkar nái ekki að sýkja menn. Slíkar eitranir eru alla jafna taldar til smitsjúkdóma og því tilgreindar hér í skilgreiningu frumvarpsins á smitsjúkdómum.

Um 3. gr.

    Í frumvarpinu er smitsjúkdómum skipt í tvennt, farsóttir og næmar sóttir.
    Farsótt er skilgreind sem skráningarskyldur smitsjúkdómur sem ógnað getur almannaheill. Auk hinna almennu sóttvarnaráðstafana sem ætíð skal grípa til heimilar frumvarpið einnig svokallaðar opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna yfirvofandi farsótta.
    Næm sótt er skilgreind sem tilkynningarskyldur smitsjúkdómur. Vegna þeirra skal ætíð viðhafa hinar almennu sóttvarnaráðstafanir. Þegar sérstaklega stendur á gæti þurft að grípa til sérstakra sóttvarnaráðstafana vegna næmra sótta.
    Hér er því skilið á milli tvenns konar smitsjúkdóma annars vegar farsótta, sem eru skráningarskyldar, hins vegar næmra sótta sem einungis eru tilkynningarskyldar. Munurinn felst í þeim upplýsingum sem gefnar eru upp um sjúkdómana. Skráningarskyldir sjúkdómar eru þeir smitsjúkdómar þar sem afla þarf einstaklingsbundinna upplýsinga, m.a. til að rekja smit. Tilkynningarskyldir eru hins vegar þeir smitsjúkdómar þar sem upplýsingasöfnun er fyrst og fremst vegna faraldursfræðilegra rannsókna.
    Smitsjúkdómar, sem við gildistöku laganna teljast farsóttir (og þar með skráningarskyldir) og hins vegar næmar sóttir (og þar með tilkynningarskyldar) er að finna í sérstöku fylgiskjali með lögunum.
    Gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra geti með reglugerð breytt flokkun smitsjúkdóma, þ.e. fjölgað eða fækkað sjúkdómum í hvorum flokki.

II. KAFLI

Yfirstjórn sóttvarna.

Um 4. gr.

    Í samræmi við áratuga hefð gerir frumvarpið ráð fyrir að ábyrgð á framkvæmd sóttvarna sé hjá embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
    Samkvæmt gildandi sóttvarnalögum eru héraðslæknar sóttvarnalæknar. Í ljósi gerbreyttra samgangna þykir óþarfi að hafa fleiri en einn sóttvarnalækni til að sinna sóttvörnum í landinu öllu. Eðlilegt er að slíkur læknir hafi aðsetur hjá embætti landlæknis.
    Læknir þessi skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Í starfi sínu skal hann hafa samvinnu við héraðslækna, heilsugæslulækna, sjúkrahús og rannsóknastofur auk heilbrigðisnefnda, eftir því sem við á.
    Til að tryggja nægileg tengsl sóttvarnalæknis út í læknishéruðin þykir einnig rétt að héraðslæknar beri áfram ábyrgð á sóttvörnum undir stjórn sóttvarnalæknis. Samvinna sóttvarnalæknis og héraðslækna um sóttvarnir er mjög mikilvæg þar sem héraðslæknar búa yfir staðarþekkingu sem nauðsynleg er þegar taka þarf ákvörðun um aðgerðir.
    Ekki tekst alltaf samvinna milli sjúklings og læknis um nauðsynlegar aðgerðir vegna sóttvarna. Í lögum um smitsjúkdóma hefur frá upphafi verið að finna ákvæði þess efnis að heilbrigðisyfirvöld skuli njóta liðsinnis lögregluyfirvalda sé þess þörf. Hér er einnig slíkt heimildarákvæði.

Um 5. gr.

    Hér er verksvið sóttvarnalæknis skilgreint nánar. Hann skal sjá um að skipuleggja og samræma sóttvarnir um land allt, fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma og koma upplýsingum þar að lútandi áleiðis til lækna og annarra, sem á slíkum upplýsingum þurfa að halda. Þá skal hann vera læknum og öðrum sem við sóttvarnir fást til ráðgjafar og hafa umsjón með forvarnastarfi á þessu sviði.

Um 6. gr.

    Rétt þykir að setja á laggirnar sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til að vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Árið 1986 skipaði heilbrigðisráðherra samstarfs- og ráðgjafarnefnd, farsóttanefnd, sem fékk það hlutverk að fylgjast með farsóttum og gera tillögur um aðgerðir til að hindra útbreiðslu þeirra. Þessi nefnd leggst niður ef ákvæði frumvarpsins um sérstakt sóttvarnaráð ná fram að ganga.
    Gert er ráð fyrir að sóttvarnaráð verði skipað sjö mönnum, starfandi embættislækni, sérfræðingi á sviði smitsjúkdómalækninga, sérfræðingi í örverufræði, starfandi heilsugæslulækni og manni sérfróðum í heilbrigðisfræði. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.
    Ráðið skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og sóttvarnalæknir vera ritari þess.

III. KAFLI

Almennar sóttvarnaráðstafanir.

1. Skyldur einstaklinga.

Um 7. gr.

    Orðalag greinarinnar er í samræmi við ákvæði í gildandi löggjöf um þessi efni.

Um 8. gr.

    Orðalag greinarinnar er í samræmi við ákvæði í gildandi löggjöf um þessi efni.

2. Skyldur lækna og annars heilbrigðisstarfsliðs.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við fyrirmæli í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að læknir, sem kemst að því í starfi sínu að smitaður einstaklingur hirðir ekki um að leita læknis, skuli tilkynna það héraðslækni og sóttvarnalækni, með þeim hætti sem 11. gr. mælir fyrir um.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við fyrirmæli í gildandi lögum.

Um 11. gr.

    Smitsjúkdóma, bæði skráningarskylda og tilkynningarskylda, skal tilkynna á þar til gerðum eyðublöðum til sóttvarnalæknis og héraðslæknis. Þessi skylda hvílir jafnt á læknum sem og forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana.
    Skráning og tilkynning smitsjúkdóma með reglubundnum og kerfisbundnum hætti þjónar þeim tilgangi að afla upplýsinga um atburðarás þeirra á hverjum tíma þannig að unnt sé að skipuleggja og grípa til varna gegn þeim og til þess að hægt sé að fylgjast með árangri ónæmisaðgerða og annarra forvarna gegn smitsjúkdómum. Upplýsingaöflun hefur einnig þýðingu við að fylgjast með langtímabreytingum á nýgengi og algengi smitsjúkdóma.
    Öflun upplýsinga um útbreiðslu smitsjúkdóma getur farið fram með tvennum hætti. Annars vegar með skráningu, þ.e. persónuauðkennum hins smitaða ásamt upplýsingum um smitleiðir. Hins vegar með tilkynningum, þ.e. talningu á fjölda smitaðra án persónuauðkenna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það velti á eðli smitsjúkdómsins hvorri aðferðinni er beitt.
    Skráningarskyldar eru farsóttir, þ.e. þeir smitsjúkdómar sem ógnað geta almannaheill. Í þessum tilvikum hefur vitneskjan um smitaðan einstakling þýðingu við að uppræta smit og því nauðsynlegt að skrá ýmis persónuauðkenni. Í þennan flokk falla einnig alvarlegir smitsjúkdómar, sem ekki munu ná mikilli útbreiðslu en eru þess eðlis að útbreiðslu þeirra er ekki hægt að hindra með öðrum hætti en að þekkja til smitaðra einstaklinga.
    Tilkynningarskyldar eru næmar sóttir, þ.e. smitsjúkdómar sem eru þess eðlis að af faraldsfræðilegum ástæðum er mikilvægt að þekkja fjölda sjúkdómstilfella. Þetta getur skipt máli, t.d. til þess að meta árangur ónæmisaðgerða. Hér eru einnig sjúkdómar sem ekki eru landlægir á Íslandi en gætu borist til landsins og náð útbreiðslu hér.
    Um fyrirkomulag tilkynninga vegna skráningarskyldra og tilkynningarskyldra sjúkdóma skal setja reglugerð. Drög að þeirri reglugerð, sem fyrirhugað er að setja, er að finna í fylgiskjali III.

Um 12. gr.

    Hér eru ákvæði um skyldu lækna að tilkynna til sóttvarnalæknis ef þeir komast að því í starfi sínu að smitaður einstaklingur fylgi ekki fyrirmælum um hegðun. Sama skylda hvílir á öðrum starfsmönnum heilbrigðisþjónustu, starfsmönnum félagsmálastofnunar og lögreglu en þessir aðilar skulu tilkynna það lækni sjúklings eða héraðslækni sem mundu þá í samræmi við 1. mgr. tilkynna það til sóttvarnalæknis.
    Sambærileg ákvæði er að finna í gildandi lagaákvæðum um sóttvarnir.

3. Skyldur heilbrigðisnefnda.

Um 13. gr.

    Hér er sóttvarnastarfsemin tengd fastari böndum gildandi skipulagi skv. lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Jafnframt eru ákveðnar skyldur lagðar á herðar heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa um að grípa til ráðstafana. Rétt þykir að heilbrigðisráðherra skeri úr ef til ágreinings kemur milli heilbrigðisnefndar og sóttvarnalæknis um úrræði.

IV. KAFLI

Opinberar sóttvarnaráðstafanir.

1. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands.

Um 14. gr.

    Hér er mælt fyrir um viðbrögð sóttvarnalæknis ef tilkynningar benda til að farsótt sé í uppsiglingu. Í því tilviki skal hann þegar í stað gera heilbrigðisráðherra viðvart. Ráðherra ákveður hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana. Þær opinberu sóttvarnaráðstafanir sem ráðherra getur gripið til eru hinar sömu og gildandi lög gera ráð fyrir.

2. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi.

Um 15. gr.

    Ísland gerðist aðili að sóttvarnasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1952. Gildandi sóttvarnareglugerð nr. 229/1971 hefur að geyma ýmis ákvæði í samræmi við þann samning. Rétt þykir að hafa í þessu frumvarpi almennt ákvæði sem heimili að setja reglugerð um sóttvarnaráðstafanir sem grípa má til vegna smithættu og eru í samræmi við þá alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

3. Aðgerðir gagnvart einstaklingum til að hefta útbreiðslu smits.

    Eins og vikið var að hér að framan er reynsla fyrir því að ekki er alltaf unnt að grípa til sóttvarnaráðstafana í samvinnu við sjúkling. Það hefur því þótt eðlilegt og nauðsynlegt að í löggjöf um smitsjúkdóma væri að finna ákvæði er heimila ýmsar aðgerðir gagnvart einstaklingum, án samþykkis hans, enda er hér um að ræða að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
    Úrræði þau, sem hér er gert ráð fyrir að grípa megi til án samþykkis sjúklings, eru í fullu samræmi við þau úrræði sem gildandi lög um sóttvarnir heimila.

Um 16. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Hér er lýst þeim tilvikum sem talið er að réttlæti það að grípa til nauðsynlegra aðgerða, án samþykkis einstaklingsins. Sömuleiðis eru og taldar upp þær aðgerðir sem frumvarpið heimilar í tilvikum sem þessum. Á það er hins vegar lögð áhersla að aðgerðir af þessu tagi skulu ætíð vera neyðarúrræði, þ.e. reynt sé til þrautar að ná samvinnu við sjúkling.
    Rétt þykir að ákvörðun sóttvarnalæknis um aðgerðir, sem teljast nauðsynlegar af þessum ástæðum, sé hægt að áfrýja til ráðherra, án þess þó að slík áfrýjun fresti framkvæmd.

Um 18. gr.

    Hér er fjallað nánar um einangrun smitbera á sjúkrahúsi eða annars staðar. Samkvæmt heimild 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga, nr. 68 30. maí 1984, má ekki svipta mann frelsi gegn vilja sínum, nema hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Slík frelsisskerðing má þó ekki standa lengur en tvo sólarhringa, nema til komi samþykki dómsmálaráðuneytisins. Ef frelsisskerðing á að vara lengur en 15 daga skal gera kröfu fyrir dómi um sjálfræðissviptingu, sbr. 19. gr. lögræðislaga.
    Nefndin telur eðlilegt að þessum heimildum um frelsisskerðingu megi einnig beita í þeim tilvikum er maður haldinn smitsjúkdómi fellst ekki á að fylgja reglum um meðferð og umgengni eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum. Einangrun yrði ýmist á sjúkrahúsi eða með öðrum hætti. Heilbrigðisráðuneytið hefur ritað dómsmálaráðuneytinu og óskað eftir því að lögræðislögunum verði breytt með tilliti til þessa. Eftir sem áður þykir eðlilegt að heimila í sóttvarnalögum frelsisskerðingu af þessum ástæðum og vísa til þess ákvæðis lögræðislaganna sem heimilar hana af öðrum sambærilegum ástæðum.

Um 19. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

Um 20. gr.

    Rétt þykir að setja í sóttvarnalög ákvæði þess efnis að setja skuli á stofn göngudeild smitsjúkdóma sem verði í Reykjavík. Kostnaðaraukning vegna slíkrar göngudeildar verður ekki mikil því þangað mundu flytjast stöður berklavarnayfirlæknis og yfirlæknis húð- og kynsjúkdómadeildar Heilsuverndarstöðvarinnar.
    Rétt þykir einnig að heilbrigðisráðherra ákveði á hvaða sjúkrahúsum skuli vera aðstaða til einangrunar vegna sóttvarna. Þá þykir og rétt að ráðherra ákveði hvaða rannsóknastofur ábyrgist greiningu sýna úr einstaklingum sem grunaðir eru um smit.

Um 21. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Í öllum gildandi lögum á þessu sviði eru sérstök refsiákvæði, sem gilda nema þyngri refsing skv. öðrum lögum, liggi við broti. Rétt þykir hins vegar að vísa um refsingu vegna brota á lögum þessum einvörðungu til ákvæða almennra hegningarlaga og læknalaga.

Um 24. gr.

    Greinin skýrir sig sjálf. Rétt er þó að benda á að gildistaka frumvarpsins hefur í för með sér allnokkra lagahreinsun. Óhætt þykir að fella úr gildi lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki, sem og lög um eyðing á rottum, þar sem í gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er að finna ákvæði um hvoru tveggja.



(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)