Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 301 . mál.


Sþ.

538. Skýrsla



fulltrúa Íslands í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA.

1. Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA.

    Þingmenn aðildarríkja EFTA hafa frá stofnun samtakanna árið 1960 komið saman til þess að ræða málefni sem haft hafa sameiginlega þýðingu fyrir aðildarríkin. Í fyrstu voru þessir fundir óformlegir og í þeim tóku þátt þeir þingmenn EFTA-ríkjanna sem jafnframt höfðu verið valdir fulltrúar á þing Evrópuráðsins. Þessir óformlegu fundir voru fyrstu árin í Strasborg þar sem Evrópuráðið heldur sína fundi, en síðar í Genf til þess að auka samband og samstarf milli þingmannahópsins og aðalskrifstofu EFTA. Leiddi samstarfið til þess að þingmennirnir óskuðu eindregið eftir því að auka þátttöku sína í starfi innan EFTA. Þess vegna ákvað EFTA-ráðið árið 1977 að stofna sérstaka þingmannanefnd (Committee of Members of Parliament of the EFTA Countries) og fylgir sú samþykkt ráðsins þessari skýrslu sem fylgiskjal I, svo og skipurit EFTA sem fylgiskjal II.
    Samkvæmt ákvörðuninni á þingmannanefnd EFTA að vera ráðinu til ráðgjafar um starfsemi samtakanna og einnig skal hún miðla upplýsingum um slík málefni milli EFTA og þingmanna EFTA-ríkjanna, sem og milli þingmanna sjálfra og má hún vera skipuð allt að fimm þingmönnum frá hverju þjóðþingi. Nefndin kýs sér formann og varaformann úr hópi nefndarmanna og skulu þeir kosnir til eins árs í senn. Nefndin ákveður sjálf dagskrá funda sinna og er nefndarmönnum frjálst að bera upp hvert það málefni sem varðar starfsemi samtakanna. Helstu skjöl nefndarinnar skulu skrifuð á ensku og frönsku sem eru ásamt þýsku „vinnumál“ hennar.
    Fyrsti formlegi fundur þingmannanefndarinnar var haldinn í Genf 25. nóvember 1977 og hafa fundir almennt verið haldnir árlega síðan, annaðhvort í Genf eða einhverju aðildarríkjanna. Með skýrslunni er birt yfirlit yfir íslensku þátttakendurna á reglulegum fundum þingmannanefndarinnar á fylgiskjali III. Tómas Árnason var varaformaður nefndarinnar starfsárið 1984–1985, en hvarf þá af þingi, og Kjartan Jóhannsson tók við formennsku starfsárið 1985–1986. Núverandi formaður nefndarinnar er Ingvar S. Melin frá Finnlandi, en varaformennsku gegnir Peter Jankowitsch frá Austurríki. Í þingmannanefnd EFTA eiga nú sæti af Íslands hálfu alþingismennirnir Matthías Á. Mathiesen og Jón Sæmundur Sigurjónsson, en ritari er Þórður Bogason lögfræðingur, starfsmaður nefndadeildar skrifstofu Alþingis.
    Þingmannanefnd EFTA hélt síðast fund, þann fjórtánda í röðinni, í Helsinki dagana 25.–26. maí 1989. Á þeim fundi var m.a. rætt um niðurstöður Óslóarráðstefnunnar, niðurstöður ráðherrafundar EFTA og Evrópubandalagsins 20. mars sl., samstarf við bandalagið og efnahagsástandið í Finnlandi. Næsti aðalfundur nefndarinnar verður haldinn í Vín í lok maí 1990.
    Milli aðalfunda heldur nefndin undirbúningsfundi ásamt því að vinnuhópar nefndarinnar hittast. Síðasti undirbúningsfundur fór fram í Genf 17. jan. sl.

2. Vinnuhópur um viðskipti með fisk og unnin matvæli.
    Innan þingmannanefndar EFTA starfa nú tveir vinnuhópar. Annar þeirra er um viðskipti með fisk og unnin matvæli (working group on trade in fish and processed food products), en hinn endurskoðar hlutverk þingmannanefndarinnar innan EFTA og verður nánar fjallað um hann í 4. lið. Að frumkvæði Íslendinga beitti vinnuhópurinn um viðskipti með fisk og unnin matvæli sér mjög fyrir því að ná samkomulagi um fríverslun með fisk. Á 12. fundi þingmannanefndarinnar í Hamar í Noregi í júní 1987 samþykkti nefndin samhljóða að leggja til við EFTA-ráðið að það gerði nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fríverslun með fisk innan EFTA gæti orðið að veruleika á fjögurra til fimm ára aðlögunartíma. Þessi samþykkt þingmannanefndarinnar, ásamt því að viðskiptaráðherrar EFTA höfðu mjög beitt sér í þessu máli að tilstuðlan íslenska viðskiptaráðuneytisins, leiddi til þess að á ráðherrafundi EFTA-ráðsins í Tampere í Finnlandi í júní 1988 var ákveðið að skipa vinnuhóp embættismanna um fríverslun með fisk. Málstaður Íslands í þessu máli fékk stuðning er leiðtogafundur EFTA, haldinn í Ósló í mars 1989, samþykkti að tekin skyldi upp fríverslun með fisk innan EFTA. Lokaskýrslu um fríverslun með fisk var skilað á ráðherrafundi EFTA-ráðsins í Kristiansand í júní 1989 og ákveðið þar að breyta Stokkhólmssáttmálanum í samræmi við niðurstöður hennar. Á fundi þingmannanefndarinnar í Helsinki í maí 1989 var vinnuhópnum um viðskipti með fisk og unnin matvæli falið að vinna áfram að athugun á umhverfisverndarmálum með sérstöku tilliti til landbúnaðar, en búast má við að þau málefni verði ofarlega á baugi á næstunni á vettvangi umhverfismála í Evrópu. Einnig var vinnuhópnum falið að athuga hverjar séu líkur á fríverslun með fleiri tegundir af unnum matvælum en nú er. Vinnuhópurinn fundaði í Vín 27. október 1989 og í Genf 18. janúar 1990. Gert er ráð fyrir að næsti fundur vinnuhópsins verði í Reykjavík 17.–18. apríl nk.


3. Viðræður þingmannanefndarinnar við stofnanir EB.
    Þingmannanefndin hefur frá árinu 1981 átt formlegar viðræður við fulltrúa Evrópuþingsins. Sérstök sendinefnd Evrópuþingsins og þingmannanefnd EFTA áttu á árunum 1981–1986 fimm sameiginlega fundi, auk eins óformlegs fundar. Á þessum fundum var m.a. fjallað um almenn sjónarmið er varða málefni EFTA og EB, ríkisstyrki, reynslu af fríverslun í Evrópu, tengsl EFTA og EB og hugsanlega samvinnu og frekari þróun samskipta, Lúxemborgaryfirlýsinguna frá 1984 og möguleika á aukinni fríverslun, t.d. með fiskafurðir og önnur unnin matvæli.
    Frá árinu 1988 hefur verið efnt til sameiginlegra viðræðna nefndarinnar við utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins, REX-nefndina (the European Parliament's Committee on External Economic Relations), en nefnd þessi hefur mikil áhrif á Evrópuþinginu. Var það ekki hvað síst að frumkvæði Kjartans Jóhannssonar sem hafði um skeið verið annar tveggja fulltrúa Íslands í nefndinni. Hafa þessar nefndir átt þrjá sameiginlega fundi. Fyrsti fundurinn var haldinn í Brussel 17.–18. febrúar 1988 og fjallaði hann um hugmyndir um stofnun evrópska efnahagssvæðisins (the European Economic Space) og tilkomu innri markaðar EB, umhverfismál og skýrslu um viðskiptatengsl EFTA og EB. Annar sameiginlegur fundur með REX-nefndinni var dagana 23.–24. nóvember 1988 í Brussel. Skiptust fundarmenn á skoðunum um þróun í samskiptum EFTA og EB að undanförnu, um samvinnu EFTA og EB á sviði umhverfismála og um samvinnu á sviði menntamála. Síðasti fundur þessara nefnda var haldinn í Brussel 30. nóvember 1989. Þar var rætt um þróun samgöngumála í Evrópu. Þá var rætt um það ástand sem skapast hefur í álfunni með efnahagslegum og stjórmálalegum breytingum í Austur-Evrópu. Loks voru almennar umræður um stöðu mála í samningaviðræðum EFTA og EB, þar á meðal um niðurstöðu funda þeirrar nefndar sem forustu hefur í viðræðunum um evrópska efnahagssvæðið (High-Level Steering Group).
    Þessi síðasti sameiginlegi fundur nefndanna var mjög vel undirbúinn af beggja hálfu. Er greinilega aukinn áhugi á viðræðum þessum hjá þingmönnum Evrópuþingsins og ávarpaði forseti Evrópuþingsins þennan fund nefndanna. Viðræðurnar við REX-nefndina hafa mikla þýðingu þar sem nefndin mun fjalla um hugsanlegan samning um evrópska efnahagssvæðið áður en umræða um hann hefst á sjálfu Evrópuþinginu. Það er skoðun beggja nefnda að efla beri umræðu og tengsl milli REX-nefndarinnar og þingmannanefndar EFTA.


4. Aukið hlutverk þingmannanefndar EFTA.
    Á fundi þingmannanefndarinnar í Helsinski í maí sl. var samþykkt að stofna vinnuhóp til að endurskoða hlutverk þingmannanefndarinnar (working group on the review of the role of the committee) og var hópnum falið að fjalla um framtíðarhlutverk þingmannanefndarinnar í störfum innan EFTA og í evrópsku samstarfi almennt, með sérstöku tilliti til samningaviðræðna EFTA og EB um evrópska efnahagssvæðið. Matthías Á. Mathiesen á sæti í vinnuhópnum af hálfu Íslands. Vinnuhópurinn hefur haldið þrjá fundi, í Genf 20. september 1989, í Stokkhólmi 13. október 1989 og í Genf 17. janúar 1990. Þann 13. október sl. ritaði hópurinn formanni EFTA-ráðsins, Kjartani Jóhannssyni sendiherra, bréf þar sem lagðar voru fram hugmyndir um aukið hlutverk þingmannanefndarinnar innan EFTA. Í kjölfar þess var formanni þingmannanefndar EFTA í fyrsta sinn boðið til fundar við ráðherra EFTA-ráðsins sem haldinn var í desember sl. Á fundinum kom fram viðurkenning á störfum þingmannanefndarinnar og lögð áhersla á mikilvægi hennar. Niðurstöður EFTA-ráðsins sem svör við bréfi nefndarinnar frá 13. október voru að ráðherrar EFTA-ríkjanna lýstu yfir nauðsyn þess að náið samstarf yrði á milli ráðherranna og þingmannanefndarinnar. Urðu ráðherrarnir sammála um að halda sameiginlega fundi með nefndinni, í tengslum við ráðherrafundi og verður sá fyrsti haldinn í Genf í byrjun apríl. Þeir lýstu yfir nauðsyn aukins samráðs um mikilvæg málefni er varða samtökin og samþykktu að EFTA-ráðið skyldi jafnan leita álits þingmannanefndarinnar. Það var skoðun ráðherranna að formanni þingmannanefndarinnar yrði boðið að kynna fyrir ráðherrunum verkefni og ályktanir nefndarinnar þegar svo stæði á að sameiginlegir fundir væru ekki.
    Auk starfs innan EFTA hefur vinnuhópurinn fjallað mjög um hugmyndir varðandi sameiginlega þingmannanefnd eða þingmannaráð EFTA og EB í tengslum við samning um evrópska efnahagssvæðið. Telur vinnuhópurinn að slík stofnun sé nauðsynleg ef samningar takast við EB um efnahagssvæðið. Hefur vinnuhópurinn rætt fyrirkomulag slíkrar stofnunar en endanlegar hugmyndir þar um liggja ekki fyrir. Ráðherrafundur EFTA-ráðsins 11.–12. desember sl. undirstrikaði sérstaklega mikilvæga stöðu þingmanna í viðræðum um evrópska efnahagssvæðið og nauðsyn þeirrar viðleitni þingmannanefndarinnar að koma sjónarmiðum EFTA á framfæri við Evrópuþingið. Framkvæmdastjórn EB hefur einnig sérstaklega vikið að því í samningaviðræðunum, sem nú fara fram, að rétt væri að koma á samstarfsvettvangi þingmanna EFTA-ríkjanna og EB. Næsti fundur vinnuhópsins verður væntanlega í Genf í mars næstkomandi.


5. Skipun fulltrúa Íslands.
    Þingmannanefnd EFTA hefur aukið áhrif sín jafnt og þétt og má búast við því að hlutverk hennar aukist enn verði af samningum um evrópska efnahagssvæðið. Ekki hafa gilt ákveðnar reglur um starf alþingismanna í þingmannanefndinni, frekar en öðrum alþjóðanefndum þingsins. En með tilliti til aukinna áhrifa nefndarinnar er ljóst að Alþingi þarf að setja reglur um starf þingmanna í henni. Fulltrúar Íslands í nefndinni telja eðlilegt að slíkar reglur verði ræddar og settar á næsta þingi, en þá verður væntanlega ljóst hvernig framtíðarskipan þingmannanefndarinnar verður háttað. Þetta er í samræmi við það sem kom fram á síðasta fundi vinnuhópsins sem endurskoðar hlutverk þingmannanefndarinnar, en þá var samþykkt að bíða með umræður um tillögur að breytingum á skipan nefndarinnar sem norska Stórþingið hefur lagt til.

Alþingi, 31. jan. 1990.



Matthías Á. Mathiesen.


Jón Sæmundur Sigurjónsson.






Fylgiskjal I.



ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS NR. 11 ÁRIÐ 1977


(Samþykkt á 20. sameiginlegum ráðherrafundi, 13.–14. október 1977.)



Stofnun nefndar þingmanna frá þjóðþingum aðildarríkja EFTA.



    RÁÐIÐ,

    með hliðsjón af tillögu sérskipaðs hóps þingmanna EFTA-ríkjanna,
    með hliðsjón af 3. mgr. 32. gr. Stokkhólmssáttmálans, sem felur ráðinu þá ábyrgð að koma á fót þeim stofnunum og nefndum sem það telur nauðsynlegt til aðstoðar við að framkvæma hlutverk þess,

     ákveður:

1.    Hér með er komið á fót nefnd þingmanna frá aðildarríkjum EFTA til að vera ráðunum til ráðgjafar um málefni sem heyra undir starfsemi samtakanna og til þess að miðla upplýsingum um slík málefni milli EFTA og þingmanna EFTA-ríkjanna, sem og meðal þingmanna sjálfra.
2.    Nefndarmenn skulu vera fulltrúar á þjóðþingum EFTA-ríkjanna (aðildarríkja eða ríkja í samstarfi við EFTA). Allt að fimm þingmenn frá hverju þjóðþingi mega sækja fundi nefndarinnar. Fyrir hvern fund skulu framkvæmdastjóranum látin í té nöfn þeirra þingmanna er munu sækja fundinn.
3.    Nefndin kýs sér formann og varaformann úr hópi nefndarmanna og ræður einfaldur meiri hluti þeirra sem á fundi eru og taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Kjörtími þeirra skal vera eitt ár.
4.    Nefndin skal koma saman til fundar að minnsta kosti einu sinni á ári. Formaður ákveður fundartíma og fundarstað, að höfðu samráði við nefndarmenn. Framkvæmdastjórinn boðar til funda og sendir út dagskrárdrög með minnst fjögurra vikna fyrirvara.
5.    Nefndin ákveður dagskrá sína. Nefndarmönnum er frjálst að bera upp hvert það málefni sem heyrir undir starfsemi samtakanna. Formaður stjórnar umræðunum.
6.    Fulltrúar EFTA-ríkjanna í ráðunum og framkvæmdastjórinn mega sitja fundi nefndarinnar og taka þátt í umræðum.
7.    Fundir nefndarinnar skulu haldnir fyrir luktum dyrum nema annað sé ákveðið.
8.    a.     Helstu skjöl nefndarinnar skulu skrifuð á ensku og frönsku.
    b.     Umræður innan nefndarinnar skulu jafnóðum þýddar á ensku, frönsku og þýsku (vinnumál).
    c.     Ef ræða er flutt á öðru máli en vinnumáli skal sendinefnd sú sem í hlut á sjá um þýðingu hennar yfir í eitt vinnumálanna.
    d.     Ef nefndinni er boðið að halda fund utan Genfar skal það land sem býður almennt bera kostnað af fundaraðstöðunni sem og tækjabúnaði til þýðinga.
9.    Eftir hvern fund skal formaður skila skýrslu til ráðanna um störf fundarins og samþykktar tillögur.



Fylgiskjal II.


(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal III.


FULLTRÚAR ÍSLANDS Á ÁRSFUNDUM ÞINGMANNANEFNDAR EFTA



     1. fundur 25. nóvember 1977, Genf.
    Oddur Ólafsson.
    Jón Helgason.

     2. fundur 12.–13. október 1978, Stokkhólmi.
    Stefán Jónsson.

    3. fundur 25.–26. október 1979, Genf.
    Enginn fulltrúi mætti fyrir Íslands hönd.

    4. fundur 16.–18. apríl 1980, Lissabon.
    Jósef H. Þorgeirsson.
    Jón Helgason.

    5. fundur 6.–8. júlí 1981, Tromsö.
    Jósef H. Þorgeirsson.
    Jón Helgason.

    6. fundur 11.–12. nóvember 1981, Genf.
    Geir Hallgrímsson.
    Jón Helgason.

    7. fundur 3.–5. maí 1982, Basel.
    Guðmundur G. Þórarinsson.
    Jósef H. Þorgeirsson.

    8. fundur 4.–6. júlí 1983, Helsinki.
    Ellert B. Schram.
    Tómas Árnason.

     9. fundur 3.–4. maí 1984, Vín.
    Tómas Árnason.

    10. fundur 20.–21. júní 1985, Reykjavík.
    Kjartan Jóhannsson.
    Gunnar G. Schram.
    Svavar Gestsson.
    Valdimar Indriðason.
    Haraldur Ólafsson.
    Friðrik Ólafsson, ritari nefndarinnar.

    11. fundur 17.–18. júní 1986, Stokkhólmi.
    Kjartan Jóhannsson.
    Gunnar G. Schram.

     12. fundur 22.–24. júní 1987, Hamar.
    Kjartan Jóhannsson.
    Gunnar G. Schram.

    13. fundur 18.–20. maí 1988, Fribourg.
    Kjartan Jóhannsson.
    Friðjón Þórðarson.

     14. fundur 25.–26. maí 1989, Helsinki.
    Kjartan Jóhannsson.
    Matthías Á. Mathiesen.