Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 362 . mál.


Nd.

622. Frumvarp til laga



um launasjóð stórmeistara í skák.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Stofna skal launasjóð íslenskra stórmeistara í skák.
    Skal stofnfé sjóðsins samsvara árslaunum fjögurra háskólakennara þannig að úthlutað er alls fjórum stöðugildum hverju sinni.
    Tilgangur sjóðsins er að skapa íslenskum stórmeisturum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig skáklistinni standi hugur þeirra til þess.
    Stórmeistarar, sem njóta launa úr sjóðnum, hafa kennslu- og fræðsluskyldu að gegna við Skákskóla Íslands sem nánar er kveðið á um í reglugerð.

2. gr.

    Fjárveiting skv. 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1991.
    Í fjárlögum ár hvert skal sjóðnum síðan ætluð fjárveiting er nemi eigi lægri fjárhæð en að ofan greinir.
    Fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárlaga með tilliti til breytinga á launum háskólakennara.

3. gr.

    Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa þeir íslenskir skákmeistarar sem öðlast hafa alþjóðlegan titil stórmeistara og sýna skákstyrk sinn með því að ná stórmeistaraárangri a.m.k. einu sinni á tveggja ára tímabili. Einnig má veita þeim sem náð hafa áfanga að þessari viðurkenningu fé úr sjóðnum ef til þess er svigrúm að lokinni úthlutun til stórmeistara.

4. gr.

    Stórmeistarar, sem njóta launa úr sjóði þessum, skulu:
a.    sinna skákkennslu við Skákskóla Íslands eða fræðslu á vegum skólans, sbr. lög um Skákskóla Íslands,
b.    sinna rannsóknum á sviði skáklistar,
c.    tefla fyrir Íslands hönd á skákmótum heima og erlendis.

5. gr.


    Stórmeistarar, sem þiggja laun samkvæmt lögum þessum, teljast opinberir starfsmenn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, sbr. lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

6. gr.

    Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara þar sem m.a. skal kveðið á um vörslu sjóðsins og úthlutanir úr honum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Íslenskir stórmeistarar í skák hafa á undanförnum áratugum, eða allt síðan Friðrik Ólafsson, fyrstur Íslendinga, vann til stórmeistaratignar árið 1957, notið launa hjá íslenska ríkinu. Nú eru fjórir stórmeistarar á launaskrá menntamálaráðuneytisins og stunda ekki aðra atvinnu en skákiðkunina.
    Sá háttur hefur verið hafður á að stórmeistararnir hafa með ráðherraúrskurði verið settir á launaskrá hjá menntamálaráðuneytinu og í fjárlögum verið veittur sérstakur styrkur árlega til þess að standa straum af kostnaði vegna þessa.
    Með þessu hafa íslensk stjórnvöld viljað leggja sitt af mörkum til að auka veg íslenskrar skákmenntar og til að skapa íslenskum stórmeisturum fjárhagslegan grundvöll svo að þeir gætu helgað sig skáklistinni í sem ríkustum mæli. Launagreiðslur þessar voru frá upphafi miðaðar við laun menntaskólakennara, enda á því byggt að á móti kæmi nokkur skylda til að kenna skák í skólum landsins.
    Engar reglur hafa þó til þessa verið settar um réttindi og skyldur stórmeistara, vinnuframlag eða launagreiðslur til þeirra. Það er á hinn bóginn ljóst að fleiri munu bætast í hóp stórmeistara á næstu árum og er því löngu tímabært að settar verði fastmótaðar reglur um framtíðarskipan þessara mála.
    Hér er lagt til að stofnaður verði með lögum launasjóður stórmeistara í skák. Stofnfé sjóðsins samsvari árslaunum fjögurra háskólakennara. Að auki verði sjóðnum í fjárlögum hvers árs úthlutað svipaðri upphæð og nú er varið til greiðslu launa stórmeistara. Í fjárlögum þess árs er varið 5.280.000 kr. til þessa málaflokks. Það fyrirkomulag, sem hér er lagt til að verði lögfest, mun því ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð svo að nokkru nemi.
    Með stofnun launasjóðs stórmeistara í skák er stefnt að hagræðingu hvað tilhögun launagreiðslna til þeirra varðar. Úr sjóðnum verði úthlutað launum til stórmeistara kjósi þeir að helga sig skákiðkun, en á móti komi kennslu- og fræðsluskylda við Skákskóla Íslands sem lagt hefur verið til að stofnaður verði með sérstökum lögum. Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, verður nánar ákveðið um kennslu og önnur verkefni sem þeim er ætlað að annast.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í grein þessari er lagt til að lögfest verði stofnun launasjóðs íslenskra stórmeistara í skák. Meginhlutverk er að skapa íslenskum stórmeisturum aðstöðu og tækifæri til að auka styrkleika sinn á alþjóðamælikvarða og enn fremur að stuðla að útbreiðslu skáklistarinnar hér á landi. Umsjón með framkvæmd skákkennslunnar er í höndum Skákskóla Íslands sem lagt er til að stofnaður verði með sérstökum lögum.
    Lagt er til að stofnfé sjóðsins samsvari árslaunum fjögurra háskólakennara, en áður hafa stórmeistarar notið launa er samsvara launum menntaskólakennara. Lagt er til að starfsskyldur stórmeistara verði hliðstæðar starfsskyldum háskólakennara, að því leyti að annars vegar stundi þeir rannsóknir í skák og hins vegar kennslu og almenna fræðslu í skák. Eðlilegt virðist því að miða laun þeirra við laun háskólakennara.
    Miðað er við að menntamálaráðherra úthluti úr sjóðnum, að fenginni umsögn stjórnar Skákskóla Íslands, annað hvert ár og verði starfslaunum úthlutað til tveggja ára í senn.

Um 2. gr.


    Vísað er til athugasemda um 1. gr., en að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Við það er miðað að launagreiðslur renni einvörðungu til þeirra skákmeistara er náð hafa alþjóðlegum titli stórmeistara og ná stórmeistaraárangri a.m.k. einu sinni á tveggja ára tímabili.
    Einnig kemur til greina að úthluta starfslaunum úr sjóðnum til skákmanna er náð hafa áfanga að stórmeistaratitli ef sérstakar ástæður mæla með því og svigrúm er til.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um skyldur þeirra er starfslauna njóta úr launasjóði stórmeistara í skák. Meginmarkmiðið er að styrkja stöðu skáklistar á Íslandi og skapa hæfileikafólki á þessu sviði aðstöðu og tækifæri til að auka styrkleika sinn á alþjóðamælikvarða í öflugum skákkeppnum heima og erlendis. Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til laga um Skákskóla Íslands.

Um 5. gr.


    Í lagagrein þessari er staðfest að stórmeistarar teljist opinberir starfsmenn í skilningi laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og njóti því lífeyrisgreiðslna í samræmi við það.



Fylgiskjal.


Drög að reglugerð um launasjóð stórmeistara.



1. gr.

    Menntamálaráðherra fer með vörslu launasjóðs stórmeistara og úthlutar úr honum í samráði við stjórn Skákskóla Íslands og Skáksamband Íslands.

2. gr.

    Árlegum tekjum sjóðsins skal varið til að greiða íslenskum stórmeisturum í skák laun sem svara til launa háskólakennara.

3. gr.

    Launin eru veitt samkvæmt umsóknum til tveggja ára í senn eða skemur ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Úthlutað er úr sjóðnum annað hvert ár. Menntamálaráðherra auglýsir eftir umsóknum með venjulegum hætti.

4. gr.

    Megintilgangur með launasjóði stórmeistara er að gera þeim kleift að helga sig skákíþróttinni í sem ríkustum mæli.
    Stórmeistari, sem sækir um og hlýtur laun úr sjóði þessum, skal sbr. lög nr. ..., um launasjóð stórmeistara í skák, annast kennslu við framhaldsdeild Skákskóla Íslands eða sinna öðrum verkefnum á vegum hans sem miða að því að efla skákáhuga meðal landsmanna.
    Vinnuskylda stórmeistara, kennsla og fræðslustörf, skal ákvarðast af stjórn Skákskólans í samráði við viðkomandi stórmeistara. Hún skal svara til árlegrar kennsluskyldu lektora við Háskóla Íslands og getur verið fólgin í öðrum þáttum en beinni kennslu. Sem dæmi má nefna hefðbundið námskeiðahald, fjölteflaferðir út á land, reglulega fyrirlestra þegar komið er heim frá þátttöku í skákmótum, aðstoð við undirbúning fulltrúa Íslands í unglingakeppnum, kennslu á gagnabankaforrit o.fl.
    Þá skal kennsluskylda stórmeistaranna falla niður er þeir taka þátt í viðurkenndum skákmótum. Einnig skal skólanefnd heimilt að veita undanþágu frá henni þegar undirbúningur stendur yfir fyrir sérstök mót, svo sem Ólympíumót og önnur mót sem FIDE og GMA halda.
    Laun stórmeistara skulu greidd mánaðarlega hjá ríkisféhirði.

5. gr.

    Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. ..., um launasjóð stórmeistara í skák, og öðlast þegar gildi.