Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 498 . mál.


Ed.

872. Frumvarp til laga



um Lánasýslu ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Lánasýsla ríkisins skal fyrir hönd fjármálaráðherra fara með lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innan lands og utan, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár og ríkisábyrgðir.
    Lánasýsla ríkisins heyrir undir fjármálaráðherra. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

    Í störfum sínum skal Lánasýsla ríkisins stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum:
1.    Halda erlendum og innlendum vaxta- og fjármagnskostnaði ríkisins í lágmarki.
2.    Dreifa gengis-, vaxta- og verðlagsáhættu vegna skulda ríkisins á sem hagkvæmastan hátt.
3.    Draga úr áhættu ríkissjóðs vegna ábyrgða og endurlána.
4.    Efla markað fyrir ríkisverðbréf á innlendum fjármagnsmarkaði með kynningu og þjónustu.
5.    Efla lánstraust íslenska ríkisins á erlendum lánsfjármörkuðum og bæta þannig lánskjör þjóðarinnar erlendis.

3. gr.


    Starfsemi Lánasýslu ríkisins skiptist í þrjú meginsvið:
1.     Ábyrgða- og endurlánamál, en starfrækja skal Ríkisábyrgðasjóð sem deild við Lánasýslu ríkisins.
2.     Sölu og innlausn innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs og ríkisvíxla. Í þessu skyni er Lánasýslu ríkisins heimilt að starfrækja þjónustumiðstöð fyrir kaupendur innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs og ríkisvíxla.
3.     Erlend lánamál.

4. gr.


    Heimilt er að lántökur Lánasýslu ríkisins í nafni ríkissjóðs og endurlán færist á reikninga hennar.
    Lánasýsla ríkisins tekur við öllum eignum og skuldum, kröfum og skuldbindingum Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt lögum nr. 49/1962 eins og þær standa þegar lög þessi öðlast gildi.
    Lánasýsla ríkisins skal fyrir hönd ríkissjóðs greiða kröfur sem á hann falla vegna ríkisábyrgða og lána sem ríkissjóður hefur tekið og endurlánað og eignast hún þær framkröfur sem myndast með þeim hætti.

5. gr.


    Lánasýsla ríkisins semur fyrir hönd ríkissjóðs um lán, endurlánar fé og veitir ábyrgðir samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra innan heimilda sem Alþingi veitir hverju sinni.
    Lánasýslu ríkisins er heimilt í nafni ríkissjóðs að taka lán og endurlána fé í stað sjálfskuldarábyrgðar ríkissjóðs skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, enda sé það fyrirkomulag tryggara fyrir ríkissjóð.

6. gr.

    Lánasýslu ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að endurfjármagna innlendar og erlendar skuldir fyrir gjalddaga þegar hagstæðari kjör bjóðast. Einnig er Lánasýslu ríkisins heimilt að taka fyrir hönd ríkissjóðs erlend skammtímalán til endurgreiðslu áður tekinna erlendra skammtímalána eða breyta sömu skammtímaskuldum í föst lán.
    Lánasýslu ríkisins er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að selja ríkisvíxla á innlendum markaði til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla og til að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi hans í Seðlabankanum.
    Enn fremur er Lánasýslu ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að breyta gjaldmiðlum og/eða vaxtakjörum á erlendum lánum með sérstökum samningum, enda felist ekki nýjar lántökur í slíkum breytingum.
    Fjármálaráðherra skal árlega upplýsa Alþingi um notkun þessara heimilda.
    Heimilt er að kveða nánar á um ákvæði þessarar greinar í reglugerð.

7. gr.

    Lánasýsla ríkisins skal hafa eftirlit með lántökum aðila sem ríkisábyrgðar njóta á skuldbindingum sínum og vera ráðgefandi um skuldstýringu þeirra.
    Skylt er þeim aðilum, er hyggjast taka lán erlendis og ríkisábyrgðar njóta á erlendum skuldbindingum, að kynna þau áform sín fyrir Lánasýslu ríkisins og leita eftir fyrir fram samþykki á þeim kjörum og skilmálum sem þeir hyggjast semja um.

8. gr.

    Forseti Íslands skipar forstjóra Lánasýslu ríkisins samkvæmt tillögu fjármálaráðherra. Forstjóri stjórnar rekstri Lánasýslu ríkisins og ræður henni starfsfólk.

9. gr.

    Heimilt er að semja við Seðlabanka Íslands um að hann annist framkvæmd erlendra lánamála, ríkisábyrgða- og endurlánamála, svo og önnur verkefni sem Lánasýslu ríkisins eru falin eftir því sem hagkvæmt þykir.

10. gr.

    Kostnað af starfsemi Lánasýslu ríkisins skal greiða með eftirfarandi tekjum:
1.    Lántökugjöldum og vaxtamun endurlána.
2.    Áhættugjaldi skv. 4. gr. laga nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.
3.    Umboðslaunum af seldum ríkisverðbréfum.
4.    Framlögum sem ákveðin verða í fjárlögum hverju sinni eftir því sem Lánasýsla ríkisins þarf á að halda vegna greiðslna sem á hana kunna að falla umfram tekjur og endurgreiddar framkröfur.
5.     Ýmsum tekjum sem tengjast starfsemi Lánasýslu ríkisins.
    Verði hagnaður af starfsemi Lánasýslu ríkisins skal hann renna í ríkissjóð.

11. gr.


    Nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og starfsemi Lánasýslu ríkisins má setja með reglugerð.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 49/1962, um Ríkisábyrgðasjóð, og 2. gr. laga nr. 103/1974, um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Fjármálaráðherra skipaði 31. janúar sl. nefnd til að semja frumvarp til laga um Lánasýslu ríkisins. Nefndinni var falið að skila lagafrumvarpi eigi síðar en 28. febrúar sl. Í nefndina voru skipaðir: Björn Tryggvason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Ingimundur Friðriksson, forstöðumaður alþjóðadeildar Seðlabanka Íslands, Már Guðmundsson, efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra, og Sigurgeir Jónsson ráðuneytisstjóri sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Nefndinni til aðstoðar var Sveinbjörn Hafliðason, forstöðumaður lögfræðideildar Seðlabanka Íslands. Nefndin skilaði frumvarpi til fjármálaráðherra 27. febrúar sl.
    Frumvarp þetta er í öllum meginatriðum byggt á tillögum nefndarinnar. Samkvæmt því er lagt til að breytt verði fyrirkomulagi á framkvæmd lána- og ábyrgðamála ríkisins jafnframt því sem núgildandi lagaákvæði um þessi mál eru samræmd. Með þessu móti er stefnt að því að styrkja stöðu ríkissjóðs í ljósi vaxandi samkeppni á lánamörkuðum.
    Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á innlendum fjármagnsmarkaði og fyrirkomulag á innlendri fjáröflun ríkissjóðs var tekið til endurskoðunar á síðastliðnu ári. Tilkoma nýrra verðbréfa, bankabréfa og verðbréfasjóða hefur m.a. leitt til harðari samkeppni um sparifé landsmanna og kallar á viðbrögð af ríkisins hálfu. Með sérstöku samkomulagi fjármálaráðuneytis og Seðlabanka var ákveðið að koma á fót Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa sem er að formi til deild í Ríkisábyrgðasjóði, enda hefur kostnaður af þessu verkefni verið færður um Ríkisábyrgðasjóð hingað til. Þjónustumiðstöðin tekur við markaðssetningu innlendra ríkisverðbréfa af Seðlabankanum, enda getur hún beitt sér með ákveðnari hætti á markaðnum en Seðlabankinn getur vegna hins almenna hlutverks síns. Hefur Þjónustumiðstöðin
nú nýlega tekið til starfa.
    Vaxandi nauðsyn er því á að skuldstýring ríkissjóðs verði samræmd og efld, en á því sviði hafa orðið miklar framfarir erlendis á síðustu árum. Sömuleiðis þarf eftirlit með notkun ríkisábyrgða að tengjast skuldstýringu ríkissjóðs ef þjóðin á að geta náð bestu lánskjörum erlendis. Jafnframt hefur reynslan sýnt að yfirleitt er hægt að ná betri lánskjörum með því að safna lántökum ríkisins og annarra opinberra aðila saman í hæfilega stórar lántökur.
    Ríkið stendur nú frammi fyrir mun harðari samkeppni á innlendum lánamarkaði en áður og jafnframt má búast við að mörkin milli innlendrar og erlendrar lántöku verði ógleggri í framtíðinni en nú er ef dregið verður frekar úr hömlum á fjármagnshreyfingum milli Íslands og umheimsins. Svipaðar aðferðir munu því eiga við varðandi lánsfjáröflun á innlendum og erlendum lánsfjármörkuðum í framtíðinni.
    Af ofangreindum ástæðum er hér m.a. lagt til að fela sérhæfðri ríkisstofnun utan fjármálaráðuneytis að annast öll lána- og ábyrgðamál ríkisins undir yfirstjórn fjármálaráðherra. Með því er tryggð nauðsynleg heildaryfirsýn yfir innlend og erlend lánamál, svo og ábyrgðir ríkissjóðs og endurlán sem eru lánamálunum nátengd.
    Umfang lána- og ábyrgðarstarfsemi ríkisins er orðið mjög mikið. Í árslok 1989 námu spariskírteini, innlend lán, ríkisvíxlar, erlend lán, ábyrgðir og endurlán ríkissjóðs eftirfarandi fjárhæðum (í millj. kr.), en þetta eru þær skuldbindingar sem liggja á meginverksviði Lánasýslu ríkisins:
              
    Spariskírteini ríkissjóðs ..........
26,447

    Ýmis innlend lán ...................
1,851

    Ríkisvíxlar ........................
5,892
          ———
         Samtals
34,190

    Erlend lán .........................
58,840

         
———

         Lán alls
93,030

    Sjálfskuldarábyrgðir ríkissjóðs ....
31,630

         
———

    Lán og ábyrgðir alls ...............
124,660

         
———

    Þar af endurlán ....................
28,923


    Vaxtakostnaður ríkisins hefur á undanförnum árum farið vaxandi samfara auknu umfangi lána- og ábyrgðastarfsemi ríkisins. Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs nema fjármagnsgjöld A-hluta ríkissjóðs röskum 9 milljörðum króna eða sem svarar nær einum tíunda hluta heildarútgjalda. Á móti nema fjármagnstekjur rúmum 4 milljörðum króna. Auk þessa verður ríkissjóður fyrir kostnaði vegna ábyrgða sem á hann falla. Það eru því miklir hagsmunir í húfi að það takist að halda fjármagnskostnaði ríkissjóðs í lágmarki.
    Umfang þeirrar starfsemi, sem heyra mun undir Lánasýslu ríkisins, sést m.a. ef litið er á þróunina í þessum efnum á síðasta ári hjá A-hluta ríkissjóðs. Á árinu voru spariskírteini seld fyrir 5,1 milljarð króna en innleyst fyrir 3,4 milljarða króna. Ríkisvíxlar voru seldir umfram innlausn fyrir 5,2 milljarða króna og nam ríkisvíxlastofninn í árslok 5,9 milljörðum króna. Erlendar lántökur A-hluta ríkissjóðs námu 6,6 milljörðum króna, en þar af stöfuðu 5 milljarðar króna af endurgreiðslu yfirdráttarskuldar í Seðlanbankanum í árslok 1988, en afgangurinn skýrist að mestu af milligöngu um útvegun lánsfjár, t.d. fyrir Atvinnutryggingarsjóð, Lánasjóð íslenskra námsmanna o.fl. Auk þessa skuldbreytti ríkissjóður erlendum lánum fyrir rúma 4 milljarða króna og stofnaði til vaxtaskipta á láni sem nam 1,2 milljörðum króna. Veittar voru sjálfskuldarábyrgðir ríkissjóðs fyrir 1,9 milljarða króna á árinu. Samtals var því umfang þessarar starfsemi 24 milljarðar króna sem er samtala seldra spariskírteina og ríkisvíxla, erlendrar lántöku, skuldbreytinga, vaxtaskipta og veittra sjálfskuldarábyrgða.
    Dagleg framkvæmd lána- og ábyrgðamála ríkissjóðs var að mestu leyti falin Seðlabankanum fljótlega eftir stofnun hans árið 1961 undir yfirumsjón fjármálaráðuneytisins. Þannig var samið við bankann seint á árinu 1962 um að hann tæki að sér vörslu og daglegan rekstur Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt heimild í lögum um sjóðinn nr. 49/1962 og hefur það fyrirkomulag verið óbreytt síðan þannig að Ríkisábyrgðasjóður starfar sem sérstök deild í bankanum. Um erlendar lántökur ríkisins hefur bankinn séð að mestu leyti frá upphafi, en framan af samkvæmt samkomulagi hverju sinni. Á árinu 1972 var bankanum falið verkefnið með sérstakri samþykkt ríkisstjórnarinnar. Alþjóðadeild Seðlabankans hefur séð um þessar lántökur ásamt öðrum verkefnum frá því henni var komið á fót árið 1977, en Ríkisábyrgðasjóður hefur séð um bókhald og greiðslur.
    Loks hefur Seðlabankinn séð um útgáfu og innlausn spariskírteina ríkisjóðs allt frá upphafi þeirrar útgáfu árið 1964. Ýmsar deildir bankans hafa séð um framkvæmdina, en fjárhagslegt eftirlit og bókhald er í Ríkisábyrgðasjóði. Jafnframt hefur bankinn á allra síðustu árum séð um útgáfu ríkisvíxla sem er nýmæli í innlendri fjáröflun ríkissjóðs.
    Ekki er með þessu frumvarpi verið að breyta þessu fyrirkomulagi, enda hefur það gefist vel. Eftir sem áður er það ávallt á valdi ráðherra að gera breytingu á þessari skipan. Ríkisábyrgðasjóður, sem yrði uppistaðan í einni af þremur megindeildum Lánasýslu ríkisins, yrði vistaður í Seðlabankanum. Jafnframt mundi Seðlabankinn annast erlend lánamál ríkissjóðs fyrir hönd Lánasýslu ríkisins eftir að frumvarp þetta verður að lögum. Hins vegar yrði Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa deild innan Lánasýslu ríkisins. Hér er því um óverulega viðbót við þá starfsemi að ræða sem þegar fer fram á vegum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans. Nauðsyn er á nánu samráði fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um lána- og ábyrgðamál þar sem lántökur snerta mjög hið lögskipaða verksvið bankans.
    Til þess að unnt sé að stýra skuldum ríkisins á hagkvæman hátt þarf sérstakar lagaheimildir til viðbótar við lántökuheimildir hvers árs. Til þessa hafa slíkar skuldstýringarheimildir verið veittar í lánsfjárlögum hvers árs og endurteknar þar ár frá ári. Eðlilegt er að eftir að Lánasýsla ríkisins kemst á fót verði henni veittar þessar almennu heimildir til skuldstýringar og skuldbreytinga. Gert er ráð fyrir að kveðið verði nánar á um notkun heimilda þessara í reglugerð. Fjármálaráðherra mun eins og hingað til veita heimildir til aðgerða á þessu sviði. Nauðsynlegt er að upplýst sé a.m.k. árlega um notkun heimilda þessara og er því eðlilegt að Lánasýsla ríkisins gefi út árlega skýrslu um starfsemi sína. Jafnframt mun Alþingi a.m.k. árlega vera gerð grein fyrir notkun þessara heimilda.
    Sú starfsemi, sem fara mun fram á vegum Lánasýslu ríkisins, felur ekki í sér marktæka viðbót við þá starfsemi á þessu sviði sem nú fer fram á vegum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans eða í samstarfi þessara aðila. Kostnaðarauki verður því ekki teljandi. Hins vegar er kostnaður við þessa starfsemi umtalsverður nú, enda eru umsvifin mikil eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.
    Nafnið, „Lánasýsla ríkisins“, hefur verið valið með tilliti til eðlis þeirrar starfsemi sem hér um ræðir og með hliðsjón af notkun orðsins sýsla í orðunum kaupsýsla, stjórnsýsla, hagsýsla o.s.frv., sbr. t.d. Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem í daglegu tali er oft kölluð Hagsýslan eða ámóta. Þessi notkun sprettur af hinni fornu merkingu orðsins „sýsla“: starf, verk: ganga um sýslur manna, andlegt verk, jarðleg sýsla: umboð til stjórnunarstarfa, skattheimtu, löggæslu: hirðstjórn og sýsla, hafa sýslu, halda sýslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er megintilgangi og aðalverkefnum Lánasýslu ríkisins lýst með því að Lánasýsla ríkisins annist fyrir hönd fjármálaráðherra, innan lands og utan, lántökur ríkissjóðs, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár og ríkisábyrgðir. Þetta þýðir að Lánasýsla ríkisins tekur engin lán, hvorki innan lands né utan, í eigin nafni. Lántökur á vegum ríkissjóðs verða eftir sem áður í hans nafni þótt þessi nýi aðili taki við hlutverki fjármálaráðuneytisins í lántökumálum ríkissjóðs. Vísast í þessu efni m.a. til almennra athugasemda hér að framan. Nánar yrði kveðið á um þessi efni í reglugerð, sbr. ákvæði 12. gr. frumvarps þessa.
    Í 2. gr. laga nr. 103/1974, um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja, er kveðið á um að fjármálaráðuneytið annist allar lántökur ríkissjóðs og stofnana er greinir í A-hluta ríkisreiknings. Verði frumvarp þetta að lögum annast Lánasýsla ríkisins hlutverk fjármálaráðuneytisins samkvæmt ákvæðum greindra laga.
    Skv. 2. mgr. heyrir Lánasýsla ríkisins stjórnskipulega undir fjármálaráðherra. Hér er ekki um breytingu að ræða frá fyrri framkvæmd. Fjármálaráðherra tekur sem fyrr endanlegar ákvarðanir um lántökur, ábyrgðir og endurlán ríkissjóðs sem heimiluð eru lögum samkvæmt hverju sinni.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um meginmarkmið sem Lánasýslu ríkisins ber að stefna að í starfi sínu. Þau eru:
1.    Að halda erlendum og innlendum vaxta- og fjármagnskostnaði ríkisins í lágmarki. Að þessu markmiði hefur verið unnið innan lands og utan mörg undanfarin ár eftir því sem aðstæður og möguleikar hafa leyft og því starfi verður haldið áfram.
2.    Að dreifa gengis-, vaxta- og verðlagsáhættu á skuldum ríkisins á sem hagkvæmastan hátt. Hér eru settir fram helstu þættir áhættudreifingar.
3.    Að draga úr áhættu ríkissjóðs vegna ábyrgða og endurlána. Í því efni er m.a. nauðsynlegt að fylgst sé með að tryggingar á móti ábyrgð séu viðunandi.
4.    Að efla markað fyrir ríkisverðbréf á innlendum fjármagnsmarkaði með kynningu og þjónustu. Ríkissjóður hefur í 25 ár gefið út spariskírteini sem frá upphafi voru verðtryggð. Spariskírteinin hafa náð góðri fótfestu á verðbréfamarkaði og var útistandandi skuld ríkissjóðs í spariskírteinum í árslok 1989 um 26,4 milljarðar króna. Markaður fyrir ríkisvíxla hefur eflst sérstaklega á undanförnum missirum. Útistandandi ríkisvíxlar námu þannig tæpum 6 milljörðum króna í árslok 1989. Um þessar mundir er að hefja starfsemi sína Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa og verður hún hluti Lánasýslu ríkisins sem frumvarp þetta fjallar um. Verkefni Þjónustumiðstöðvarinnar verða aðallega á sviði markaðssetningar innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs og ríkisvíxla. Fjármálaráðherra og Seðlabankinn gerðu 1. nóvember 1989 með sér samkomulag um verkaskiptingu milli bankans og Þjónusmiðstöðvarinnar í þessu efni eins og getið er í almennum athugasemdum hér að framan.
5.    Að efla lánstraust íslenska ríkisins á erlendum lánsfjármörkuðum og bæta þannig lánskjör þjóðarinnar erlendis. Að þessu hafa Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið unnið. Þetta hefur m.a. falist í upplýsingamiðlun, bæði kynningu erlendis og í dreifingu ritaðs efnis. Þá hafa ákveðnir lántökukostir verið valdir með það í huga að þeir verði nokkurs konar viðmiðun varðandi vaxtakjör fyrir íslenska lántakendur á erlendum lánamörkuðum. Á árinu 1989 fékk ríkissjóður fyrst lánshæfniseinkunnir frá viðurkenndum erlendum matsfyrirtækjum og treysta þær stöðu hans á erlendum lánamörkuðum.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lýst starfsemi Lánasýslu ríkisins. Eitt af meginverkefnum Lánasýslu ríkisins er að starfrækja Ríkisábyrgðasjóð, en hann verður deild við Lánasýslu ríkisins og starfar með sama hætti og nú að ábyrgða- og endurlánamálum. Annað verkefni Lánasýslu ríkisins er að yfirtaka Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa sem í dag sinnir innlendri verðbréfaútgáfu ríkissjóðs í samvinnu við Seðlabanka Íslands á grundvelli samkomulags fjármálaráðherra og Seðlabankans frá 1. nóvember 1989. Samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir að Lánasýsla ríkisins starfræki umrædda Þjónustumiðstöð í samvinnu við Seðlabankann fyrst um sinn í samræmi við ákvæði ofangreinds samkomulags.
    Varðandi frekari skýringar við grein þessa vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.


    Veitt er heimild til að færa lántökur og endurlán Lánasýslu ríkisins í nafni ríkissjóðs í reikninga hennar, en það gæti reynst heppilegt vegna skuldstýringar og endurlánastarfsemi. Á næstunni verður þetta mál kannað, m.a. af ríkisreikninganefnd. Jafnframt verður kannað hvort heppilegt sé að gera breytingar á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga með síðari breytingum, í framhaldi af því að frumvarp þetta verður að lögum.
    Lánasýsla ríkisins tekur við öllum kröfum og skuldbindingum Ríkisábyrgðasjóðs. Ríkisábyrgðasjóður verður ekki lengur sjálfstæð B-hluta stofnun heldur hluti af Lánasýslu ríkisins. Bókhaldsuppgjör hans mun þannig falla inn í uppgjör fyrir Lánasýslu ríkisins ef frumvarp þetta verður að lögum.

Um 5. gr.


    Þessi grein endurspeglar í raun heimildir lánsfjárlaga eins og þær hafa verið undanfarin ár. Í 2. mgr. felst heimild til þess að taka lán og endurlána fé í stað sjálfskuldarábyrgðar ríkissjóðs að hluta eða öllu leyti. Það kann oft að reynast heppilegra fyrir ríkissjóð að standa þannig að málum, enda nást yfirleitt betri kjör á stærri lánum en smærri á erlendum lánamörkuðum. Jafnframt hefur reynst auðveldara með þessum hætti að hafa lánstíma í samræmi við greiðslugetu skuldara.

Um 6. gr.


    Í lánsfjárlögum undanfarinna ára hafa verið ákvæði sem heimila ríkissjóði m.a. að endurfjármagna útistandandi lán fyrir gjalddaga þegar hagstæðari kjör bjóðast, breyta vaxta- og gjaldmiðlasamsetningu erlendra lána, nýta möguleika á skammtímalánamarkaði, t.d. veltilán og skammtímaskuldabréf o.fl. Í ákvæðum þessum felast ekki heimildir til að taka ný lán en þau gera ríkissjóði kleift að hagræða lánunum þannig að dregið verði úr áhættu og kostnaði. Nauðsynlegt er að slíkar heimildir séu ætíð til staðar. Í greininni eru þessar heimildir almennar orðaðar en í lánsfjárlögum, en gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þær í reglugerð, enda kunna breytingar á lánamörkuðum að kalla á breytt form heimilda. Skýrt er tekið fram í greininni að heimildir til skuldstýringar feli ekki í sér heimildir til að taka ný lán.
    Samkvæmt greininni er m.a. heimilt að stofna til gjaldmiðla- og vaxtaskipta, taka lán til þess að greiða upp eldri lán fyrir gjalddaga þegar hagstæðari kjör bjóðast og til þess að draga á veltilán og önnur skammtímalán og endurgreiða með nýjum lánum. Efnislega eru þetta sömu heimildir og felast í 38. og 39. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1990 og yrðu þær þar með óþarfar í lánsfjárlögum hér eftir.
    Þá yrði sömuleiðis heimilt að gefa út ríkisvíxla til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla og til þess að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum. Í fjárlögum er jafnan almennt ákvæði þess efnis að ríkissjóði sé heimilt að stofna til yfirdráttar í Seðlabankanum til þess að mæta fjárþörf innan ársins, sbr. 10. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands. Að undanförnu hefur ríkisvíxlamarkaðurinn styrkst mikið. Frá sjónarmiði peningamálastjórnar er nauðsynlegt að ríkissjóður leiti minna í Seðlabankann en áður til þess að mæta fjárþörf innan ársins. Því er mikilvægt að fyrir hendi sé almenn heimild til sölu ríkisvíxla til þess að draga úr yfirdrætti í Seðlabankanum.
    Gert er ráð fyrir að kveðið verði nánar á um notkun heimilda þessara í reglugerð. Fjármálaráðherra mun eins og hingað til veita heimildir til aðgerða á þessu sviði. Nauðsynlegt er að upplýst sé a.m.k. árlega um notkun heimilda þessara og er því eðlilegt að Lánasýsla ríkisins gefi út árlega skýrslu um starfsemi sína. Jafnframt mun Alþingi a.m.k. árlega vera gerð grein fyrir notkun þessara heimilda.

Um 7. gr.


    Með lánsfjárlögum fyrir árið 1990 var tekið upp það nýmæli að gera stofnunum, sem njóta ríkisábyrgðar og taka erlend lán, skylt að kynna áform sín og leita fyrir fram samþykkis Seðlabankans í umboði fjármálaráðuneytis á þeim kjörum og skilmálum sem þær hyggjast semja um. Nauðsynlegt er fyrir ríkissjóð að fylgjast með kjörum og skilmálum í lánssamningum sem njóta ábyrgðar hans hvort sem um sjálfskuldarábyrgð eða einfalda ábyrgð er að ræða. Í 1. mgr. er kveðið á um eftirlitshlutverk Lánasýslu ríkisins og henni jafnframt gert að vera ráðgefandi um skuldstýringu stofnana með ríkisábyrgð. Í því hlutverki skal hún gæta þess að áhætta ríkissjóðs sem ábyrgðaraðila verði sem minnst.
    Ákvæði 2. mgr. eru nánast samhljóða ákvæðum lánsfjárlaga fyrir árið 1990 að öðru leyti en því að stofnunum með ríkisábyrgð er gert skylt að kynna áform sín fyrir Verðbréfaskrifstofu ríkisins. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að samið verði við Seðlabankann um að hann annist þetta verkefni. Seðlabankanum var falið þetta verkefni í lánsfjárlögum fyrir árið 1990.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp þetta hefur Seðlabanki Íslands séð um vörslu og daglegan rekstur Ríkisábyrgðasjóðs frá árinu 1962. Þá hefur Seðlabankinn séð um erlend lánamál ríkissjóðs að mestu frá stofnun hans.
    Ekki er með þessu frumvarpi verið að breyta þessu fyrirkomulagi, enda hefur það gefist vel. Eftir sem áður er það ávallt á valdi ráðherra að gera breytingu á þessari skipan. Því er gert ráð fyrir að ábyrgðadeild verði vistuð í Seðlabankanum og að bankinn muni annast erlend lánamál ríkissjóðs og verkefni þeim tengd fyrir hönd Lánasýslu ríkisins verði frumvarp þetta lögum. Einnig er veitt heimild til þess að semja við Seðlabankann um að hann sjái um önnur verkefni eftir því sem hagkvæmt þykir, t.d. reikningshald og starfsmannahald Lánasýslu ríkisins.

Um 10. gr.


    Hér er um tekjur að ræða sem nú renna til Ríkisábyrgðasjóðs og innheimtar eru vegna endurlána ríkissjóðs, aðrar en 3. liðurinn, umboðslaun af seldum ríkisverðbréfum. Þar er um að ræða umboðslaun sem Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa fær af ríkisverðbréfum sem hún selur beint með sama hætti og aðrir söluaðilar ríkisverðbréfa.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Öll virk ákvæði laga um Ríkisábyrgðasjóð eru felld inn í frumvarp þetta og því er lagt til að þau falli niður. Ríkisábyrgðasjóður verður starfræktur sem deild við Lánasýslu ríkisins, sbr. 1. lið 3. gr. Önnur ákvæði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.