Minning Geirs Hallgrímssonar
Miðvikudaginn 10. október 1990


     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson) :
Minning Geirs Hallgrímssonar.
    

    Geir Hallgrímsson var fæddur í Reykjavík 16. desember 1925. Foreldrar hans voru hjónin Hallgrímur stórkaupmaður þar og alþingismaður Benediktsson trésmiðs á Vestdalseyri við Seyðisfjörð Jónssonar og Áslaug Geirsdóttir Zoëga rektors Menntaskólans í Reykjavík Tómassonar Zoëga. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1944 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1948. Síðan stundaði hann framhaldsnám í lögfræði og hagfræði 1948 -- 1949 í Bandaríkjunum. Héraðsdómslögmaður varð hann árið 1951 og hæstaréttarlögmaður 1957. Hann rak ásamt öðrum lögfræðingum málflutningsskrifstofu í Reykjavík 1951 -- 1959 og var jafnframt forstjóri hlutafélagsins H. Benediktsson í Reykjavík 1955 -- 1959. Árið 1959 var hann kjörinn borgarstjóri í Reykjavík og gegndi því starfi til 1. desember 1972, hafði þá setið rúm tvö ár á Alþingi. Forsætisráðherra var hann frá 28. ágúst 1974 til 1. september 1978 og utanríkisráðherra frá 26. maí 1983 til 24. janúar 1986. 1. september 1986 varð hann bankastjóri Seðlabanka Íslands og gegndi því starfi til æviloka.

    Geir Hallgrímsson hóf afskipti af stjórnmálum þegar á skólaárum sínum. Hann var í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna 1943 -- 1946 og 1950 -- 1954, formaður félagsins 1952 -- 1954, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1946 -- 1947 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1957 -- 1959. Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins var hann frá 1965, varaformaður flokksins 1971 -- 1973 og formaður 1973 -- 1983. Hann var í stjórn hlutafélagsins Árvakurs frá 1954, formaður stjórnarinnar 1969 -- 1986 og í stjórn Landsvirkjunar frá upphafi hennar 1965 til 1974. Borgarfulltrúi í Reykjavík var hann 1954 -- 1974, sat í borgarráði 1954 -- 1972. Árið 1960 tók hann í fyrsta sinn sæti á Alþingi, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, kom inn á sjö þing fram til 1969. Á árinu 1970 hlaut hann sæti aðalmanns á Alþingi við andlát Bjarna Benediktssonar og var þingmaður Reykjavíkur til 1983, sat þann tíma á fimmtán þingum. Eftir það var hann aftur varaþingmaður, sat allt þingið 1983 -- 1984, tók þrisvar sæti varaþingmanns á þinginu 1984 -- 1985, en jafnframt átti hann sæti á Alþingi sem utanþingsráðherra þau þing og fyrri hluta þingsins 1985.
    Geir Hallgrímsson var ágætlega búinn undir þau miklu ábyrgðar- og forustustörf sem honum voru falin síðar á ævinni. Seta hans í borgarstjórn og borgarráði bjó hann vel undir starf borgarstjóra þegar hann var kvaddur til þess. Hann var þeirrar gerðar að hann kynnti sér alla tíð af mikilli kostgæfni þau mál sem um var fjallað. Hann varð athafnasamur borgarstjóri, beitti sér fyrir stórfelldum umbótum í gatnagerð borgarinnar, hitaveitumálum og skipulagsmálum. Í borgarstjórastarfi sínu var hann óumdeildur foringi flokksmanna sinna í Reykjavík og naut trausts og virðingar meðal samherja og andstæðinga í stjórnmálum. Á síðustu borgarstjóraárum sínum átti hann sæti á Alþingi. Þar var hann bráðlega kvaddur til forustustarfa í flokki sínum og ríkisstjórn. Hann

var forsætisráðherra eitt kjörtímabil og hafði á þeim tíma forustu um útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu í 200 mílur og um lausn þeirrar hörðu deilu sem af henni leiddi. Síðar var hann utanríkisráðherra og naut í því starfi víðtækrar þekkingar sinnar og kynna af alþjóðamálum.
    Geir Hallgrímsson var traustur flokksmaður alla ævi. Hann var staðfastur og drenglyndur og sjálfum sér samkvæmur í orðum og gerðum. Prúðmennska hans og hógværð reyndust honum gott veganesti í ábyrgðarmiklum störfum. Að vísu urðu oft harðar deilur um stefnu hans og störf, slíkt er hlutskipti forustumanna í stjórnmálum. En hann var drengilegur og hreinskiptinn mótherji og naut virðingar andstæðinga fyrir drengilega viðureign. Sextugur að aldri hvarf Geir Hallgrímsson frá stjórnmálaátökum og varð seðlabankastjóri. Hann var vel til þess starfs búinn vegna lífsreynslu sinnar og þekkingar á efnahagsmálum. Þar entist hann skemur en vonir stóðu til. Heilsa hans brast. Á annað ár barðist hann hetjulega við þungbæran sjúkdóm og sinnti störfum sínum í Seðlabankanum eftir föngum fram undir ævilok.