Minning Stefáns Jónssonar
Miðvikudaginn 10. október 1990


     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson) :
Minning Stefáns Jónssonar.
    
    Stefán Jónsson var fæddur á Hálsi í Geithellnahreppi 9. maí 1923. Foreldrar hans voru hjónin Jón skólastjóri á Djúpavogi Stefánsson bónda á Starmýri í Geithellnahreppi Jónssonar og Marselína kennari Pálsdóttir bónda á Brettingsstöðum á Flateyjardal Guðmundssonar. Auk barnaskólanáms stundaði hann nám í Samvinnuskólanum veturinn 1941 -- 1942. Hann var fréttamaður við Ríkisútvarpið 1946 -- 1965, dagskrárfulltrúi þar 1965 -- 1973. Kennari við Héraðsskólann á Laugum var hann veturinn 1973 -- 1974. Við alþingiskosningarnar 1971 var hann í kjöri fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlandskjördæmi eystra og hlaut fyrsta sæti landskjörinna varaþingmanna. Tók hann sæti tímabundið á öllum þremur þingum kjörtímabilsins, en síðan var hann þingmaður kjördæmisins 1974 -- 1983, sat á 14 þingum alls. Á þessum árum átti hann á tímabili sæti í rannsóknaráði ríkisins og framkvæmdanefnd þess. Jafnframt þessum störfum stundaði hann ritstörf, samdi bækur og þýddi, var meðritstjóri Útvarpstíðinda 1949 og Úrvals 1960.
    Stefán Jónsson kom rúmlega tvítugur til starfa við Ríkisútvarpið. Hann varð brátt þjóðkunnur fyrir fréttaflutning sinn og viðtöl í útvarpi. Hann talaði og skrifaði kjarngott mál, var orðhagur og orðheppinn. Hann var viðræðusnillingur og frábær sögumaður, en einnig snjall hagyrðingur. Eitt helsta áhugamál hans var veiðimennska sem leiddi hann til ferða víða um land. Á þeim ferðalögum kynntist hann mannlífi um landsbyggðina og náttúrufari landsins, var glöggskyggn á hvort tveggja. Rit hans um veiðimennsku og veiðisögur, viðræðubækur við menn, sem höfðu frá ýmsu markverðu og sérstæðu að segja, og eigin æskuminningar bera vitni um ritsnilld hans og athyglisgáfu. Í ræðum á Alþingi setti hann fram stefnumið sín og skoðanir á kjarnyrtu máli. Ræður hans voru hnitmiðaðar og áhugaverðar á að hlýða, hvort sem menn voru honum sammála eða ekki. Hann lét af þingmennsku sextugur og fékkst eftir það við ritstörf og önnur áhugamál sín.

    Ég vil biðja þingheim að minnast þessara látnu fyrrverandi alþingismanna, Ásbergs Sigurðssonar, Páls Þorsteinssonar, Geirs Hallgrímssonar og Stefáns Jónssonar, með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]