Rannsókn kjörbréfa
Mánudaginn 15. október 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Borist hefur svofellt bréf:
    ,,Ásgeir Hannes Eiríksson, 16. þm. Reykv., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda til að sitja þing Sameinuðu þjóðanna og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að vegna setu 1. varamanns á þingi taki 2. varamaður Borgfl. í Reykjavík, Hulda Jensdóttir, fyrrverandi forstöðumaður, sæti á Alþingi í fjarveru minni.``
    Þetta er yður hér með tilkynnt, virðulegur forseti, með ósk um að fram fari í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.
Árni Gunnarsson,

forseti Nd.``


    Hulda Jensdóttir hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi og ber því kjörbréfanefnd að prófa kjörbréf hennar skv. 4. gr. þingskapa. Gert verður hlé á fundinum í 5 mínútur meðan kjörbréfanefnd starfar. --- [Fundarhlé.]