Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka það að virðulegur forseti skuli hafa heimilað mér að hefja hér umræður utan dagskrár um það mál sem einna mest hefur verið til umræðu í þjóðmálaumræðunni að undanförnu, en það eru fyrirhugaðir samningar um byggingu og rekstur álvers sem nú hefur verið ákveðið að sett skuli niður á Keilisnesi. Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherrum, hæstv. forsrh., hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa fallist á að taka þátt í þessari umræðu og mun ég í mínu máli beina til þeirra nokkrum fyrirspurnum.
    Ég vil strax í upphafi láta það koma skýrt fram, sem reyndar ætti að vera óþarft, að Sjálfstfl. hefur alla tíð haft mjög skýra stefnu í stóriðjumálum. Við höfum talið það nauðsynlegt að eiga samstarf við erlenda aðila um nýtingu orkulinda landsins til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar. Með Atlantsálsverkefninu urðu þáttaskil í þessu máli, þá voru notuð ný vinnubrögð til að afla samstarfsaðila, íslensk stjórnvöld ákváðu þá við hvaða aðila yrði samið og hvers konar verksmiðju þau vildu. Kynning á Atlantsálsverkefninu fór fram á fyrri hluta ársins 1988 og í júlí á því ári var undirritaður samningur um hagkvæmnisathugun milli fjögurra álfyrirtækja í Evrópu og íslenskra stjórnvalda. Iðnrn. og Landsvirkjun stofnuðu sérstaka markaðsskrifstofu til að tryggja sem best upplýsingastreymi til þeirra sem sýna áhuga á orkukaupum og samstarfi um orkufrekan iðnað. Auk þeirra fjögurra evrópsku fyrirtækja sem mynduðu í upphafi Atlantsálshópinn sýndu nokkur önnur fyrirtæki þessu verkefni áhuga. Þar á meðal var bandaríska fyrirtækið Alumax, ítalska fyrirtækið Aluminia Spa og Hydro Aluminium í Noregi. Þá þegar, þ.e. á árunum 1987 og þó einkum á árinu 1988, var það ákveðið og sú framtíðarstefna mörkuð að reyna að freista þess að mynda nýjan hóp þessara fyrirtækja eða annarra um byggingu annars álvers á landinu og var þá haft í huga fyrst og fremst svæði utan Stór - Reykjavíkursvæðisins, annars vegar Eyjafjarðarsvæðið og hins vegar Austurland.
    Eins og allir vita, þá gerðist það í lok síðasta árs að Alusuisse heltist úr lestinni og ákvað að taka ekki frekari þátt í starfi Atlantsálshópsins og þá kom bandaríska fyrirtækið Alumax til skjalanna, en það var að tilhlutan Jóhannesar Nordals, formanns ráðgjafarnefndar iðnrh., sem hafði þá um haustið í september haft samband við forustumenn og forráðamenn fyrirtækisins og í þeim samskiptum var ákveðið að forráðamenn Alumax kæmu til Íslands í upphafi þessa árs til þess að ræða m.a. þá gömlu hugmynd hvort hugsanlegt væri að setja niður nýjan hóp til þess að byggja og reka álver annars staðar á landinu. Það gerðist síðan í desember og í framhaldi af því í byrjun þessa árs að Alumax ákvað að koma til samstarfs við þá aðila sem eftir voru í Atlantsálshópnum og komu þess vegna þessi gömlu sambönd sér ákaflega vel. Það er ljóst bæði af því sem ég hef hér sagt og eins af ýmsu öðru að hæstv. núv. iðnrh. hefur í sínu

starfi unnið á þeim grundvelli sem forverar hans höfðu unnið og ber að sjálfsögðu að þakka það og virða þótt deila megi um ýmislegt hvað varðar málsmeðferðina í höndum hæstv. ráðherra.
     Allt frá upphafi núverandi stjórnarsamstarfs hefur álmálið reynst núverandi ríkisstjórn þungt í skauti. Fyrir réttum tveimur árum síðan urðu umræður utan dagskrár hér á hv. Alþingi. Í þeim umræðum gaf hæstv. forsrh. út sérstaka yfirlýsingu þar sem hann sagði m.a. orðrétt með leyfi forseta:
    ,,Ég gaf þá yfirlýsingu við myndun ríkisstjórnarinnar að stjfrv. um byggingu álvers yrði að sjálfsögðu ekki flutt nema stjórnarflokkarnir allir samþykki það eins og venja er um stjfrv. Ég lýsti því jafnframt yfir að verði samþykkt lög um nýtt álver á Alþingi, þá hlýt ég þegar um svo viðamikið mál er að ræða að líta svo á að orðinn sé nýr meiri hluti á þingi og hljóti stjórnarflokkarnir að taka slíkt til meðferðar.``
    Það er einmitt í þessa yfirlýsingu sem oft hefur verið vitnað til þess að benda á að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að hæstv. ríkisstjórn efni til samstarfs við flokka eða þingmenn utan stjórnarflokkanna um þetta mikilvæga mál.
    Þegar hæstv. núv. iðnrh. tók við iðnrn. gerði hann nokkrar skipulagsbreytingar. Samninganefnd sem áður hafði starfað var lögð niður, en ráðgefandi nefnd var sett á laggirnar í staðinn. Reyndar voru sömu menn að mestum hluta í þessum nefndum en þessi aðgerð lýsti þó því að hæstv. ráðherra ákvað að taka málin í sínar hendur og takmarka þannig umboð þeirrar nefndar sem áður hafði unnið að málinu. Það var athygli vert í umræðum sem urðu um skipun samninganefndarinnar á sínum tíma að sumir núv. hæstv. alþýðubandalagsráðherrar lýstu því yfir að þeir bæru ekki ábyrgð á skipan þess manns sem var fenginn til starfa í ráðgjafarnefndinni og er félagi í Alþb., en það er Baldur Óskarsson. Þetta kom m.a. fram í orðum hæstv. samgrh. sem taldi að óeðlilega hefði verið staðið að því að velja alþýðubandalagsmanninn í samninganefndina.
    Eins og ég hef getið um áður þá hefur um nokkurt skeið borið á gagnrýnisröddum, einkum og sér í lagi úr stjórnarliðinu, á það hvernig hæstv. iðnrh. hefur haldið á þessu máli. Gagnrýnin hefur í fyrsta lagi beinst að því að hæstv. ráðherra hafi í tíma og ótíma, ef svo má að orði komast, gefið út ótímabærar yfirlýsingar um óorðna atburði til að gefa í skyn að hæstv. ráðherra réði meiru um framvindu málsins en hann í raun gerir og gerði. Í öðru lagi hefur hæstv. ráðherra verið gagnrýndur allnokkuð af hálfu svokallaðra samstarfsmanna sinna fyrir staðsetningarvalið.
     Það var öllum ljóst fyrir löngu síðan að Keilisnesið yrði fyrir valinu. Hæstv. ráðherra dró það hins vegar lengi að lýsa því yfir að þetta væri val útlendinganna og það var ekki fyrr en fyrir skömmu, fyrstu dagana í þessum mánuði, sem hæstv. ráðherra fékkst til þess að segja sannleikann í þessu máli. Áður hafði reyndar flokksbróðir hans, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sagt frá því í fjölmiðlum að Keilisnesið hefði orðið fyrir valinu og við hann var viðtal í Ríkisútvarpinu þar sem hann sagðist geta staðhæft að svo væri, en það var um það bil mánuði áður en hæstv. ráðherra fékkst til þess að segja frá því hver niðurstaðan hefði orðið.
    Ég kýs að ræða ekki frekar þetta mál hér. Ég býst við að ýmsir vilji taka til máls um staðarvalið og ég tel ósköp eðlilegt að þeir sem hafa kannski orðið leiksoppar í því máli fái tækifæri hér til þess að ræða við hæstv. ráðherra um það mál sérstaklega. Ég hygg þó að það hafi keyrt úr hófi og kannski kastað tólfunum algerlega þegar hæstv. ráðherra hefur með hjálp Alþýðublaðsins látið að því liggja að hann hafi í raun einn gert allt það sem gert hefur verið í þessu máli. Þetta hefur farið mjög í taugarnar á ýmsum samstarfsmönnum hæstv. ráðherra. Ég tíndi saman í morgun örfá dæmi um þetta og til þess að rifja það upp fyrir hv. alþm. langar mig til að lesa hér örfá ummæli úr leiðara Alþýðublaðsins sem kannski lýsa því vel hvað við er átt þegar hv. þm. úr röðum stjórnarflokkanna gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir þetta. Hinn 16. mars sl. er leiðari í Alþýðublaðinu sem nefnist ,,Afrek iðnaðarráðherra.`` Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstuttan kafla úr þessum leiðara. Í fyrsta lagi orðrétt:
    ,,Með undirritun yfirlýsingarinnar er þátttaka Alumax í Atlantalverkefninu formlega staðfest. Sú staðfesting er fyrst og fremst afrek Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra.``
    Ég hef áður lýst því hver var grundvöllur þátttöku Alumax í þessu verkefni, en viðræður við það fyrirtæki höfðu margsinnis farið fram áður.
    Í öðru lagi segir í þessum leiðara orðrétt: ,,Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra hefur hér lyft Grettistaki. Með öruggri og skipulagðri vinnu hefur Jóni Sigurðssyni ráðherra tekist það sem öllum öðrum iðnaðarráðherrum hefur mistekist frá því að álverið í Straumsvík var reist á 7. áratugnum, að leggja grunninn að áframhaldandi nýtingu innlendra orkulinda með aukinni stóriðju á Íslandi og stuðla þar með að framförum í atvinnulífi og meira jafnvægi í efnahagslífi.`` Og aðeins síðar orðrétt: ,,Jóni Sigurðssyni ráðherra Alþfl. hefur nú tekist að rjúfa hinn lokaða hring íslenska atvinnulífsins og færa Ísland nær margbreytileik erlendra framleiðslugreina.`` Og loks: ,,Það er því nauðsynlegt að allir leggist á eitt svo að iðnaðarráðherra megi ljúka þessu mikla hagsmunamáli fyrir þjóð og land á sem hagkvæmastan hátt.`` Og hér lýkur tilvitnun í þennan leiðara.
    Seint í sumar mátti lesa í Alþýðublaðinu eftirfarandi orðrétt: ,,Það er fyrst með komu Jóns Sigurðssonar í iðnrn. að hjólin taka að snúast í stóriðjumálum á Íslandi.`` Og stuttu síðar í þessari grein sem greinilega er höfð eftir aðilum sem eru a.m.k. mjög nánir ráðherranum svo að ekki sé nú meira sagt og þá er verið að fjalla um sjálfstæðismennina, segir orðrétt: ,,Þeir eru ósáttir við að einn ráðherra Alþfl. hafi afrekað það þrekvirki að fá álver til landsins á tveimur árum.``
    Loks 5. okt. skrifar Alþýðublaðið enn á ný og með leyfi forseta ætla ég að vitna í Alþýðublaðið og ég tel

að heimildirnar séu ansi nærri iðnrn. Það er á þessa leið:
    ,,Jón Sigurðsson iðnrh. hefur unnið þrekvirki að hafa einn og óstuddur borið hið mikla álmál fram að hinum mikilvæga áfanga gærdagsins. Þrátt fyrir níðhögg andstæðinga jafnt sem svonefndra samherja og ótal viðkvæma og erfiða áfanga málsins hefur iðnrh. tekist með rökvísi, staðfestu og óbilandi trú á farsæla lausn verkefnisins að koma þessu risavaxna máli á lokastig. Aðrir en Jón Sigurðsson hefðu efalítið bognað og brotnað undir hinu mikla pólitíska álagi þessa máls. Jón Sigurðsson hefur oftsinnis lýst álmálinu sem stærsta hagsmunamáli Íslands á síðari árum. Alþýðublaðið tekur undir þau orð ráðherrans. Það er Íslendingum léttir að eiga stjórnmálamann sem þorir að horfa fram hjá pyttum pólitískra sérhagsmuna og flokkadrátta en lítur í stað þess til framtíðar fyrir land og þjóð. Mættum við eiga fleiri stjórnmálamenn eins og Jón Sigurðsson iðnrh.``
    Þetta er orðrétt úr Alþýðublaðinu og fyrr í þessum leiðara er ýmislegt haft eftir þeim sem starfa í iðnrn. Ég hygg, virðulegur forseti, að það hafi verið málflutningur á borð við þennan sem ég hef nú kynnt og rifjað upp fyrir hv. þm. sem varð þess valdandi í stjórnarsamstarfinu að ýmsir svonefndir samstarfsmenn, svo að ég vitni orðrétt í þennan leiðara, hafa gerst æði þreyttir á meðferð hæstv. ráðherra á þessu máli.
     Þar með get ég vitnað í dagblaðið Tímann sem er eitt aðalstuðningsblað og málgagn ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur gagnrýni á hæstv. ráðherra og hann er í raun og veru verulega mikið gagnrýndur fyrir það að hafa gert þetta mál að einkamáli sínu. Hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., er spurður í Tímanum hinn 12. okt. sl. hvort Landsvirkjunarstjórn hafi ekki verið að snupra Jóhannes Nordal með samþykktinni sl. fimmtudag. Þar segir orðrétt: ,,Páll Pétursson alþm. og stjórnarmaður í Landsvirkjun var spurður hvort líta beri á samþykktina sem vantraust á Jóhannes Nordal, formann stjórnar. Páll sagðist ekki líta á málið þeim augum. Stjórnin væri fyrst og fremst að lýsa yfir vantrausti á málsmeðferð iðnrh.``
    Virðulegur forseti. Þótt þetta þyki ekki öllum merkilegt þá get ég ímyndað mér að það sé einmitt slík málsmeðferð sem hafi í raun farið nokkuð í taugarnar á samstarfsmönnum eða þeim sem Alþýðublaðið kallar ,,svonefndum samstarfsmönnum`` hæstv. iðnrh. Þetta fellur líka dálítið illa að því þegar hæstv. ráðherra grípur til þess í vörn sinni nýlega að benda á að í rauninni hafi útlendingarnir ákveðið staðarvalið, enda kemur það fram í skýrslu sem nú hafi verið dreift á Alþingi, og í raun og veru hafi Landsvirkjunarstjórn ætíð haft með orkumálin að gera. Þessu til viðbótar hefur hæstv. fjmrh. margoft lýst því yfir að það sé hann sem hafi náð þessum góðu samningum í skattamálum. Og er þá ansi lítið eftir sem hæstv. iðnrh. getur státað af ef þetta er rétt sem ég ætla ekki að staðfesta að sé, en ég veit að hæstv. ráðherrar, þar á meðal hæstv. fjmrh., geta gert. Vandinn í þessu máli er

kannski sá, virðulegur forseti, að það er ekki svo mikið deilt um hvað hafi verið gert af sumum heldur hvernig það hefur verið gert.
    Mig langar nú, virðulegur forseti, til þess að beina örfáum spurningum til hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi langar mig til þess að beina fyrirspurn til hæstv. iðnrh. Hefur hæstv. iðnrh. kannað hvort full samstaða sé meðal hv. stjórnarþm. um þá staðsetningu sem búið er að ákveða? Og hver er niðurstaða þeirrar könnunar ef hún hefur farið fram?
    Í öðru lagi vil ég beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. og reyndar hæstv. fjmrh. hafa báðir nefnt að Landsvirkjun ætti að greiða niður raforku út á land. Nú hefur komið í ljós að ekki eru efni til slíkra aðgerða. Hyggst hæstv. ríkisstjórn gera aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir byggðaröskun og til hvaða ráðstafana á þá að grípa?
    Í þriðja lagi til hæstv. fjmrh. Hafa stjórnarflokkarnir og hæstv. ríkisstjórn, þá tala ég um ríkisstjórn í heilu lagi, samþykkt fyrirliggjandi minnisblað um skattamálin með þeim undanþágum frá íslenskum skattalögum sem þar er að finna fyrir fyrirtækið. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherrar gætu svarað næstu fyrirspurn: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að koma í veg fyrir þenslu vegna byggingar álvers og virkjana með því að draga saman á öðrum framkvæmdasviðum og þá er auðvitað fyrst og fremst verið að tala um opinberar framkvæmdir og hvar mun sá samdráttur eiga sér stað?
    Til hæstv. iðnrh. Í hvaða lög hyggst hæstv. ríkisstjórn setja heimild til erlendrar lántöku fyrir Landsvirkjun á næsta ári til að fyrirtækið geti staðið við framkvæmdaáætlun sína? Verður það í sérstökum heimildarlögum eða í lánsfjárlögum?
    Til hæstv. forsrh. Hefur hæstv. ríkisstjórn samþykkt tímaáætlanir hæstv. iðnrh. um framlagningu og samþykkt heimildarlöggjafar? Í þessu sambandi, virðulegi forseti, vil ég rifja það upp að á síðasta þingi var sagt að þá, á því þingi mundi verða lagt fram frv. til heimildarlaga í þessu máli. Það var ekki gert. Seint í sumar lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að hann mundi við upphaf þingsins, þ.e. í dag, leggja fram heimildarlagafrv. Í þeirri skýrslu hins vegar sem lögð var fram á sl. fimmtudegi hér á hinu háa Alþingi er þess getið að frv. til heimildarlaga verði lagt fram síðar í þessum mánuði og að því stefnt að þau verði staðfest fyrir áramót. Nú spyr ég: Hefur hæstv. ríkisstjórn samþykkt þessa tímaáætlun? Það er ákaflega mikilvægt að átta sig á þessu. Ég vil benda á af því að ég las nýlega viðtal við hæstv. forsrh. í amerísku blaði að blaðamaðurinn sem skrifar það hefur það reyndar ekki beint eftir forsrh. en skrifar það eftir viðtal við forsrh., að forsrh. hafi sagt að hann muni, hæstv. forsrh. sjálfur, leggja fram slíkt frv. og freista þess að fá það samþykkt á Alþingi í mars á næsta ári. Þetta er ekki haft í gæsalöppum eftir hæstv. forsrh. en gefur þó í skyn að einhvers staðar hafi blaðamaðurinn fengið það á tilfinninguna að ekki liggi á samþykkt slíks frv. fyrr en í mars á næsta ári. Það er ákaflega mikilvægt nú strax við upphaf þingsins að fá að vita hver er tímaáætlun hæstv. ríkisstjórnar.
    Þá vil ég spyrja hæstv. iðnrh. Mun afstaða hæstv. ríkisstjórnar til fyrirhugaðs samnings um orkukaup liggja fyrir áður en Landsvirkjunarstjórn gengur endanlega frá samningnum fyrir sitt leyti eða er ríkisstjórnin tilbúin til að samþykkja fyrir fram þá niðurstöðu sem fæst í samningi Landsvirkjunar við þátttakendurna í álsamstarfinu? Þetta mál er ákaflega mikilvægt vegna þess að það er deila um það á milli aðila hvort Landsvirkjunarstjórnin þarf að bíða eftir því að hæstv. ríkisstjórn nái saman um stefnuna í orkukaupunum eða hvort ríkisstjórnin hæstv. er að bíða eftir því að Landsvirkjunarstjórnin nái niðurstöðu í þessu máli. Þess vegna hlýtur það að vera skylda hæstv. ríkisstjórnar og talsmanna hennar nú þegar að segja frá því hvora leiðina þeir ætla að fara.
    Þá vil ég víkja máli mínu til Alþb., og þá auðvitað til hæstv. fjmrh. en ekki síður kannski til hæstv. samgrh. ef hann kýs að svara. Þetta eru formaður og varaformaður Alþb. og það er ekki alltaf mjög glöggt hægt að sjá hver er stefna Alþb. í þessu máli, ekki síst ef þeir koma hvor á eftir öðrum og lýsa því yfir hver sé stefna Alþb. En mig langar til þess að spyrja til þess að fá skýr svör frá Alþb.: Er ályktun Alþb. sem samþykkt var í apríl sl. og reyndar ítrekuð hinn 16. júlí í sumar enn í gildi? En í þessari ályktun var sett fram sú krafa að staðsetning álversins verði utan höfuðborgarsvæðisins. Nú veit ég að Alþb. hélt fund um helgina. Á þeim fundi var þetta mál til umræðu og það hlýtur að vera eðlilegt eftir þennan fund að formaður og varaformaður bandalagsins segi hver er skoðun flokksins í þessu máli.
    Í Morgunblaðinu hinn 19. ágúst lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hann hefði margsinnis sagt að álver eigi ekki að rísa á höfuðborgarsvæðinu. Síðan sagði hann orðrétt: ,,Ég hef hins vegar dregið línuna við Straumsvík.`` Það er þess vegna ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra Alþb. hvort þeir séu sömu skoðunar og hæstv. forsrh. að höfuðborgarsvæðið endi við Straumsvík og þar taki landsbyggðin við. Þetta er bráðnauðsynlegt vegna þess að ef Alþb. fellst ekki á þessa skilgreiningu og hefur ekki samþykkt nýja ályktun frá því 16. júlí þá stendur málið þannig að Alþb. hefur lýst því yfir að ekki komi til greina stuðningur Alþb. við byggingu álvers á höfuðborgarsvæðinu. ( HG: Hver er skoðun ræðumanns?) Skoðun ræðumannsins hefur margoft komið fram um það hvar og hvort eigi að byggja álver og hefur ekkert með þetta mál að gera og ég sé ekki að það komi málinu við þótt ég fari að lýsa þeirri skoðun minni hvar höfuðborgarsvæðið endar. Ég hefði aldrei tekið til orða með þessum hætti og tel reyndar að menn séu að reyna að skjóta sér dálítið til hliðar í málinu þegar þeir búa til landamerki eins og þessi. Það hefði aldrei hvarflað að mér af því að ég hefði talið þetta mál fyrst og fremst vera landsmál en ekki byggðamál þótt það hafi auðvitað stóra þýðingu fyrir byggðir landsins hvar álverið verði sett niður. En það hlýtur að vera krafa okkar sem sitjum hér á hinu háa Alþingi að hæstv. ráðherrar, þar á meðal hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.,

segi sitt álit á þessari skilgreiningu sem nú hefur úrslitaþýðingu um það hvort Alþb. styður þetta mál yfir höfuð eða ekki. Ég þarf hins vegar ekki að spyrja hv. frammíkallanda, Hjörleif Guttormsson hv. þm., vegna þess að ég veit hver skoðun hans er á stóriðjumálum almennt og það veit öll þjóðin. Og því miður kom hann allt of lengi að þessu máli á sínum tíma.
    Loks eru hér tvær stuttar spurningar til hæstv. iðnrh. Önnur er þessi: Hvers konar endurskoðunarákvæði verður í orkusamningnum samkvæmt núverandi stöðu málsins og hver verður ábyrgð móðurfyrirtækjanna á orkukaupum álversins? Og loks: Verður fjallað um orkukaupaþáttinn í lagatexta fyrirhugaðs heimildarlagafrv.? Það er ljóst að Landsvirkjun hefur allar lagaheimildir til að semja um orkukaup. Spurningin er: Þarf eitthvað að fara í lagatexta heimildarlagafrv. um orkukaupaþáttinn? Þetta hlýtur hæstv. ráðherra að geta upplýst þar sem hann hefur margoft lýst því yfir að hann vilji leggja heimildarlagafrv. fram við upphaf þessa þings þannig að það hlýtur að vera tilbúið í stórum dráttum.
    Virðulegur forseti. Ég tel nauðsynlegt að fá skýr svör við þessum fyrirspurnum sem ég hef beint til nokkurra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. Þetta er mikilvægt mál sem hér er til umræðu þótt ekki megi einblína á það eða telja að það sé allsherjarlausn fyrir íslenskt atvinnu - og efnahagslíf. Við hljótum á næstu árum að auka samstarf okkar og efla við erlenda aðila til þess að bæta lífskjörin hér á landi. Það hafa aðrar þjóðir gert. Við verðum að koma okkur út úr stöðnunartímabilinu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum með því að auka utanríkisviðskiptin og bæta þannig lífskjörin. Sjálfstfl. telur, og ég vil láta það koma hér skýrt fram, að sú ríkisstjórn eigi skilyrðislaust að víkja sem ekki veldur því hlutverki sínu vegna innbyrðis ósættis og ágreinings að ná hagstæðum samningum við þá aðila sem lýst hafa sig tilbúna til samstarfs við okkur.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, vil ég þakka fyrir það að hafa fengið að hefja þessa umræðu og vænti þess að hæstv. ráðherrar svari þeim fyrirspurnum skýrt og greinilega sem ég hef leyft mér að bera fram til þeirra.