Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara í stuttu máli þeim fyrirspurnum sem hv. fyrirspyrjandi hefur afhent mér á skrifuðu blaði. Ég skil vel að hv. fyrirspyrjanda gremjist allt það lof sem Alþýðublaðið hefur borið á núv. iðnrh. í þessu máli. Hv. fyrirspyrjandi á stóran þátt í þessu máli. Stóran hlut á að sjálfsögðu sá sem upphafinu veldur og hann kom þessu af stað. Hins vegar held ég að það sé óumdeilanlegt að núv. iðnrh. hefur ekki síður unnið að því af miklum krafti. Ég veit sömuleiðis að hv. fyrirspyrjandi vill ekkert annað með þessari umræðu en að stuðla að skjótum framgangi málsins og farsælum og mun ég haga svörum mínum þannig að ekki þurfi að valda óþarfa deilum, eins og ég a.m.k. frekast get.
    Fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda sem sérstaklega er merkt mér las hann hér áðan og skal ég ekki endurtaka hana. Hún fjallar um jöfnun raforkuverðs og aðrar byggðaráðstafanir. Ég hef ekki sagt að Landsvirkjun ætti að greiða niður raforku úti á landi. Ég hef hins vegar hvað eftir annað lýst þeirri skoðun minni að það eigi að jafna raforkuverð og ég vek athygli á því að hæstv. núv. iðnrh. hefur skipað nefnd í þessu skyni og í þeirri nefnd sitja m.a. tveir ágætir hv. þm. Sjálfstfl., Pálmi Jónsson og Birgir Ísl. Gunnarsson og fleiri hv. þm. Ég bind miklar vonir við það að þessi nefnd leggi fram tillögur um hvernig jafna megi raforkuverð. Ég sé ekki að það sé einhverjum stórum erfiðleikum háð. Við jöfnum t.d. verð á landbúnaðarafurðum um land allt, við jöfnum verð á bensíni og olíum og það hlýtur að vera hægt á raforku einnig. Ég skil það mætavel t.d. að þeim Sunnlendingum þyki sárt að þurfa að greiða töluvert hærra verð fyrir raforku sem unnin er í þeirra kjördæmi en greitt er t.d. hérna í Reykjavík.
    Ég lít svo á að alveg óháð þessu álveri sé orðið afar tímabært að gera átak í byggðamálum og endurskoða fyrri stefnu og þess vegna skipaði ég töluvert áður en þessi staðsetning var ákveðin sérstaka byggðanefnd sem hefur unnið mjög ötullega. Í henni eiga allir þingflokkar fulltrúa og ég geri mér vonir um að frá henni komi heilsteyptar tillögur í byggðamálum. Ég hef einnig skipað hóp til að skoða skipulag Byggðastofnunar. Hitt held ég að sé ljóst að staðsetning álversins hér á Suðurnesjum muni ekki stuðla að þeirri byggðaþróun sem menn gerðu sér vonir um ef það hefði verið staðsett t.d. fyrir norðan eða austan svo að ég tel ekki tímabært að fara að telja upp slíkar ráðstafanir nú þar sem nefndin vinnur og á eftir að gera sínar tillögur. Ég hef þó nefnt þetta með raforkuverðið og ég tel afar mikilvægt að Byggðastofnun sé efld. Ég held að Byggðastofnun eigi að hafa meira frumkvæði en hún hefur fjárhags síns vegna getað haft, t.d. með stofnun nýrra atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Sömuleiðis tel ég tímabært að skipta landinu í þjónustusvæði og efla byggðakjarna á hverju svæði. Akureyri er t.d. þar mjög augljós staður.
    Næsta spurning sem til mín er beint er hvort ríkisstjórnin ætli að beita sér gegn þenslu sem af byggingu álvers og virkjana gæti stafað með því að draga úr öðrum framkvæmdum. Ég hef falið Þjóðhagsstofnun að meta þetta og Þjóðhagsstofnun segir mér að ekki sé ástæða til að óttast þenslu á árinu 1991, en hins vegar sé nauðsynlegt að skoða vandlega heildarframkvæmdir í landinu á árunum 1992, 1993 og 1994, en í því sambandi er margs að gæta. T.d. virðist mjög líklegt að draga muni verulega úr framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og sömuleiðis hefur verið samdráttur í opinberum framkvæmdum. En þetta verður tvímælalaust skoðað og ég vil taka undir það sem mér finnst felast í þessari spurningu. Við megum ekki brenna okkur á því sem áður hefur gerst og verðum að halda framkvæmdum í hófi. Þó er skylt að benda á hitt að menn óttast vaxandi atvinnuleysi hér á næstu árum ef ekki kemur eitthvað svona til svo að þetta verður vandlega metið og ég hef þegar gefið Þjóðhagsstofnun fyrirmæli um að skoða vandlega alla þætti þessa máls.
    Næsta spurning sem sérstaklega er til mín beint er hvort ríkisstjórnin hafi samþykkt tímaáætlun hæstv. iðnrh. Ég vil segja almennt áður en ég svara þessari spurningu að ríkisstjórnin hefur ekki samþykkt neinn þátt þessa máls. Málið hefur verið rætt hvað eftir annað í ríkisstjórninni og hefur verið rætt í ráðherranefnd sem um þetta mál hefur fjallað. Það hefur verið rætt í þingflokkunum en þau vinnubrögð voru ákveðin að afgreiða ekki málið í einstökum þáttum heldur í heild sinni þegar það liggur fyrir. Og það tel ég tvímælalaust skynsamlegra. Við þurfum að sjá málið allt sem slíkt, geta metið heildaráhrif af byggingu álvers en ekki stig af stigi. Og þannig hefur það ekki komið fyrir ríkisstjórnina, en ég hef gert ráð fyrir því að það gæti komið fyrir ríkisstjórnina um mánaðamótin. Þó eru ýmsir þættir þarna sem enn eru ekki það langt á veg komnir að þeir liggi fyrir. Ég nefni t.d. umhverfisþáttinn. Umhvrh. er með það mál í mjög ítarlegri athugun og síðast í morgun áttum við nokkrir kost á því að hlusta á mjög ítarlega frásögn af því verki. Því miðar vel. Þetta er mjög mikilvægur þáttur fyrir okkar land. Við þurfum að setja strangar kröfur um mengunarvarnir, ekki aðeins vegna þeirra áhrifa sem úrgangsefni verksmiðjunnar hafa á sitt næsta umhverfi heldur einnig til að halda hreinni ímynd Íslands ef ég má orða það svo. Þetta er ekki afgreitt. Og ég geri ráð fyrir því að umhvrh. muni leggja sínar tillögur fyrir ríkisstjórnina mjög fljótlega.
    Hins vegar hafa einstakir fagráðherrar aðrir, eins og hæstv. fjmrh., að sjálfsögðu komið að skattamálunum og unnið að þeim ásamt iðnrh. Þótt það mál sé ekki afgreitt í ríkisstjórninni frekar en aðrir þættir þá hefur það verið þar upplýst. Sá þáttur málsins sem hvað mest umræða hefur orðið um er orkusamningurinn og af því að það hefur hér borið á góma hvernig sá samningur verði gerður þá vil ég lýsa þeirri skoðun minni að Landsvirkjunarstjórn þarf svo sannarlega ekki að bíða eftir ríkisstjórninni í því máli eins og hv. þm. orðaði það. Samkvæmt lögum er það Landsvirkjunarstjórn sem gerir slíkan samning en ekki ríkisstjórnin, en ég geri ráð fyrir því að fullt samráð

verði um það haft. En á það ber að leggja áherslu að ríkisstjórnin gerir ekki orkusamninginn heldur Landsvirkjunarstjórn og ég geri mér vonir um að Landsvirkjunarstjórn sé með þetta mál í ítarlegri athugun og muni athuga það á næstunni og hraða því eins og hún frekast getur. Ég vona að það verði ekki til þess að tefja afgreiðslu þessa máls.
    Nokkuð var rætt hér um staðsetninguna og m.a. það nefnt sem ég hef sagt að ég teldi að álver ætti ekki að vera á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki heyrt athugasemdir gerðar við t.d. opinberar upplýsingar um ýmiss konar þróun í þessu landi þar sem iðulega er rætt um höfuðborgarsvæðið og er talið vera Reykjavík og þeir stóru kaupstaðir sem í kring eru, m.a. Hafnarfjörður. Vatnsleysustrandarhreppur hefur aldrei verið talinn á höfuðborgarsvæðinu. Hann nær frá Njarðvík að Straumsvík og Vatnsleysustrandarhreppur tilheyrir Suðurnesjum tvímælalaust. ( HBl: Er ekki Vatnsleysustrandarhreppur á strönd?) Ja, þín landafræði er eflaust góð, hv. þm. Þú ert maður vitur og deili ég nú sjaldan við þig. En mér þykir þú dálítið skjóta yfir markið núna af þinni alkunnu visku, en ef þú kemst hér í ræðustól getur þú eflaust leyft okkur að njóta betur.
    En t.d. Verkalýðsfélag Suðurnesja nær til Vatnsleysustrandarhrepps og hefur það mikil áhrif á það hvernig þessi verksmiðja nýtist. Atvinnuástand á Suðurnesjum er ótryggt, samdráttur mjög líklegur eða má telja nokkuð öruggur á varnarsvæðinu og sömuleiðis hefur kvóti farið þaðan til annarra landshluta. En í raun og veru var þessari spurningu ekki til mín beint.
    Ég sé ekki að fleiri spurningar séu mér merktar. Ég vil aðeins lýsa því að lokum að ég tel þetta mál vera á góðri leið. Ég tel mikilvægt að ráðast í þessa framkvæmd nú vegna þeirra áhrifa sem hún mun hafa á hagvöxt hér á landi og met það ekki síst frá því sjónarmiði. Að mati Þjóðhagsstofnunar er ekki að vænta hagvaxtar hér á næstu árum nema aukningu landsframleiðslu á bilinu 1 -- 1 1 / 2 % á ári. Það er of lítið þegar borið er saman við okkar nágrannaþjóðir. Það er aðeins um helmingur af því sem þar er spáð. Þjóðhagsstofnun telur að með margfeldisáhrifum af byggingu álvers og rekstri megi gera ráð fyrir svona 3 -- 4% viðbótarhagvexti eða nálægt 1% á ári á byggingartíma og þar til það er komið í fullan rekstur. Þetta tel ég mikilvægt. Tekjur ríkissjóðs munu aukast mjög af þessu álveri eins og komið hefur fram í upplýsingum frá hæstv. fjmrh., en hins vegar er ljóst að við þurfum að gæta þarna að mjög mörgum þáttum. Við þurfum að tryggja öryggi sem mest, ekki síst í orkusölunni og það eru þessir þættir sem eru nú til lokameðferðar í þessu máli.
    Það er einn þáttur hér sem mig minnir að ég hafi ekki enn þá komið inn á. Það var spurt hvort við hefðum samþykkt tímaáætlun iðnrh., held ég að hafi verið spurt um. Ekki fremur en annað hefur hún sem slík verið samþykkt heldur höfum við verið upplýstir um hana. Ég vil taka það fram að þetta er einhver vitleysa hjá þessum erlenda blaðamanni. Að sjálfsögðu legg ég ekki fram þetta frv. Hins vegar hafa

hinir erlendu aðilar tjáð okkur að þeirra vegna þurfi þessum samningum að vera lokið og ákvörðun tekin ekki síðar en í marsmánuði. Ég lít svo á að til þess að það megi standast þurfi heimildarfrv. að vera afgreitt af Alþingi fyrir áramótin. Það er tímaáætlun sem mér finnst skynsamleg í þessu máli og ég tel skynsamlegt að vinna málið vel og kynna það öllum þingflokkum þannig að það þurfi ekki að vera lengi fyrir Alþingi. Og þá geta þingmenn sjálfsagt metið af sinni reynslu hve langan tíma það tekur, en ég geri ráð fyrir að stjórnarflokkarnir fái frv. til meðferðar um mánaðamótin.