Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi, 1. þm. Reykv., hóf mál sitt hér áðan með því að lýsa því yfir að Sjálfstfl. hefði haft og hafi skýra stefnu í stóriðjumálum. Ég vil leyfa mér að láta þá ósk í ljós að hann muni fylgja áfram þeirri stefnu.
    Hér var aðeins að því vikið af hálfu málshefjanda að ég hefði eignað mér einum þetta mikla mál. Það veit hv. 1. þm. Reykv. náttúrlega að er ekki rétt. Ég hef aldrei haldið slíku fram og mun aldrei halda því fram. Hér er að sjálfsögðu um margra manna verk að ræða. Hv. málshefjandi er einn af þeim mönnum sem að því hafa komið og ég tek það náttúrlega mjög skýrt fram þótt hv. 1. þm. Reykv. þyki gaman að lesa upp úr Alþýðublaðinu hér í þingsalnum að ég skrifa ekki leiðarana í Alþýðublaðið og ræð engu um það sem í þeim stendur. (Gripið fram í.) Já. Ég get hins vegar staðfest að taugar samstarfsmanna minna eru í mjög góðu lagi út af því og ég ítreka það að ég kann ákaflega vel að meta þeirra góðu störf. Hinu mun ég þó ekki leyna að mér virðist örla á því í röðum stjórnarmanna Landsvirkjunar að þeir meti ekki að verðleikum þeirra góðu verk. Það þykir mér miður. Og ég vona að senn verði það leiðrétt.
    Vegna þess sem hér kom fram um stefnuna í málinu, meginstefnuna í málinu, langar mig til þess að rifja upp það sem áður hefur komið fram hjá hv. 1. þm. Reykv. í málinu og síðast í maí, nánar tiltekið í umræðum í Nd. 5. maí 1990 um frv. til laga um raforkuver. Þá segir hv. 1. þm. Reykv., ég sleppi nokkrum orðum þannig að þetta er ekki alveg bein tilvitnun: Ég er alveg sammála því að á málinu hefur verið þannig haldið að hvergi hefur verið hvikað frá þeirri stefnu sem þá var mörkuð, --- og er hann þá að vitna til upphafs málsins. Ég vil leyfa mér að halda því fram að á þessu hafi ekki orðið nein breyting og treysti því að menn átti sig senn á því. En að sjálfsögðu hefur þetta mál eins og öll viðamikil margþætt mál þroskast og þróast í meðförum og fram hafa komið í því nýir þættir.
    Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að fara nokkrum orðum um gang málsins í heild og reyna að svara sumum þeirra spurninga --- vonandi öllum --- sem hv. málshefjandi beindi til mín en tengja svörin við einstaka þætti þess máls sem ég kýs hér að flytja.
     Mig langar að benda á það að ég hef þegar gert Alþingi grein fyrir stöðu viðræðna um nýtt álver með skýrslu á þskj. 8 sem var lögð fram 11. dag þessa mánaðar. Mig langar líka til að minna á ítarlega skýrslu sem ég lagði fyrir Alþingi í lok apríl á þskj. 1055 á fyrra þingi. Þar er m.a. birt yfirlýsing um ásetning um að ljúka samningum um nýtt álver sem var undirrituð 13. mars á þessu ári og reyndar hefur síðan verið starfað eftir. En það tengist einmitt spurningu hv. málshefjanda um tímaáætlanir sem hæstv. forsrh. hefur reyndar svarað með skilmerkilegum hætti.
    Ég vil byrja á því að leiðrétta það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. Hann hélt því fram að ég hefði

sagst ætla að leggja fram heimildarlagafrv. á fyrra þingi. Það er ekki rétt. Því hélt ég ekki fram og stefndi ekki að því heldur eingöngu því að leggja fyrir raforkuverafrv., sem var gert og reyndar samþykkt á þinginu, og að kynna áform mín í samningaviðræðum um nýtt álver. Hv. þm. hlýtur að tala hér gegn betri vitund þegar hann heldur þessu fram. Ég sagði hins vegar að ég stefndi að því að leggja fram snemma á þessu þingi frv. til heimildarlaga vegna samninga um nýtt álver. Mig langar í þessu sambandi að rifja upp þau tímamörk í viðræðum um þetta nýja álver sem fram voru sett í viljayfirlýsingunni frá 13. mars 1990. Samkvæmt henni var ákveðið að aðilar leituðust við að ljúka niðurstöðu um helstu samningsatriði með þessum hætti:
    Í fyrsta lagi var þar staðfestur ásetningur um að ljúka öllum samningum efnislega fyrir eða um 20. september 1990. Jafnframt að reynt yrði að taka ákvörðun um staðsetningu fyrir lok maí.
    Í öðru lagi var því lýst yfir að frv. til heimildarlaga um nýtt álver yrði lagt fyrir Alþingi á þessu hausti með það að markmiði að afla samþykkis Alþingis fyrir lok þessa árs.
    Í þriðja lagi var því lýst yfir að fyrirtækin stefndu að því að samþykki félagsstjórna lægi fyrir fyrir lok þessa árs eða í síðasta lagi á fyrsta reglulegum stjórnarfundi á árinu 1991. Íslensk stjórnvöld mundu síðan taka endanlega ákvörðun um að undirrita samninga eftir að samþykki félagsstjórnanna lægi fyrir en að því er stefnt eins og ég hef sagt á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þetta er að sjálfsögðu mjög í samræmi við það sem fram hefur gengið og eins og kom hér fram hjá hæstv. forsrh. áðan. Þetta er sú tímaáætlun sem við vinnum enn eftir í aðalatriðum.
    Í lok júní á þessu ári var svo undirrituð viðbótarbókun milli samningsaðilanna um framvinduna í viðræðunum. Með þeirri bókun var ákveðið að endanleg ákvörðun um staðsetningu álversins yrði tekin í september --- það kom sem sagt í ljós að staðarval tæki nokkru lengri tíma en ætlað var --- og að ljúka meginniðurstöðum með viðræðum fyrir lok sama mánaðar. Það er í samræmi við þetta sem áfanginn var staðfestur 4. þessa mánaðar í þessum samningum. Fyrir þeim áfanga er gerð ítarleg grein í skýrslunni sem ég hef lagt hér fyrir þingið á þskj. 8.
    Í fskj. með þessari skýrslu er svo gerð grein fyrir skattlagningu hins væntanlega Atlantsálsfyrirtækis, fyrir staðarvalinu, fyrir þjóðhagslegum áhrifum og því hvernig haldið verður á veitingu starfsleyfa og umhverfisþáttum.
    Ég sé að hv. málshefjandi hefur vikið sér úr salnum svo ég er að hugsa um að fjalla dálítið um aðdraganda málsins í sögulegu samhengi vegna þess að hann kom nokkuð að því í sínu máli. Það er að sjálfsögðu rétt að þetta mál, Atlantsálsmálið, á sér langan aðdraganda sem er rétt að rifja hér upp. ( FrS: Ég ætla að taka það fram að ég er kominn í salinn aftur.) Það er gott.
    Atlantsálshópurinn var, eins og kom fram hér áðan, myndaður með samkomulagi sem hv. 1. þm. Reykv.

Friðrik Sophusson, þá hæstv. iðnrh., undirritaði 4. júlí 1988 við fjögur erlend álfélög, Alusuisse, Gränges, Hoogovens og austurríska fyrirtækið Austria Metal. Þetta verkefni var reist á grundvelli frumhagkvæmniathugana sem iðnrn. hafði látið gera haustið 1987 og var sýnt allmörgum álfyrirtækjum í byrjun ársins 1988 í þeim tilgangi að mynda hóp til að kanna hagkvæmni aukinnar álframleiðslu í Straumsvík. Eftir ítarlegar viðræður síðla árs 1989 varð niðurstaðan sú að Alusuisse hvarf frá þátttöku í Atlantalverkefninu. Það var vegna þess að ég og mínir samningamenn spurðum þá einfaldlega þetta fyrirtæki hvort því væri alvara að halda áfram þessum viðræðum, þegar í ljós hafði komið að þeir voru mjög tvístígandi. Þegar þeir stóðu frammi fyrir þeirri spurningu var svarið: Nei, við ætlum ekki að halda áfram. Ég tel að þetta hafi hreinsað andrúmsloftið, hreinsað borðið, ef þannig mætti að orði komast. Og eftir að Alusuisse dró sig út úr þessari athugun á nýju álveri á Íslandi varð mér ljóst a.m.k. að ekki væri grundvöllur fyrir aukinni álframleiðslu í Straumsvík samkvæmt samkomulaginu sem gert var um mitt ár 1988. Það var svo í febrúar 1990 að samkomulag náðist um að mynda nýjan hóp til að vinna að undirbúningi nýs álvers. Í framhaldi af því var gengið frá þessari sameiginlegu viljayfirlýsingu frá 13. mars milli íslenskra stjórnvalda og hins nýja Atlantsálshóps sem ég vitnaði til hér áðan. En í hópnum eru nú, eins og menn þekkja, ameríska fyrirtækið Alumax, sænska fyrirtækið Gränges og hollenska fyrirtækið Hoogovens.
    Vinnan að málinu í sumar og haust hefur í einu og öllu verið á grundvelli tímaáætlana í yfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar og Atlantsálsaðilanna frá 13. mars sem kynnt var hér í þinginu á síðasta þingi. Það kom í ljós eins og ég nefndi áðan að staðsetningarathuganirnar tóku lengri tíma en menn reiknuðu með, einfaldlega af því að nákvæm greining á kostum og göllum staðsetningar á ýmsum stöðum og öðrum aðstæðum sem varða staðsetninguna tóku mun lengri tíma en menn gerðu sér í upphafi grein fyrir. Það tel ég vel að í þær vönduðu athuganir var tekinn tími og í þær lagður kostnaður, fé og fyrirhöfn, vegna þess að hér er um mjög viðurhlutamikið mál að ræða. Ég hlýt nú reyndar að leiðrétta það sem kom fram í máli málshefjanda þar sem hann sagði að ég hefði ekki sagt rétt frá staðarákvörðun fyrir hið nýja fyrirtæki. Ég hefði leynt almenning niðurstöðu í málinu. Þetta er alrangt. Sannleikurinn er sá að staðarvalið var ekki ákveðið fyrr en 4. október vegna þess að í samræmi við mína fyrri afstöðu og íslensku samninganefndarinnar var litið á staðarvalið sem órofaþátt í heildarsamkomulagi um málið. Þetta er allt sem um málið er að segja, en auðvitað er það rétt að fyrr lá fyrir hvert hugur Atlantsálsfyrirtækjanna þriggja stefndi í þessu efni og það er vafalaust það sem veldur misskilningnum hjá hv. málshefjanda.
    Ég vil skýra staðarvalsathuganirnar nokkru nánar. Í kjölfar athugunar á 11 stöðum á tímabilinu apríl, maí og júní á þessu ári var í júnílok ákveðið að takmarka frekari athuganir við Eyjafjörð, Reyðarfjörð og

Keilisnes. Í júlí og ágúst var gerður mjög ítarlegur samanburður á þessum þremur stöðum. Athugunin var unnin af verkfræðilegum ráðgjafa Atlantsálsaðilanna en einnig af íslenskum sérfræðingum. Niðurstaða þeirrar athugunar og ráðgjafa sem sveitarfélögin á umræddum stöðum höfðu ráðið sér til aðstoðar og tóku þátt í þessu verki lá fyrir í lok ágúst. Og eins og ég nefndi áðan fékkst hin endanlega niðurstaða með skriflegum hætti 4. þessa mánaðar.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um staðarvalið en vík að því sem hér hefur nokkuð komið til umræðu og hv. málshefjandi innti mig eftir hvort kannað hefði verið. Það er hvort samstaða sé meðal stjórnarþingmanna um þá staðsetningu sem nú liggur fyrir í þeim áfangasamningi sem gerður hefur verið. Ég hef að sjálfsögðu rætt þetta mál ítarlega og kynnt forustumönnum stjórnarflokkanna og ég sé ekki á þessari stundu ástæðu til að ætla annað en að samstaða geti náðst um þetta mál í heild á lokastigi. Það er með þennan þátt málsins eins og aðra, eins og ítrekað hefur komið fram, að ekki er neinu lokið fyrr en öllu er lokið í þessu máli.
    Síðan spurði hv. málshefjandi mig um það í hvaða lög ríkisstjórnin hyggist setja heimildir til erlendrar lántöku vegna framkvæmda Landsvirkjunar á næsta ári til þess að fyrirtækið geti staðið við sínar framkvæmdaáætlanir. Því get ég svarað þannig að ég reikna með því að þær heimildir verði settar í lánsfjárlög eða sérstök heimildarlög, enda verði niðurstaða þingsins í meðförum málsins að það sé heppilegri lausn. Að sjálfsögðu er einfaldast að setja þetta í hin venjulegu heimildarlög, lánsfjárlögin.
    Þá kem ég að hlut Landsvirkjunar í þessu máli. Hv. málshefjandi gerði hann nokkuð að umtalsefni eins og raunar fleiri. Ég vil fyrst koma að þeim beinu spurningum sem hann beindi til mín, því þær eru mjög gagnleg byrjun á þessu máli. Hann spyr: Verður fjallað um orkuþáttinn í lagatexta fyrirhugaðs heimildarlagafrv.? Hvers konar endurskoðunarákvæði verður í orkusamningunum og hver verður ábyrgð móðurfyrirtækjanna á orkukaupum álversins? Hann spyr líka: Mun afstaða ríkisstjórnarinnar til fyrirhugaðs samnings um orkukaup liggja fyrir áður en stjórn Landsvirkjunar gengur endanlega frá samningunum fyrir sitt leyti eða er ríkisstjórnin tilbúin til að samþykkja fyrir fram þá niðurstöðu sem fæst í samningi Landsvirkjunar við þátttakendur í álsamstarfinu?
    Ég vil segja það strax að fyrir fram verður ekkert samþykkt í þessu máli. Það verður að liggja fyrir hver séu efnisatriði málsins. Mig langar til að rifja upp með hv. 1. þm. Reykv. það sem lögin segja um þetta mál, lögin um Landsvirkjun. Þau segja einfaldlega í 13. gr. að orkusölusamningur slíkur sem hér er til umræðu sé háður staðfestingu iðnrh. Formlega liggur að sjálfsögðu í þessu að það er Landsvirkjun sem þarf að samþykkja orkusamninginn fyrst og síðan staðfestir ráðherra. Þetta er hin formlega mynd. En væntanlega mun þó afstaða aðila vera þekkt og kynnt óformlega með samráði fyrir þann tíma. Þetta er nákvæm lýsing á venjulegum gangi í íslenska stjórnarfarinu um slík

mál.
    Ég minni líka á að Landsvirkjun hefur samkvæmt lögum frumkvæðisskyldu í þessu máli. Hún hefur sjálfstæða stöðu sem aðalframleiðandi orku í landinu og sérstaklega til hennar stofnað til að efla stóriðju til útflutnings á Íslandi á grundvelli okkar orkulinda. Þannig liggur alveg ljóst fyrir að Landsvirkjun er ekki hlutlaus þátttakandi í þessu máli. Málið hefur enda allan tímann verið þannig rekið að hún hafi farið með verkið, samningagerðina um orkumálin.
    Þetta vildi ég segja um hina formlegu stöðu málsins og að sjálfsögðu verður um þetta vandlega fjallað, hefur enda verið gert. Mig langar í þessu sambandi, vegna þess að hér hefur nokkuð verið rætt um það hvernig staðið hafi verið að samningagerð um raforkuverð og fyrirkomulag raforkusamnings, að rifja upp það sem hv. málshefjandi, 1. þm. Reykv., sagði í umræðum á þingi utan dagskrár 21. nóv. 1988 um nýtt álver við Straumsvík. Þar er hann að lýsa vinnu sem fyrir liggi og fram undan sé. Þar nefnir hann og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í öðru lagi er undirbúningur af hálfu Landsvirkjunar á áætlunum um raforkuverð og fyrirkomulag raforkusamnings.``
    Þetta staðfestir að sjálfsögðu það sem flestum aðilum þessa máls er vel kunnugt að þannig hefur þetta verið í reynd og á því hefur ekki orðið breyting í framkvæmd. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að geta staðfest það hér við hv. 1. þm. Reykv. að þannig hefur áfram verið að þessu verki unnið.
    Síðan kem ég þá að því sem spurt var um í sambandi við endurskoðunarákvæði og ábyrgð móðurfyrirtækjanna á orkukaupum álversins. Hér er spurt um mikilvæga þætti í þessum samningum. Hvorugt þeirra ákvæða sem hv. málshefjandi hreyfir hér er fullrætt þótt þau hafi verið mikið rædd. Gert er ráð fyrir því að í samningunum verði sanngirnisákvæði sem feli það í sér að leiði ófyrirsjáanleg atvik til þess að bersýnilega halli á annan aðilann stofnist við það endurskoðunarréttur.
    Um ábyrgðirnar er það mest rætt að þær verði í aðalatriðum á grundvelli bindandi málmbræðslusamninga. Þetta er fyrirkomulag sem algengt er í fjármögnun framkvæmda af þessu tagi, en þetta mál er heldur ekki til hlítar rætt, tengist enda ekki síst fjármögnun málsins sem er það sem að sjálfsögðu kemur í röð næst á eftir meginefnisatriðum málsins.
    Ég kýs á þessu stigi máls að segja ekki fleira um þetta, en vík svo að lokum að þriðju spurningu hv. málshefjanda um orkusölusamningana eða orkukaupaþáttinn þar sem hann spyr hvort um hann verði fjallað í lagatexta fyrirhugaðs heimildarlagafrv. Þar segi ég að sjálfsögðu fyrst: Það eru lögin um Landsvirkjun sem gilda um orkusöluna. Hvort breytingu þarf á þeim að gera vegna þessara samninga ætla ég ekki að fullyrða á þessu stigi. Hvort formleg tenging milli frumvarpa og samnings verður gerð ætla ég heldur ekki að fullyrða, en ég bendi hv. þm. á það sem segir í skýrslunni á þskj. 8 um efnisatriði aðalsamnings og ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Segi eingöngu

það sem hverjum manni má ljóst vera líkt og þegar við ræddum raforkuverafrv. í vor. Þá þótti rétt að gera mjög ítarlega grein fyrir viðræðum um álverið og hvernig þær stæðu og hvernig það mál allt væri hugsað. Þingið hlýtur að sjálfsögðu að ætlast til þess þegar það fær frv. um álverið til meðferðar, að því fylgi mjög ítarleg greinargerð um orkuverðið, hvernig því öllu verði fyrir komið og hvernig þeir samningar verði gerðir. Þetta tel ég að svari eftir því sem kostur er þeim spurningum um orkusölumálin sem hv. málshefjandi beindi til mín.
    Ég kem þá að því að fjalla nokkuð um það sem kom fram í almennum inngangi málshefjanda um það að eitthvað annað hafi verið gefið til kynna um stöðu samninganna en efni standa til. Reyndar fannst mér eins og hann væri að taka undir það sem fram hafði komið frá stjórnarmönnum í Landsvirkjun sem virðist nú misskilningur að málið sé nú fyrst að komast í hendur stjórnar Landsvirkjunar. Það er auðvitað ekki rétt og kannski er gleggsti vitnisburðurinn um það tilvitnun mín áðan í það sem hv. málshefjandi sagði í umræðum um þessi mál í nóvember 1988. Það rétta er að bæði efnislega og formlega hefur verið fjallað um orkusölumálin innan stjórnar Landsvirkjunar á mörgum stigum þessa máls allt frá því að undirbúningur hófst á árunum 1987 og 1988. Það rétta er að samningaaðferðin hefur verið mjög í því fari sem hefur tíðkast hjá Landsvirkjun um árabil. Það rétta er að í undirbúningsviðræðum og samningaviðræðum um orkusölusamningana hafa stjórnarformaður, forstjóri og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar verið þátttakendur ásamt forstöðumönnum tæknideilda og lögfræðingum Landsvirkjunar. Mér vitanlega hefur enginn vefengt umboð þessara manna eða látið sér yfirleitt detta í hug að til þess gæti verið ástæða.
    Það er staðreynd að stjórn fyrirtækisins hefur ítrekað verið kynnt málið af þessum aðilum. Skýrasta dæmið um það er auðvitað að í júlí var tekin ákvörðun af stjórn Landsvirkjunar um að ráðast í nauðsynlegar undirbúningsframkvæmdir vegna nýrra virkjana. Það er staðreynd að sú ákvörðun var tekin í ljósi framvindu samninga um nýtt álver og stjórn Landsvirkjunar hafði verið kynnt hvernig málið stæði og hún taldi þá málið nægilega fram skriðið til þess að ráðast í verulegar fjárfestingar þegar á þessu ári til þess að geta afhent hinu nýja álveri orku árið 1994.
    Þá er líka rétt að rifja upp að Landsvirkjun hafði sjálf frumkvæði að því á liðnum vetri að leita eftir því að heimildar yrði aflað hjá Alþingi til að stækka Búrfellsvirkjun m.a. vegna orkusölu til nýs álvers. Ég hlýt því að andmæla því að nokkuð það hafi gerst í orkusölumálunum sem hafi átt að koma stjórn Landsvirkjunar á óvart, hvað þá að koma málinu í erfiða stöðu frá sjónarhóli fyrirtækisins. Þvert á móti tel ég að málið sé í mjög góðri stöðu í þeim skilningi að hægt sé að halda því áfram og leiða það farsællega til lykta í þessum lokaáfanga ef góður vilji ríkir. Ég treysti því að sá vilji finnist í stjórn Landsvirkjunar og á Alþingi og er sannfærður um að það mun koma í ljós. Það verður því að segjast að þessar umræður um

hlut Landsvirkjunar hafa að mestu leyti fjallað um innri mál þess fyrirtækis, enda hefur stjórn Landsvirkjunar alla tíð haft það í sinni hendi að láta málið til sín taka.
    Ég ætla að víkja nokkuð að því hvað það er sem felst í áfanganum í samningunum um nýtt álver sem skrifað var undir 4. október. Í minnisblaðinu um samning sem var undirritað hér fyrir nokkrum dögum er fjallað um framvindu samningsgerðarinnar, staðsetningu álversins og nokkur helstu atriði varðandi aðalsamning, orkusamning, hafnar - og lóðarsamning. Þar var líka staðfest málsmeðferð varðandi útgáfu starfsleyfis og ákvæði um gildistíma og endurskoðun. Með þessu minnisblaði var í reynd lagður grundvöllur að frv. til laga um nýtt álver og staðfestur vilji þessara þriggja fyrirtækja til þess að standa að því verki með okkur. Þar kemur í ljós að tekist hefur samkomulag í meginatriðum um eftirfarandi atriði:
    1. Samkomulag er um lagalega umgerð málsins og helstu þætti samskipta ríkisvalds og aðilanna vegna nýs álvers, m.a. um skipulag fyrirtækja Atlantsáls, um skipun ráðgjafarnefndar, um framsal hlutabréfa, um rekstrargrundvöll bræðslusamlagsins, um meðferð starfsleyfisumsóknar, um úrvinnslu áls, um rétt innlendra aðila til verktöku, um þátt Atlantsáls í iðnþróun á Íslandi og um lausn deilumála.
    2. Samkomulag um skattlagningu sem byggist í grundvallaratriðum á íslenskum skattarétti og nánar er lýst í sérstöku fylgiskjali með skýrslunni sem ég hef lagt hér fram.
    3. Þá er staðfest meginniðurstaða um orkusölu, þar með talið um orkuverð og ýmsa skilmála orkuafhendingar, orkumagn, ákvæði um forgangsorku og um gildistíma samningsins.
    Þessi samningsgrundvöllur var í öllum efnisatriðum kynntur í stjórn Landsvirkjunar 23. ágúst sl. þegar hann lá fyrir.
    4. Samkomulag er um málsmeðferð varðandi útgáfu starfsleyfis vegna umhverfismála og endurskoðun skilmála þess en drög að slíku starfsleyfi hafa verið rædd milli aðila og reyndar um þau fjallað á sérstökum fundi sem umhverfisráðherra hélt með ríkisstjórninni í morgun og gerði þar ítarlega grein fyrir því hvernig það mál er á vegi statt. Ég vænti þess að hann muni upplýsa þingið um það síðar.
    5. Staðfest eru meginatriði hafnar- og lóðarsamnings, m.a. um eignarhald á höfn og grundvöll gjaldtöku fyrir þjónustu sveitarfélaganna sjö sem myndað hafa byggðasamlag, um þetta mál.
    Eins og sjá má af þeirri upptalningu, sem ég hef farið með hér, eru flestir grundvallarþættir málsins að mínu áliti nægjanlega skýrir til að senn megi leggja málið fyrir á Alþingi. Um nokkur mikilvæg atriði, m.a. þau tvö sem hv. málshefjandi hreyfði hér áðan um ábyrgðir og sanngirnisákvæði og endurskoðunarrétt í orkusamningi, þarf að fjalla nánar á næstunni og þá verður unnt að gera þingnefndum enn frekar grein fyrir málinu. Hafa ber í huga, og ég legg á það mikla áherslu, að ætlunin hefur ekki verið að leggja frágenginn samning til staðfestingar fyrir þingið í haust.

Það hefur ávallt verið mjög skýrt fram tekið af minni hálfu að ég hygðist leggja fram frv. til heimildarlaga, ekki staðfestingarlaga. Það liggur í eðli slíks frv. að verið er að sækja tilteknar heimildir til Alþingis þannig að ganga megi frá lokasamningum.
    Ummæli ýmissa þeirra sem um þetta mál hafa fjallað síðustu vikur virðast því byggjast á misskilningi, þeim misskilningi að ætlunin hafi verið að leggja hér fullgerðan samning fyrir þingið í haust til staðfestingar. Ég hef ávallt boðað frv. til heimildarlaga og tel málið senn nægilega unnið til þess að óska eftir slíkri heimild á næstunni.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi hér svarað flestu því sem til mín var beint og vil að lokum taka það fram að ég tel mikinn feng að aðild hins nýja fyrirtækis í hópnum, bandaríska fyrirtækisins Alumax, að Atlantsálshópnum, en hv. málshefjandi kom nokkuð að því áðan. Þetta fyrirtæki er í mikilli sókn, nýtur mikillar virðingar á alþjóðlegum vettvangi og reynsla okkar af samningum við þá menn, sem og við hina sænsku og hollensku starfsbræður þeirra, er sú að hér séu afar hreinskiptnir menn, heiðarlegir menn, menn sem hægt er að treysta í samningum.
    Alumax þykir starfrækja einna best reknu álbræðslur í heimi sem skila betra arði en keppinautanna, en hefur líka meiri virðingu og álit fyrir að hafa hreint og gott umhverfi. Sama máli gegnir um Gränges og Hoogovens, sænsku og hollensku aðilana. Þeir eru traustir og góðir samstarfsðilar. Það er mikilvægt að okkur takist að ljúka þessum samningum bæði hratt og farsællega. Ef við náum því samkomulagi, þessum samningum, þá munu ýmsir nýir möguleikar til eflingar atvinnulífsins koma í kjölfarið. Við skulum öll gera okkur grein fyrir því að þetta mál er nú að komast á ákvörðunarstig og um það gildir svo sannarlega það sem segir í vísunni góðu með lítils háttar breytingu:

        Tækifærið gríptu greitt,
        giftu mun það skapa.
        ,,Álið`` skaltu hamra heitt,
        að hika er sama og tapa.