Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vona að leit að hæstv. umhvrh. verði haldið áfram vegna þess að ég hefði gjarnan viljað að hann hlustaði, alla vega þegar örlítið lengra líður á mál mitt.
    Það hefur vafist fyrir mér á undanförnum árum hvernig stendur á þeirri þráhyggju ráðamanna að ekkert geti bjargað íslensku atvinnulífi nema bygging nýs álvers. Hæstv. fjmrh. lagði áherslu á það hér áðan, að auðvitað væri það ekki það eina sem mundi bjarga íslensku efnahags - og atvinnulífi en það mætti halda, af því hvernig menn hegða sér, að þeir teldu svo vera. Það er ömurlegt að fylgjast með hvernig þetta mál hefur tekið hug manna allan svo að aðrir atvinnukostir hafa varla verið nefndir, hvað þá athugaðir af alvöru. Fullvinnsla sjávarafla, önnur matvælaframleiðsla og iðnaður sem hentar íslensku atvinnulífi virðist ekki vera ofarlega á vinsældalistanum hjá þeim sem setið hafa á ráðherrastólum undanfarin ár. Og nú virðist sem með góðu eða illu skuli keyra málið í gegn. Þeir sem leyfa sér að koma með mótbárur eða setja fram efasemdir um að þetta sé nú ekki alveg eins gott og af er látið og ekki það sem henti okkur eru sagðir vera hinir mestu afturhaldsseggir, einstrengingslegt úrtölufólk, að þeir viti ekki hvað þeir eru að segja, taldir vera á móti framförum og með skipulagða skemmdarstarfsemi. Ég minni í þessu sambandi á viðbrögð við hógværum mótmælum Eyfirðinga á liðnu sumri þegar þeir settu spurningarmerki við það að það væri kannski ekki það besta fyrir Eyfirðinga að fá álver.
     Það er ekkert nýtt að álver sé til umræðu hér á þinginu. Við höfum reynt að fylgjast með hvernig iðnaðarráðherrar, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa reynt að fá hingað erlenda aðila til að eiga og reka hér álverksmiðju. Og málshefjandi, hv. 1. þm. Reykv., og lýsti áðan sínum þætti í málinu og lagði mikla áherslu á það að hæstv. núv. iðnrh. ætti þetta mál ekki einn. Honum þótti þetta svo mikilvægt.
    Ég hef á hverju þingi sem ég hef setið borið fram fyrirspurnir til iðnrh. um nýtt álver og hafa svörin verið hin margvíslegustu. Haustið 1987 kom fram að Alusuisse vildi ekki stækka álverið í Straumsvík, væntanlega vegna þess að þeir töldu það ekki hagkvæmt. Síðan fór fram hagkvæmniathugun á byggingu 185 þús. tonna álvers í Straumsvík. Niðurstaðan varð sú að það var ekki hagkvæmt. Þá var aftur farið að tala um að stækka álverið í Straumsvík. Það gekk ekki heldur upp. En þar með var ekki látið staðar numið heldur enn farið í leit að erlendum aðilum til þátttöku í leiknum. Og nú virðast reiknimeistararnir vera búnir að reikna út að 200 þús. tonna álver sé svo hagkvæmt að við megum bara alls ekki missa af vagninum í þetta sinn. Er nokkur furða þótt sett séu spurningarmerki við þær reikniaðferðir sem notaðar eru? Það væri t.d. fróðlegt að hafa hér á borðum útreikninga sérfræðinga á raforkuverði í tengslum við þessar athuganir undanfarin ár, en þeir liggja ekki fyrir því raforkuverð hefur verið leyndarmál. --- Ég vil inna virðulegan forseta eftir því hvort hæstv. iðnrh.

getur verið í salnum til að hlýða á mál mitt. ( Forseti: Ég skal óska eftir því að hann verði til staðar.)
    Nú liggur fyrir undirritað samkomulag milli iðnrh. og Atlantsálsaðilanna um einstaka þætti samninga um 200 þús. tonna álver. Að vísu er efast um að iðnrh. hafi skrifað undir í umboði ríkisstjórnarinnar. Það hefur reyndar komið fram hér að hann gerir það einn og ekki hefur neitt verið samþykkt í ríkisstjórninni um þetta mál. Ljóst er að formaður stjórnar Landsvirkjunar, sem jafnframt er formaður stjórnar samninganefndarinnar, skrifaði ekki undir yfirlýsingu um raforkusamninginn í umboði stjórnarinnar. Ég velti því fyrir mér hvernig sami maðurinn, seðlabankastjórinn, metur hvaða áhrif hinar miklu lántökur munu hafa á þjóðarbúið og hvaða áhrif það hafi á íslenskt efnahagslíf ef reist verður hér álver með öllu sem því muni fylgja. Hann er ekki einungis beggja vegna borðsins heldur er hann við allar hliðar borðsins í þessu máli. Spurning hvort hann þurfi ekki að fá sér hringborð svo hann geti farið nógu hratt á milli stóla.
    Eins og ráðherrann hefur nú upplýst eigum við von á því á allra næstu vikum að fá hingað inn í þingið frv. sem heimilar ríkisstjórninni að ganga til samninga við Atlantsál. Ef það gerist hlýtur það að merkja að þeir ráðherrar Alþb. sem hafa þóst vera á móti þessu álveri hafi skipt um skoðun --- eða hvað? Þeir eru nú reyndar farnir þannig að ég veit ekki hvort þeir láta til sín heyra í umræðunum á eftir en það kemur í ljós.
    Lítum aðeins á nokkur atriði væntanlegs samnings og þá þætti sem eru tengdir honum. Hér hefur komið fram að þetta er allt enn mjög óljóst og ekki búið að samþykkja neitt, ríkisstjórnin hefur að því er virðist ekki samþykkt eitt eða neitt í þessu sambandi. Ég get ekki annað en farið eftir þeim drögum sem koma fram í skýrslu iðnrh. sem lögð var á borð þingmanna síðasta fimmtudag. Það fyrsta sem menn velta fyrir sér er auðvitað þjóðhagsleg hagkvæmni. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. áðan að hann teldi það mikilvægasta þáttinn í þessu máli að hagvöxtur mundi aukast svo gífurlega að ekki væri hægt annað en að fara í byggingu nýs álvers. Og í fskj. með þessari skýrslu kemur fram það mat Þjóðhagsstofnunar að þjóðartekjur muni aukast um 3% ef verður af byggingu þessa álvers. Ég dreg stórlega í efa þessar upplýsingar og tel þarna um gróft ofmat að ræða. Það er álit margra annarra sem hafa reynt að meta þetta að þarna sé skotið langt yfir markið og vilja þeir fremur tala um innan við 1% vöxt þjóðartekna. Þó er inni í þeim reikningum mikil bjartsýni um þróun álverðs. Ef álverð verður eitthvað öðruvísi en þessir bjartsýnisútreikningar gera ráð fyrir verður þarna um verulegt tap að ræða. Í þessum hagvaxtarútreikningum er ekki tekin inn í, að því er best verður séð, mengun og eyðilegging gróðurs og lands sem verður samfara þessu álveri. Hagvaxtarútreikningarnir eru því langt, langt, langt frá því að vera raunhæfir. Þarna er um neikvæð áhrif að ræða ef allt er tekið með. Ég held að rétt sé að farið verði betur ofan í þessa útreikninga og allt verði tekið með í reikninginn.

    Sú þensla sem mun óhjákvæmilega verða samfara byggingu þessa álvers verður að sjálfsögðu mest á suðvesturhorninu og mun þar af leiðandi draga til sín vinnuafl annars staðar af landinu og leiða til enn frekari byggðaröskunar en nú þegar er orðin. Það er ekki heldur tekið inn í þessa útreikninga hversu óhagkvæmt það er þjóðhagslega að láta verksmiðjuna rísa hér á suðvesturhorninu. Það er alveg ljóst að þegar verið er að básúna og blása út hversu mikill hagvöxtur verður, þá eru útreikningarnir vægast sagt vafasamir.
    Einn stærsti þátturinn í þeim hagnaði sem talinn er geta orðið af álveri er raforkusala. Það er það sem mest hefur verið litið til og því mjög mikilvægt að ganga vel frá þeim málum. Rætt hefur verið um að tengja raforkuverðið álverði án lágmarks þannig að raforkuverðið getur orðið mjög lágt ef heimsmarkaðsverð á áli verður mjög lágt. Þetta er því mjög áhættusamt, sérstaklega ef tekið er tillit til þeirra miklu óvissuþátta sem tengdir eru verði á áli. Undanfarin ár hafa verið miklar sveiflur í álverði og margir hafa bent á að ýmislegt geti leitt til þess að álverð muni falla. Bent hefur verið á að hergagnaframleiðsla hefur dregist saman, sem betur fer, og muni gera það enn frekar á næstu árum. Líka hefur verið bent á að ál geti hugsanlega verið sjúkdómsvaldandi, þannig að það sé mjög varhugavert að nota álumbúðir utan um mat. Þetta getur haft veruleg áhrif, bara umræðan getur haft mikil áhrif. Þó ekkert hafi verið sannað í þessum efnum þá bendir ýmislegt til tengingar á milli álmengunar og Alzheimer - sjúkdómsins. Einnig hefur verið bent á það að ýmsir aðrir málmar geti komið í staðinn fyrir ál. Nú er m.a. farið að ræða um að nota þunnt stál t.d. í bílaframleiðslu. Þó að þetta sé allt mjög óvisst er þetta þó a.m.k. komið í umræðuna. Það er því ljóst að mikil óvissa ríkir um þróun álverðs í framtíðinni. Ég tel það mjög mikla bjartsýni að reikna með að álverð verði í kringum 1900 dollara, mér sýnist að reiknað sé með því hérna, 1850 -- 1900 dollara, ef ég man rétt --- 1650 er talað um varðandi skattinn, ég fann það ekki um raforkuverðið. Forsendurnar eru því mjög hæpnar. Ef við tökum álverð síðustu 30 ára þá hefur það aðeins í sex ár farið upp í 1850 dollara þakið og meðaltal síðustu tíu ára er einungis 1650 dollarar tonnið, þannig að ég held að þarna sé um mikla vanáætlun að ræða.
    Síðan er reiknað með því, að því er best verður séð, að vextir verði 5,5%. Þjóðhagsstofnun hefur gert útreikninga á þessu og í þeim útreikningum er reiknað með að vextir af lánum verði 5,5%. Á sl. tíu árum hafa vextir af lánum Landsvirkjunar verið á milli 6 og 7%. Það er mjög margt sem bendir til þess að vextir muni fremur hækka en lækka á næstu árum þó að það sé auðvitað mjög mikilli óvissu háð. En búast má við mikilli fjárfestingarþörf, t.d. í Austur-Evrópu, og það er trúlegt að vesturveldin muni ekki draga úr sinni fjárfestingu sem nemur þeirri aukningu sem verður í Austur-Evrópu og það muni þá leiða til meiri fjárfestingar, meiri fjármagnsþarfar og þar af leiðandi hækkunar vaxta. Auk þess er talað um afslátt af raforkuverði fyrstu árin og er þá, að því er mér sýnist, óumdeilanlegt að fyrstu árin verði tap á samningum. Hefur það m.a. komið fram í viðræðum í fjölmiðlum við stjórnarmenn Landsvirkjunar að 15 -- 20 fyrstu árin muni verða tap á raforkusamningum við Atlantsál. Óveruleg hækkun vaxta eða lækkun á álverði mun breyta útreiknuðum hagnaði í verulegt tap.
    Varðandi skattamálin, sem frekar lítið hefur heyrst af nema að það muni vera mikill ágóði fyrir ríkissjóð ef við förum út í þetta, þá er ljóst að það fer auðvitað eftir þróun álverðs eins og allt annað og ekkert tryggt í því sambandi. Auk þess vekur athygli að ekki er reiknað með því að neinn tekjuskattur komi inn í ríkissjóð fyrstu níu árin, eins og fram kemur á bls. 21 í skýrslu hæstv. iðnrh., fskj. 4. Þetta finnst mér mjög fróðlegar upplýsingar, að ekkert fáist í ríkissjóð fyrstu níu árin, ekki fyrr en árið 2003. Og skil ég þá enn síður þá áherslu sem lögð er á að nú þurfum við að fá álver vegna þess að við verðum að fá tekjur og verðum að fá peninga strax í kassann. Ekkert kemur inn fyrr en einhvern tímann á næstu öld, ef það kemur þá nokkurn tímann. Það væri fróðlegt að vita --- nú hefur fjmrh. vikið sér frá --- hvort þær tölur sem nefndar eru í þessari skýrslu þar sem talað er um að tekjuskattur gæti orðið rúmlega milljarður króna á ári, og þá væntanlega eftir þessi níu ár, hvort það er reiknað á núvirði eða hvernig þessi tala er fengin. Mér þætti fróðlegt að fá þær upplýsingar og e.t.v. get ég komið þeim spurningum til hans á eftir. Þetta er því mikið happdrætti og spurning hvort þjóðin hefur efni á að taka slíka áhættu sem þarna virðist vera farið út í.
    Þá vík ég að alvarlegasta þættinum í þessu máli en það eru mengunarmálin. Það er sorglegt að fylgjast með því máli. Mér virðist að þar sé um stöðugt undanhald að ræða. Ég hef auðvitað ekki neitt fyrir mér annað en það sem ég hef lesið í blöðum og það sem ég sé hérna í þessari skýrslu og það sem þar kemur fram vekur ekki mikla bjartsýni hjá mér.
    Iðnrn. hélt á því máli upphaflega, kannski af eðlilegum ástæðum þar sem ekki var til umhvrn., og get ég ekki annað en lýst því að mér finnst sá þáttur vera mjög veikur af hálfu iðnrn. Og nú síðast þá virðist mér að umhvrh. ætli að fallast á afslátt að því er varðar mengunarvarnir. Ég vona að það sé alls ekki rétt sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Það sé eitthvað sem sagt er að ekki allt of vel athuguðu máli.
    Það er mjög alvarlegt ef ekki á að gera ýtrustu kröfur um mengunarvarnir að því er varðar þetta álver. Auðvitað á að gera þær alls staðar og ekki síðst þarna. Ég vil því spyrja hæstv. umhvrh. hvort virkilega sé búið að gefa eftir í þessu máli. Það hefur verið haft eftir honum í fjölmiðlum, í blaðaviðtölum, að þetta sé dýrt og að varla sé hægt að ætlast til þess að menn leggi í svo og svo mikinn kostnað og það verði að taka tillit til þess líka. Við megum ekki verðleggja landið lágt. Landið okkar er viðkvæmt og þolir ekki mengun. Við getum ekki slakað á neinu í þessum efnum. Það er auðvitað ljóst að við höfum skyldur, ekki bara gagnvart okkar eigin landi, heldur höfum við

einnig skyldur gagnvart jörðinni í heild. Við getum ekki horft eingöngu á okkur og sagt: Þetta blæs allt út á haf og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur.
    Auðvitað er flúoríð langstærsta vandamálið og vonandi verður ekki slakað neitt á í þeim efnum. Einhvers staðar las ég að krafan yrði eitt kíló af flúoríði á tonn, það þykir mér allt of hátt og vona að það sé einhver misskilningur. Þarna verður auðvitað að gera miklu strangari kröfur ef af þessu álveri verður. Langar mig til að fá þær upplýsingar sem fyrir liggja nú að því er þetta varðar. Síðan verður mjög mikil aukning á koldíoxíði ef af byggingu þessa álvers verður, veruleg aukning frá því sem nú er og er slæmt að við skulum vera að auka koldíoxíðmagn í andrúmsloftinu og auka þar með hættuna á gróðurhúsaáhrifum, svo að auðvitað er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Þá er það brennisteinsdíoxíðið sem mikið hefur verið rætt um. Við vitum að hægt er að koma nánast í veg fyrir mengun af völdum þess í andrúmslofti. Við höfum einnig skyldur gagnvart umheiminum að því er það varðar. Það er ekki lengra síðan en í sumar að við fengum mengun frá meginlandi Evrópu. Þar var um mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs að ræða þó að sjálfsagt hafi þar verið súlföt og annað sem þar blandaðist saman. Ég er alveg viss um að fólk vill ekki fá það sem viðvarandi vandamál hér á landi það sem við þurftum að upplifa hér í sumar, þegar þetta mikla mengunarloft barst okkur frá Evrópu.
    Ísland hefur skuldbundið sig á vettvangi Norðurlanda til að ganga fram með varúð varðandi alla nýja starfsemi sem valdið getur aukinni brennisteinsmengun, eins og kemur fram á bls. 71 í skýrslu iðnrh. þar sem talað er um loftmengun. Ísland vildi ekki skrifa undir þennan samning vegna þess að brennisteinsdíoxíðmengun hér á landi er sem betur fer ekki mjög mikil, en það er hins vegar engin ástæða til þess að auka hana verulega eins og mun gerast ef ekki er krafist hreinsunar, algjörrar hreinsunar á brennisteinsdíoxíði frá álverinu. Ég vil spyrja að því hvort ekki sé ætlunin að standa við þetta ákvæði og hvort ekki eigi að minnka brennisteinsdíoxíðmengun eins mikið og hægt er. Ég hef verulegar áhyggjur af því og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir okkur ef við ætlum að fara að auka hættuna á súru regni í Evrópu.
    Annað sem ég tók líka eftir í þessu samkomulagi, þessum plöggum, er það sem segir orðrétt á bls. 27 í skýrslu iðnrh., með leyfi forseta:
    ,,Tilmæli Atlantsálsaðilanna, sem byggð eru á niðurstöðum loftdreifingarreikninga NILU og Vatnaskila, eru þau að landsvæði í allt að 6 km fjarlægð umhverfis verksmiðju verði skilgreint sem iðnaðarsvæði og að þynningarsvæði verði fyrst um sinn skilgreint jafn stórt.``
    Mér finnst þetta svæði, 6 km umhverfis verksmiðjuna, allt of stórt ef það á að vera þynningarsvæðið. Ég tel ekki koma til greina ef þessi verksmiðja verður byggð að svo stórt svæði verði skilgreint sem iðnaðarsvæði og þá þynningarsvæði fyrir mengunarefnið. Það er alveg út í hött. Mér sýnist að þetta hafi

bara verið tilmæli frá Atlantsálsaðilum og vona að sjálfsögðu að ekki hafi verið fallist á þau.
    Í blaðaviðtali í Þjóðlífi, ég hygg að það hafi verið 1988, segir málshefjandi, hv. 1. þm. Reykv., orðrétt, með leyfi forseta: ,,Auðvitað gerum við kröfur um fullkomnasta hreinsibúnað sem til er.`` Og síðar: ,,Það er auðvitað ljóst að Íslendingar hljóta að gera mjög strangar kröfur um umhverfisvernd.`` Þetta kemur fram í þessu viðtali þannig að ég held að þó svo að hv. 1. þm. Reykv. hafi talað mjög ákveðið um að Sjálfstfl., og þá sérstaklega hann, vildi fá álver, þá vilji hann ekki gefa neitt eftir að því er varðar mengunarvarnir. Því miður hef ég verulegar áhyggjur af mengunarþættinum og tel hann alvarlegasta þáttinn í þessu máli. Eftir öllum þeim plöggum og blaðagreinum sem maður getur þó náð í og viðtölum, þá virðist þarna vera um verulegt undanhald að ræða. Nú vildi ég í þessu sambandi benda á samþykkt frá stjórn Landverndar þar sem kemur m.a. fram að stjórnin hvetur ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að leita leiða í iðnaðar- og atvinnuuppbyggingu þannig að umhverfi stafi ekki ógn af og telja það mjög af hinu vonda að fara að byggja álver á Íslandi.
    Virðulegur forseti. Það er fátt sem mælir með því að ráðast í að reisa álver á Keilisnesi og hef ég aðeins drepið á helstu atriði í máli mínu en alls ekki tekið á öllum þáttum málsins. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að ríkisstjórnin með iðnrn. í broddi fylkingar er á mjög röngu spori varðandi atvinnuuppbyggingu í landinu. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að lesa hluta af ályktun frá ráðstefnu Kvennalistans sem haldin var nú í haust en þar segir m.a.:
    ,,Ráðstefna Kvennalistans um atvinnu- og umhverfismál haldin á Þingeyri 1. -- 2. september sl. gagnrýnir harðlega einsýni og íhaldssemi stjórnvalda við öflun tækifæra til að koma orku landsins í verð.`` Og síðar í ályktuninni segir: ,,Kvennalistakonur átelja stjórnvöld harðlega fyrir að hafa sóað dýrmætum tíma og gífurlegum fjármunum til þess eins að fá útlendinga til þess að reisa nýtt álver sem mundi hafa í för með sér verulega umhverfismengun og búseturöskun. Enn fremur hefur öll sú málsmeðferð valdið úlfúð og togstreitu milli landshluta.``
    Ég skora á iðnrh. að leggja áform um erlenda álbræðslu sem sé til hliðar og snúa sér að öðrum vænlegum kostum fyrir íslenskt efnahags - og atvinnulíf.