Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé samhljóða niðurstaða flestra Íslendinga að nýting orkulindanna sé einn mikilvægasti þátturinn til þess að viðhalda hagvexti og bæta lífskjör í landinu. Raunar er það svo að allar ríkisstjórnir í áratugi hafa sýnt skoðun sína á þessu máli með því að skipa viðræðunefndir sem unnið hafa að því að reyna að efla orkufrekan iðnað á Íslandi og iðnaðarráðherrar, ég hygg allir, hafa unnið að því máli í áratugi. Meira að segja hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fram í sinni iðnaðarráðherratíð stórkostlegri virkjanaáætlanir en aðrir iðnaðarráðherrar hafa gert með það fyrir augum að efla hér orkufrekan iðnað.
    Það er eigi að síður svo að árangur sl. 10 ár hefur ekki orðið mikill í því að koma hér upp orkufrekum iðnaði. Síðasta fyrirtækið sem var reist var járnblendiverksmiðjan 1978. Síðan hefur lítið miðað þrátt fyrir verulega vinnu og reynt hafi verið að nálgast ýmis erlend fyrirtæki til að efla hér orkufrekan iðnað. Þar hafa auðvitað mestu ráðið markaðsaðstæður og samkeppni á opnum markaði og fleira og fleira. Fjölmörg lönd eins og Kanada, Venesúela, Ástralía og Brasilía hafa boðið orku á lágu verði.
    Nú er svo komið að viðræður um orkufrekan iðnað, um gríðarlega mikið fyrirtæki hér á landi eru á lokastigi. Hér er um að ræða mjög mikla fjárfestingu, fjárfestingu sem nálgast 60 þús. millj. ísl. kr. Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar hefja viðræður við erlenda aðila um slíka fjárfestingu og rétt er að benda á í þessu samhengi að heildarverðmæti íslenska fiskiskipaflotans eru áætluð innan við 50 þús. millj. kr. Að mínu mati er þess vegna afar mikilvægt að Íslendingar beri gæfu til þess að standa sæmilega þétt saman við að koma þessu fyrirtæki á og ná um það eins hagstæðum samningum og unnt er. Það er afar mikilvægt að menn missi ekki tök á þessu máli í innbyrðis óeiningu. Klúðri menn málinu nú getur orðið veruleg bið á því að mönnum takist að ná hér upp alvarlegum viðræðum um orkufrekan iðnað.
    Ég giska á að í álheiminum séu innan við 300 manns sem eru í stöðu til þess að hefja viðræður um uppbyggingu álvera. Þessir menn fylgjast allir mjög vel með. Ef þetta fyrirtæki fer í vaskinn vegna innbyrðis óánægju hér eða óeiningar, þá er enginn vafi á því að menn munu spyrja sig þeirrar spurningar hvort það þýði að leita samninga við Íslendinga.
    Í þeirri miklu umræðu og því mikla ölduróti sem að undanförnu hefur verið varðandi álmálið er rétt að geta þess að þar eru auðvitað mjög mismunandi sjónarmið og viðhorf sem koma fram. --- Nú verð ég að segja, virðulegi forseti, að það er erfitt að halda þessari umræðu áfram án þess að fá hér í salinn hv. málshefjanda. Og það er erfitt og í rauninni illskiljanlegt að menn hefji hér umræður utan dagskrár um mál eins og þetta og hafi síðan ekki tíma til að vera viðstaddir umræðuna sjálfir. Helst hefði ég vegna þeirra umræðna sem hér fara fram viljað fá hér í salinn bæði hv. málshefjanda, 1. þm. Reykv., og formann Sjálfstfl.

sem stendur að þessari umræðu utan dagskrár. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. að hvorugur þessara hv. þm. mun vera í húsinu, en nú verður gerð tilraun til þess að athuga hvort þeir geti setið þennan fund.)
    Mér eru ofarlega í huga nokkrar spurningar varðandi umræðuna eins og hún hefur snúist hér í dag. Eins og ég sagði áðan hafa hinir ýmsu einstaklingar mismunandi viðhorf til orkufreks iðnaðar. Þeir eru til, eins og margir fylgismenn Kvennalistans og margir fylgismenn Alþb., sem í hjarta sínu eru á móti orkufrekum iðnaði. Slík afstaða er út af fyrir sig alveg skiljanleg. Hins vegar er það svo að Sjálfstfl. hefur margsinnis lýst því yfir að hann styðji orkufrekan iðnað og vilji standa að uppbyggingu hans. Málshefjandi, hv. 1. þm. Reykv., sagði hér í upphafi máls síns að stefna Sjálfstfl. væri skýr þegar kæmi að orkufrekum iðnaði. Reyndar fékk ég það ekki skýrt í mínum huga hver afstaða Sjálfstfl. væri í raun og veru í þessu máli þegar ég hlustaði á ræðu hans. Og hér eru einhverjir þingmenn flokksins inni sem geta þá komið þeim spurningum til skila eða svarað því sem ég hef áhuga á að fá að vita varðandi afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli.
    Ég verð að játa það að málflutningur Sjálfstfl. hefur valdið mér talsverðum áhyggjum og vakið í huga mínum margar spurningar. Sjálfstfl. hefur meðhöndlað þetta mál þannig að vafi leikur á hvaða afstöðu hann muni hafa. Í þessu sambandi vil ég benda á að varaformaður Sjálfstfl., borgarstjórinn í Reykjavík, hefur í viðtölum gefið ákaflega kynlegar yfirlýsingar, yfirlýsingar sem eru í rauninni í eitthvað svipuðum dúr og þetta: Við viljum ekki taka afstöðu eða taka ákvörðun í stjórn Landsvirkjunar vegna þess að menn kynnu að rekja það til okkar á eftir að við bærum ábyrgð á þeim ákvörðunum sem við höfum tekið. Ég hygg að yfirlýsing í þessum dúr sé ákaflega óvenjuleg hjá manni sem teljast verður ábyrgur stjórnmálamaður. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér örstutt upp úr Dagblaðinu frá 6. október þar sem varaformaður Sjálfstfl. segir: ,,Það er alveg ljóst að forsrh. og Framsfl. ætla að sjá til þess að við samþykkjum orkuverðið og þeir geti síðan haft frían sjó og talað um á eftir hvað þetta sé lélegt.`` Þessi afstaða er mjög merkileg hjá ábyrgum stjórnmálamanni vegna þess að ég hygg að íslenska þjóðin ætlist til þess af sínum stjórnmálamönnum að þeir taki afstöðu til málanna eins og þau liggja fyrir, en ekki eftir því hvað þeir óttast að andstæðingar þeirra í stjórnmálum kunni að segja um þá eftir á.
    Þetta vekur upp ýmsar spurningar um hlutverk alþingismanna, hlutverk stjórnmálamanna og það að ýmislegt í málflutningi sjálfstæðismanna minnir meira þegar kemur að þessu máli á baráttu um völd en afstöðu, málefnalega afstöðu til máls sem verið er að fjalla um og þjóðarhags. Ég man ekki eftir því að hafa séð það áður haft eftir ábyrgum stjórnmálamanni á prenti að hann hafi beinlínis lýst því yfir að hann ætli ekki að taka ákvörðun í ákveðnu máli vegna þess að það yrði hermt upp á hann á eftir að hann bæri ábyrgð á þeirri

ákvörðun sem hann hefði tekið. Þetta þykir mér mjög kynleg yfirlýsing. Það sem ég vildi spyrja hv. málshefjanda um og formann Sjálfstfl. líka, ef þeir hefðu haft tíma til að vera viðstaddir þessa umræðu sem þeir lögðu áherslu á að fá setta á svið í dag, er hvort það væri einnig þeirra afstaða að taka ekki ákvörðun í þessu máli vegna þess að það yrði talið á eftir að þeir bæru ábyrgð á þeirri ákvörðun sem þeir hefðu tekið.
    Nú hefur hv. málshefjandi gengið í salinn svo að hann getur væntanlega svarað því fyrir sitt leyti hvort hann er sömu skoðunar og varaformaður Sjálfstfl. þegar kemur að þessu atriði. Það er ákaflega forvitnilegt að vita hvort það er afstaða Sjálfstfl., hvort það er stefna hans að taka ekki ákvörðun í þessu máli vegna þess að þeir yrðu taldir bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þeir hefðu tekið.
    Ég vil síðan varpa annarri spurningu fram varðandi þessa málsmeðferð til fyrrv. varaformanns Sjálfstfl., málshefjanda hér. Það er svo að með réttu eða röngu hafa menn almennt skilið yfirlýsingar hv. 1. þm. Reykv. í fjölmiðlum á þann veg að Sjálfstfl. mundi ekki standa að eða styðja ákvarðanir um álver á Keilisnesi nema ríkisstjórnin færi frá. Ég skal ekki segja hvort þetta er nákvæmlega réttur skilningur á afstöðu hv. 1. þm. Reykv. En það hlýtur að vera tímabært að spyrja hér um afstöðu Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur hafið þessa umræðu utan dagskrár en hann hefur ekki gert skýra grein fyrir því hvaða afstöðu hann hefur til álmálsins. Spurningin hlýtur því að vera þessi: Er Sjálfstfl. tilbúinn og ætlar Sjálfstfl. sér að styðja byggingu álvers og standa að samningum um álver á Keilisnesi svo framarlega sem viðunandi samningar nást eða mun hann láta afstöðu Alþb. ráða sínum ákvörðunum? Þá á ég við það að ef Sjálfstfl. ætlar að halda sér við þá yfirlýsingu að styðja samningana eingöngu ef ríkisstjórnin fer frá, þá ætlar hann beinlínis að láta Alþb. ráða því hvaða afstöðu hann tekur sjálfur. Ég hefði kosið að fá hér fram frá hv. 1. þm. Reykv. skýra yfirlýsingu um það hver afstaða Sjálfstfl. er í þessu máli, hvort hann mun taka málefnalega afstöðu til málsins eða hvort Alþb. ræður því hvaða afstöðu Sjálfstfl. tekur. Það er mjög mikilvægt, ekki bara fyrir þingheim heldur fyrir þjóðina alla, að vita hvernig Sjálfstfl. ætlar að halda á þessu máli. ( HBl: Þetta er ekki nógu skýrt hjá þm.) Ég er alveg viss um að margir munu fást til að skýra þetta nánar fyrir hv. þm. Halldóri Blöndal. Það má kannski segja um hann svipað og Einstein á sínum tíma að hann sé seinn að hugsa og seinn að skilja.
    Samningar þeir sem nú eru í gangi eru glettilega langt komnir þó að talsvert sé eftir enn og nokkur atriði ekki frágengin. Samningarnir hafa að mestu leyti verið á vegum ráðgjafarnefndar iðnrn. og ég hygg að það sé í samræmi við þá venju sem hér hefur skapast að iðnrh. og iðnrn. hafa skipað sérstaka nefnd sem farið hefur með þessi mál. Reyndar er það svo eins og hér hefur komið mjög skýrt fram varðandi orkusamninginn að stjórnarformaður Landsvirkjunar, forstjóri og aðstoðarforstjóri hafa unnið mjög mikið að þessum samningum, enda stjórnarformaður jafnframt

formaður ráðgjafarnefndarinnar. Nánast öll þau gögn sem ráðgjafarnefnd iðnrh. hefur haft til að vinna með í þessum orkusamningum eru fengin frá stjórn Landsvirkjunar. Sú sérstæða staða er hins vegar þar að Sjálfstfl. er í hreinum meiri hluta í stjórn Landsvirkjunar og að sumu leyti hefur það sett dálítið svip sinn á meðhöndlun orkusamningsins.
    Umræður hafa orðið mjög miklar að undanförnu um staðarval álversins. Ég ætla ekki að fara náið út í það. En það er ljóst að þrátt fyrir mikinn áhuga Íslendinga á að staðsetja álverið úti á landi, þá náðist ekki um það samstaða. Ég fullyrði að innan ráðgjafarnefndarinnar sem að þessum samningum stóð var þess freistað og ég veit að af hálfu iðnrh. var lögð á það þung áhersla að reyna að staðsetja álverið úti á landi. Hins vegar var mat áhættuþátta allt á þann veg að hinir erlendu aðilar töldu hag sínum best borgið með staðsetningu á Keilisnesi, hvort sem metin var fjárfesting eða rekstrarkostnaður, flutningar, öryggi, fólksfjöldi eða aðrir þættir sem þar skipta máli.
    Ég ætla ekki að gera skattamálin hér að umræðuefni. Fjmrh. hefur gert grein fyrir þeim og metið það svo að íslenska þjóðin muni njóta um 20 milljarða skatttekna af álverinu á fyrstu 25 árum samningsins.
        Varðandi umhverfismálin vil ég eingöngu bæta örfáum setningum við það sem umhvrh. hefur sagt. Það álver sem menn eru nú að ræða um verður búið fullkomnustu mengunarvörnum sem um er að ræða að öðru leyti en því að vothreinsun á brennisteinstvíildi verður ekki til staðar. Eigi að síður verður álverið, ef af samningum verður, hannað þannig að auðvelt sé að koma vothreinsun við og gert verður ráð fyrir rými til þess að koma slíkri hreinsun upp. Jafnframt verða bæði í starfsleyfi og samningum ákvæði um það að auðvelt verði að grípa inn í ef aðstæður breytast eða alþjóðasamningar krefjast þess að vothreinsun verði sett upp. Auk þess sem um er að ræða fullkomnustu mengunarvarnir þá verður fylgst með rekstri þessa álvers að mínu viti betur, ég þekki ekki a.m.k. dæmi erlendis frá þar sem slíkar stöðugar mælingar á umhverfisáhrifum verða viðhafðar í jafnríkum mæli og þarna er ráðgert. Meira að segja hafa hinir erlendu aðilar, og rétt er að bæta því við, í samtölum margoft lýst áhuga sínum að efna til samkeppni um það á hvern hátt álverið geti best fallið inn í landið, farið best í landinu, varðandi sjálfan arkitektúrinn, litaval og annað slíkt.
    Orkusamningurinn hefur orðið mjög að umræðuefni eðlilega og þar sýnist e.t.v. sitt hverjum. Sumir telja að áhætta orkusamningsins felist einna mest í því að tengja raforkuverðið við álverð. Þróun álverðs sjá menn ekki nægilega langt fram í tímann og menn velta því fyrir sér hversu því muni reiða af. Á hinn bóginn er rétt að menn geri sér grein fyrir því að með því að tengja orkuverðið við álverð þá tengja menn væntanlega orkuverðið við erlenda verðbólgu og jafnframt að hluta við orkuverð í heiminum. Ef horft er til þess að ál er líklega með orkufrekustu málmum sem framleiddir eru í heiminum er mjög líklegt að með hækkandi orkuverði í heiminum hækki álverð,

enda orkan mjög verulegur hluti af framleiðslukostnaði áls. Með hækkuðu álverði mun orkuverðið til Íslendinga hækka þannig að með þessu fyrirkomulagi er óbein tenging við hækkað orkuverð í heiminum fram undan. Nokkrir hafa orðið til að velta því fyrir sér hvort ekki væri æskilegt að setja þak eða gólf, fyrst og fremst gólf, í þennan samning þannig að orkuverðið geti aldrei farið niður fyrir eitthvert ákveðið mark. Ég hygg að það hafi verið mat flestra þeirra sem að þessum samningum komu að ef menn krefðust þess að fá gólf í þennan samning þá væri líklegt að það yrði að koma þak líka. Þegar horft væri til lengri tíma væri líklegra að við mundum reka okkur á þakið og þakið yrði okkur erfiðara en gólfið. Líkurnar fyrir að rekast á gólfið væru kannski fyrst í byrjun en þegar fram í sækti með aukinni heimsverðbólgu og hækkandi orkuverði í heiminum væru vaxandi líkur fyrir því að þakið héldi orkuverðinu niðri.
    Enn er það svo að erfitt er að spá um framtíðina og svo langt fram í tímann. Hv. 6. þm. Reykv. gerði þróun álverðs nokkuð að umræðuefni hér áðan og velti því fyrir sér hvort álverðið gæti fallið mjög þegar fram í sækti og það tefldi orkusamningnum í hættu. Ekki skal ég segja um það en ljóst er að þeir forstjórar álfélaganna sem nú eru og hafa í hyggju að fjárfesta hér 60 þús. milljónir í þessu álveri og eru atvinnumenn á þessum markaði, virðast meta það svo að þróun álverðs verði á þann hátt að sú fjárfesting sé sæmilega vel trygg. Það kom fram í máli iðnrh. áðan að veigamiklir þættir í orkusamningnum, bæði endurskoðunarákvæði og tryggingar, eru ekki frágengnir. Um það standa umræður enn og ég tek undir með fjmrh. þegar hann sagði að endurskoðunarákvæðið er auðvitað eitt af því mikilvægasta í þessum samningi. Orðalag þess hefur mjög mikið að segja.
    Tryggingarnar sem við þurfum að fá þegar kemur að orkusamningnum eru tvenns konar. Annars vegar nokkurs konar framkvæmdatrygging, þ.e. ef við hefjum byggingar orkuveranna og erum u.þ.b. ári lengur að ljúka þeim en tekur að byggja iðjuverið þurfum við að hafa tryggingu fyrir því þegar verulegar fjárfestingar eru komnar í orkuverin að hinir erlendu aðilar hætti ekki byggingu álversins. Því munu koma inn í þennan samning ákvæði þess efnis að stöðvi hinir erlendu aðilar byggingu álversins á uppbyggingartímanum þá greiði þeir Íslendingum allan þann kostnað sem þeir hafa lagt í við byggingu orkuvera. Það verður væntanlega ótvíræð trygging. Hin tryggingin sem við þurfum að ganga frá eins örugglega og unnt er er kauptryggingin, þ.e. að þessir aðilar skuldbindi sig til að greiða um 90% af forgangsorkunni sem þeir kaupa, hvort sem þeir taka hana eða ekki, í þessi 25 ár. Það er auðvitað gríðarlega mikil trygging fyrir okkur. Með hverjum hætti þeirri tryggingu verður fyrir komið er ekki gott að fullyrða á þessari stundu, það fer eftir uppbyggingu fyrirtækisins og fjármögnun þess og þau atriði eru enn í umræðunni.
    Það er ljóst, og ég hygg raunar að flestir séu sammála um það, að afar mikið er í húfi að vel takist til við þessa samningagerð, að Íslendingar nái góðum

samningum og þeim takist að leiða þetta mál til lykta þannig að álverið rísi hér og stuðli að aukinni hagsæld komandi kynslóðar í landinu á komandi árum. Það er mikið í húfi.
    Ég verð að segja það að mér létti nokkuð við að heyra ræðu málshefjanda hér, hv. 1. þm. Reykv., miðað við þær yfirlýsingar og þau orð sem fallið hafa frá sjálfstæðismönnum um þetta mál að undanförnu þar sem þjóðinni hefur alls ekki verið ljóst hvaða afstöðu sá flokkur í rauninni ætlaði að hafa til álmálsins. Ég dreg þá ályktun af máli hv. 1. þm. Reykv. að Sjálfstfl. ætli að manna sig upp í að standa með málinu, en ég ítreka þá spurningu sem ég flutti hér áðan, að það er nauðsynlegt fyrir bæði þingheim og þjóðina að fá að heyra það frá þeim flokki sem hóf þessa umræðu hvaða afstöðu hann ætlar að hafa. Ég þykist þess fullviss að margir stuðningsmenn Sjálfstfl. muni ekki fyrirgefa honum ef hann ætlar að gera þetta mál, þetta mikla mál að einhvers konar pólitískum skollaleik í stað þess að taka málefnalega á.
    Að lokum aðeins þetta, virðulegi forseti. Þessu máli er engan veginn lokið. Enn er margt sem gæti komið í veg fyrir að samningar næðust. Í fyrsta lagi er samningum ekki lokið. Í öðru lagi er alveg ljóst að þegar þeim er lokið munu hinir erlendu aðilar láta framkvæma að nýju kostnaðarmat og hagkvæmniathuganir sem hugsanlega gætu leitt til tafa við framkvæmdina, samanber samningana um kísilmálmverksmiðjuna á sínum tíma á Reyðarfirði, þar sem samningum var lokið en lokakostnaðaráætlun og hagkvæmniathugun kom í veg fyrir að í framkvæmdina væri ráðist. Jafnframt er ekki séð fyrir endann á fjármögnun þessa mikla fyrirtækis. Þannig er enn talsvert mikið eftir, en ég ítreka þau orð mín að það er afar mikilvægt að Íslendingum takist að standa sæmilega saman um þetta mál og láti ekki innbyrðis óeiningu eyðileggja þennan góða möguleika sem við nú erum með í höndunum.