Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig vert að benda á það út af ummælum hæstv. forseta hér rétt áðan, þar sem komist var svo að orði að menn hefðu virt af miklum drengskap þau tilmæli sem forseti setti hér fram í upphafi umræðunnar, að menn reyndu að tala í stuttu og skýru máli, að síðan kvöldfundur hófst hafa talað þrír stjórnarþingmenn og hafa talað að meðaltali í rúmlega hálfa klukkustund. Miðað við þá tölu þingmanna sem hæstv. forseti sagði að væru á mælendaskrá væru eftir af þessum þingfundi, miðað við svipaðan ræðutíma 4 -- 5 klukkutímar. Og þá veit ég ekki hvernig hæstv. forseti ætlar að ljúka þessari umræðu á þessum degi eins og komist var að orði hér áðan.
    Það sem vekur kannski sérstaka athygli við þessa umræðu er sú umfjöllun sem hefur orðið um staðarval þessarar áformuðu álbræðslu. Og það er afar eftirtektarvert hvernig ráðherrarnir hafa verið að leitast við að skýra það að sú ákvörðun samrýmdist stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég fletti nú hér upp í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar og það er mikil ástæða til þess að vekja athygli á því sem þar stendur og ég ætla að biðja hæstv. iðnrh. að taka vel eftir. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, undir kaflafyrirsögninni ,,Um atvinnumál``:
    ,,Mörkuð verði ný atvinnustefna sem stuðlar að hagvexti og skynsamlegri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Tekið verður fyllsta tillit til byggðasjónarmiða.``
    Það sjá að sjálfsögðu allir að hér er átt við uppbyggingu stóriðju á Íslandi því að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar verða nú ekki nýttar með öðrum hætti en að hægt sé að koma raforkunni til einhverra nota. Hér er talað um að það eigi að stuðla að hagvexti og það eigi að taka fyllsta tillit til byggðasjónarmiða. Það getur þess vegna ekki dulist nokkrum manni að það verður ekki með neinum hætti hægt fyrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að viðurkenna það að staðsetning álversins á Keilisnesi, eins og hún hefur nú verið ákveðin, er ekki í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar voru við myndun núverandi ríkisstjórnar. Og það verður fróðlegt og eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig þeir alþingismenn sem telja sig bera byggðamál fyrir brjósti munu skilja þessa afstöðu. Það liggur reyndar líka fyrir að við myndun ríkisstjórnarinnar hefur mönnum ekki fundist þessi ákvæði nógu skýr og því var það, að sögn forsrh. sjálfs, sem hann gaf þá yfirlýsingu við myndun ríkisstjórnarinnar að ekki yrði lagt fram frv. á Alþingi um þessi efni nema full samstaða væri um það innan ríkisstjórnarinnar og ef myndaðist einhver annar meiri hluti um þessi mál á Alþingi væri komin ný ríkisstjórn.
    Nú er það svo að fyrir liggja alveg skýrar og ótvíræðar yfirlýsingar frá tveimur stjórnarflokkanna um þessi efni. Á síðasta þingi lögðum við sex þingmenn Sjálfstfl. fram tillögu um að næsta stóriðjuveri yrði valinn staður úti á landsbyggðinni. Daginn eftir að tillagan kom hér fram á Alþingi komst hæstv. forsrh. þannig að orði í Morgunblaðinu:
    ,,Fram er komin á Alþingi þingsályktunartillaga frá sjálfstæðismönnum þess efnis að nýtt álver verði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Í okkar þingflokki er nánast einróma afstaða í þá veru. Þingflokkur Framsfl. er nær einróma á þeirri skoðun að það beri að velja álverinu stað úti á landsbyggðinni.`` ( Gripið fram í: Þeir eru fljótir að skipta um skoðun.) Og það má nú þakka fyrir að þeir hafi ekki undirstrikað þetta síðar. Ég heyrði t.d. tvo hv. þm. Framsfl. gefa yfirlýsingu um það austur á Eskifirði, á fundi Sambands sveitarfélaga þar eystra, að ekki kæmi til mála að hafa þetta álver suður á Keilisnesi. Það voru tveir Jónar, hv. þm. Jón Helgason og Jón Kristjánsson. Ég sá ekkert tvöfalt í þeim efnum. Það er nefnilega nokkuð í því sem Alþýðublaðið segir, að hæstv. iðnrh. hafi verið nokkuð einn á báti í þessum efnum. Allar yfirlýsingar Framsfl. hafa gengið þvert á þau vinnubrögð og þá niðurstöðu sem fengist hefur og nú hefur hæstv. samgrh. lýst því yfir að yfirlýsing Alþb., eins og hún birtist í Þjóðviljanum 10. apríl, sé enn í fullu gildi. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á þessu stigi málsins telur þingflokkur Alþýðubandalagsins brýnast að ríkisstjórnin marki þá stefnu að hugsanleg bygging þessa risafyrirtækis stuðli ekki að enn frekari byggðaröskun í landinu og þess vegna verði því valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins.``
    Menn skyldu nú athuga hvað þessar yfirlýsingar eru í miklu samræmi við þá niðurstöðu sem hæstv. iðnrh. hefur fengið í þessu máli og það hlýtur að skýrast hér í þessum umræðum hvenær á annað borð er hægt að taka mark á Framsfl. í svona málum. Maður hefur reyndar orðið ýmiss var í málflutningi hæstv. forsrh. En þegar svona er þvert gengið á yfirlýsingar þingmanna Framsfl. hlýtur hér í þessum umræðum að koma fram skýring á þeim sinnaskiptum sem orðin eru í þeim þingflokki sem samþykkti það, að sögn hæstv. forsrh., að þessu álveri skyldi valinn staður úti á landsbyggðinni. Það hlýtur að koma skýring á því afturhvarfi sem er orðið í þeim þingflokki.
    Það var eftirtektarvert sem kom fram í ræðu formanns eins stjórnarflokksins hér áðan, hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, þar sem hann lýsti því yfir að aldrei hefði verið meiningin að fara með álverið til Reyðarfjarðar eða Eyjafjarðar. Og hann spurði um bætur vegna þess hvernig þau byggðarlög voru leikin af hæstv. iðnrh. í þeim látbragðsleik sem einn stjórnarflokkurinn hefur nú upplýst að hefði verið viðhafður. Hæstv. iðnrh. sagði reyndar sjálfur hér í umræðunum að endanleg ákvörðun hefði ekki verið tekin fyrr en 4. okt. Flokksbróðir hans, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sagði hins vegar frá því í ágústmánuði að búið væri að taka ákvörðunina og honum væri það fullkunnugt.
    Það er út af fyrir sig óþarfi að deila frekar um þessi efni á þessari stundu. Málið kemur væntanlega fyrir Alþingi og það er útilokað annað en að það verði þá upplýst, eftir að öll gögn málsins hafa þar verið yfirfarin, hvað sé hið sanna í þessum efnum því

það er skelfilegt, vægast sagt skelfilegt, ef iðnrh. hefur hagað sér með þeim hætti að vera í þykjustunni að semja eða leita eftir samningum sem væru tengdir byggingu álvers á Reyðarfirði eða í Eyjafirði en hefði síðan ekkert meint með því. Það er skelfileg tilhugsun ef svo er og það er alveg útilokað annað en að það verði nákvæmlega upplýst hvenær hin raunverulega ákvörðun var tekin um þessi efni.
    Vissulega hefur ýmislegt sérkennilegt komið fram í sambandi við umræðu um raforkuverðið. Hæstv. forsrh. talaði um það að það væri sjálfsagt að jafna raforkuverðið í landinu en það gengi náttúrlega ekki að ætlast til þess að Landsvirkjun gerði það. Fjmrh. sagði að þegar væri komið fram á næstu öld, svona eins og einn áratug, væri hagur Landsvirkjunar orðinn með þeim hætti að hún væri búin að greiða upp skuldir, þannig að vandalaust væri með tilliti til þess að jafna orkuverðið. Þessi hæstv. ráðherra er sérstakur snillingur í því að draga greiðslur, færa þær til gjalda inn í framtíðina og það getur vel verið að það sé meining hans með þessum orðum að haga rekstri Landsvirkjunar með þeim hætti að þar söfnuðust upp skuldir en orkuverð gæti aftur á móti orðið lægra. Mér sýnist nefnilega að sá orkuverðssamningur sem fyrir liggur, eða sem fjallað hefur verið um, geri það að verkum að orkuverð hljóti að hækka í landinu.
    Nú liggur það fyrir að á síðustu árum, líklega síðustu fimm til sex árum, hefur raforkuverð hjá Landsvirkjun lækkað um tæplega 40% og þannig yrði þessi þróun áfram að öllu óbreyttu með því að nú kemur brátt að því að þau lán, sem tekin voru þegar álverið í Straumsvík var byggt, verða greidd upp. Hagnaðurinn af því lendir ekki til neytandans heldur auðveldar að gera þessa samninga um nýja álbræðslu. Það er auðvitað samið út frá öllum pakkanum eins og hann liggur fyrir. Eins og málið ber því að er þessi væntanlegi samningur ákvörðun um hækkað raforkuverð til almennra nota í landinu en ekki lækkun. En samt á að jafna orkuverðið. Vill nú ekki hæstv. iðnrh. tala ofurlítið skýrar um þau efni en hinir ráðherrarnir, hæstv. fjmrh. og forsrh., sem sögðu að það ætti að jafna orkuverðið alveg eins og mjólkina og bensínið? Væri ekki gagnlegt ef hæstv. iðnrh. skýrði nú aðeins út hér í þessari umræðu hvað átt er við með þessum ummælum? En hæstv. samgrh. sagði aftur á móti að það mætti alls ekki byggja þetta álver, bara alls ekki, ef það leiddi til hækkaðs orkuverðs í landinu. Það var nú raunar það eina sem var hægt að fá einhverja meiningu um út úr ræðu þess hæstv. ráðherra.
    Ég ætla ekki að fjalla í miklu lengra máli um raforkuverðið en ég bendi hins vegar á að með því að tengja raforkuverðið til væntanlegrar álbræðslu við markaðsverð er áhættunni að sjálfsögðu misjafnlega skipt hér í þessu þjóðfélagi og meira að segja ákaflega misjafnlega skipt því að auðvitað færi hún eftir því hvernig innanlandsneyslan skiptist niður á notendur. Svo ég taki nú dæmi liggur það fyrir að sá notandi sem hitar upp hýbýli sín með raforku notar fjórum sinnum meiri raforku til heimilisnota en sá sem notar hana einungis til almennra nota. Og það vill nú

svo til að það er að stærstum hluta fólkið úti á landsbyggðinni sem þannig er sett að það notar raforku fyrst og fremst til húshitunar. Áhættan er þess vegna fyrst og fremst tekin gagnvart þeim notendum. Mér er kunnugt um, ja, væntanlega fjallar næsti ræðumaður í ítarlegu máli um þessi efni og þar af leiðandi ætla ég ekki að fara lengra út í þá sálma.
    En að lokum vildi ég þá minna á það sem kom fram í ræðu fjmrh. og forsrh. hér fyrr í kvöld þar sem þeir fjölluðu um byggðaáhrifin í þessu samhengi. Það voru höfð um það mörg orð að ekki væri áhætta á árinu 1991 og það væri ekki fyrr en á árunum þar á eftir sem einhver vandi færi hugsanlega að skapast. Hæstv. forsrh. talaði um byggðanefndina í þessu sambandi og taldi að þau nefndarstörf sem þannig færu fram gætu stuðlað að því að reisa einhverjar skorður við þeim áhrifum. Ég á sæti í þeirri nefnd og það er alveg áreiðanlegt að störf hennar þurfa að vera markvissari til þess að þau eigi að geta hamlað á móti þeim gífurlegu áhrifum í byggðamálum sem leiða af því að þessu álveri verði valinn staður hér á suðvesturhorni landsins. Ef menn meina eitthvað með því að það eigi að hamla gegn byggðaáhrifunum, þá hlýtur það auðvitað að koma fram hér á þinginu í vetur af hendi ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að það verði marktækt. Það er alveg áreiðanlegt að fólkið úti á landsbyggðinni skilur og veit hvað við á í þeim efnum.
    Það hefur nú meira að segja heyrst úr stjórnarherbúðunum að til þess að draga úr þensluáhrifum í þjóðfélaginu verði að minnka ýmsar framkvæmdir, m.a. brýnustu byggðaframkvæmdirnar eins og í samgöngumálum, vega - og hafnamálum úti á landsbyggðinni til þess að sporna við þensluáhrifum eins og menn tala um í þessu samhengi. Og fjárlagafrv. sem menn eru nú að taka til við að yfirfara hér á Alþingi styður þessa skoðun því að enn á að höggva í þann knérunn. Mér sýnist þess vegna að það sé beinlínis markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr framkvæmdum úti á landi til þess að draga úr þensluáhrifum. Og hvað skyldi það þýða annað en fólkið leiti þangað sem atvinnuna er að hafa, hér suður á Keilisnes, og það sé hin raunverulega stefna núv. ríkisstjórnar að koma byggðinni hingað suður eftir?