Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú orðið áliðið kvölds og hér hafa orðið langar umræður um þetta mikilvæga mál. Ég mun þess vegna reyna að verða við tilmælum hæstv. forseta um það að stilla máli mínu í hóf. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp eru fyrst og fremst þau ummæli sem hér hafa fallið hjá ýmsum ræðumönnum um aðild Landsvirkjunar að þessu máli, en ég sit í stjórn þess fyrirtækis og því er rétt að ég geri nokkra grein fyrir því eins og það kemur stjórn Landsvirkjunar fyrir sjónir auk þess sem hv. 10. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, gerði afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli nokkuð að umtalsefni og því nauðsynlegt að svara því með nokkrum orðum.
    Ég ætla þó aðeins í upphafi að víkja örlítið að því minnisblaði um samning milli ríkisstjórnar Íslands og þriggja fyrirtækja sem undirritað var með miklum lúðrablæstri hér þann 4. okt. sl. Það höfðu orðið miklar umræður um þetta skjal dagana áður og þær umræður voru einkum á milli aðila ríkisstjórnarinnar, milli einstakra ráðherra og annarra forustumanna ríkisstjórnarflokkanna. Og þar kom fram mjög mismunandi skilningur á efni og mikilvægi þessa skjals. Hæstv. forsrh. kallaði þetta skjal fundargerð. Formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, kallaði þetta skjal sendibréf. Menn þvoðu þannig hendur sínar í gríð og erg af því sem var verið að skrifa undir og þess vegna er einmitt fróðlegt að sjá hvað sjálft skjalið sýnir í þessum efnum og hvaða skuldbindingar eru í því fólgnar. Fyrirsögn skjalsins er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Minnisblað um samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Alumax, Gränges, Hoogovens Aluminium hins vegar`` --- ég sleppi skammstöfunum um form þessara fyrirtækja --- ,,um Atlantsálverið.`` Síðan segir:
    ,,Minnisblað um samning gert í Reykjavík 4. okt. 1990 milli Ríkisstjórnar Íslands, sem iðnrh. kemur fram fyrir.`` Og undirskrift samningsins er af hálfu hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Auðvitað er í þessu skjali fólgin skuldbinding. Við sjáum þegar við lesum efni þess að í því eru ýmis atriði sem hafa í för með sér eða fjalla um efnislega þætti þessara samninga. Það er þess vegna alveg út í hött hjá ráðherrum Alþb., eins og þeir halda fram, að hér sé ekki um neina skuldbindingu að ræða og þeir geti þvegið hendur sínar með einhverri bókun á ríkisstjórnarfundi eða einhverri samþykkt á þingflokksfundi. Slíkt skiptir engu máli. Á meðan viðkomandi ráðherrar sitja allir í ríkisstjórninni bera þeir ábyrgð á þessum gerningum. Það er alveg ljóst. Bæði pólitíska ábyrgð og stjórnarfarslega ábyrgð. Það er í raun og veru kominn tími til að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands átti sig á bæði pólitískri og stjórnarfarslegri ábyrgð sinni og hvernig stjórnkerfi við störfum í. Í mínum huga er það því alveg ljóst að ráðherrar Alþb. bera fulla ábyrgð á efni þessa skjals sem hæstv. iðnrh. ritaði undir þann 4. okt. sl. og einhverjar bókanir eða bréf um eitthvað annað skipta í raun og veru engu máli.

    Ég ætla þá aðeins að víkja að þætti Landsvirkjunar í þessu máli en hæstv. iðnrh. vill nú gera mikið úr þætti Landsvirkjunar í þeirri samningagerð sem þegar hefur verið unnin. Um það vil ég segja að Landsvirkjun hefur ekki átt aðild að samningagerðinni hingað til. Það er að vísu svo að formaður stjórnar Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal, hefur verið í forstöðu fyrir ráðgjafarnefnd iðnrh. Það eru þó engin tengsl þar á milli að því leyti að Jóhannes hefur ekki haft sérstakt umboð stjórnar Landsvirkjunar til að fara með samningsgerð fyrir hennar hönd í þessu máli og reyndar ekki farið fram á það heldur sjálfur. Ég hygg að ástæðan fyrir því að fyrrv. hæstv. iðnrh., Friðrik Sophusson, bað Jóhannes Nordal um að vera formann í samninganefnd um þetta álver og eftirmaður hans, núv. hæstv. iðnrh., gerði slíkt hið sama sé fyrst og fremst sú að Jóhannes Nordal er frábærlega hæfur maður, hefur manna mesta reynslu af samningum um stóriðju á Íslandi og hefur verið í forsvari fyrir alla stærstu samninga sem við höfum gert hingað til á þessu sviði og þess vegna mjög eðlilegt að til hans sé leitað um slíka samningagerð. Menn mega hins vegar ekki blanda því saman við önnur störf hans eins og menn hafa haft tilhneigingu til þess að gera.
    Forstjóri og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar hafa fyrst og fremst verið kallaðir til starfa sem sérfræðingar en ekki sem samningsaðilar eða samningamenn með umboði. Það er alveg rétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að þetta er frábrugðið því sem verið hefur hingað til þegar unnið hefur verið að slíkum samningum. Hæstv. fjmrh. rifjaði upp að 1983 þegar samningaviðræður við Alusuisse fóru fram um endurskoðun á Ísal - samningunum, þá skipaði Landsvirkjun sérstaka samninganefnd af sinni hálfu sem tók þátt í samningafundum þegar um orkuverðssamninginn var að ræða. Sama má reyndar segja um þegar kísilmálmsamningarnir voru á ferðinni á sínum tíma sem þó varð ekkert úr en mikið hafði verið unnið í samningum þegar markaðurinn hrundi ef svo má segja og aðilar drógu sig til baka. Þá var sérstök samninganefnd af hálfu stjórnar Landsvirkjunar sem tók beinan þátt í samningafundum um orkuverðið.
    Í stjórn Landsvirkjunar, og ég tel auðvitað nauðsynlegt að upplýsa það hér, hefur Jóhannes Nordal verið spurður á fundum um efnisatriði samninganna í tímans rás. Hann hefur svarað því til að hann væri bundinn af trúnaði við hæstv. iðnrh. og gæti þess vegna ekki upplýst um það sem hann hafði verið spurður um um efni þessara samninga. Og það skýrist auðvitað líka þegar við áttum okkur á því hvaða form hæstv. iðnrh. kaus að nota við þessa samningagerð.
    Þegar fyrrv. iðnrh., núv. hv. þm. Friðrik Sophusson, skipaði nefnd til viðræðna við Atlantsál þá hét það samninganefnd með umboði til þess að semja og gera samninga fyrir hönd ráðherra, að sjálfsögðu með fyrirvörum eins og venjulegt er um að hann fylgdist með og samþykkti það sem gerðist. Hæstv. iðnrh. kaus að hafa annan hátt á. Hann lagði samninganefndina niður en skipaði það sem hann kallaði ráðgjafarnefnd í staðinn. Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað að hæstv. iðnrh. hugðist sjálfur fara með samningana en hafa ráðgjafarnefnd sér við hlið sem hann gæti notað eftir því sem hann sjálfur kysi til þess að vinna þetta mál fyrir sig.
    Það sem Alþýðublaðið hefur ritað í þessu efni er í fullu samræmi við þann gang mála sem hæstv. ráðherra vafalaust vildi hafa, þ.e. hann gengi einn og óstuddur til þessarar samningagerðar. Ég segi hins vegar fyrir mig að mér finnst það ekki stórmannlegt nú þegar þessi málsmeðferð öll er gagnrýnd að reyna að koma ábyrgðinni yfir á formann ráðgjafarnefndarinnar, Jóhannes Nordal, og að vísa til einhverra innri vandamála í Landsvirkjun, að stjórn Landsvirkjunar hafi ekki fylgst betur með en raun ber vitni. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur mótað stefnuna. Hann hefur sjálfur mótað það hvaða málsmeðferð væri viðhöfð í þessu efni og skammtað hverju ráðgjafar hans, trúnaðarmennirnir, mennirnir í ráðgjafarnefndinni mættu segja frá á hverjum tíma og hverju ekki.
    Það er auðvitað rétt að Landsvirkjunarstjórn, eins og hæstv. ráðherra gat um og dagsetningar í þeim efnum voru réttar í hans ræðu hér áðan, hefur fengið skýrslur sem fyrst og fremst snerta orkuverðið og uppbyggingu þess, en ekki um aðra þætti orkusamninganna. Það kom því mjög á óvart þegar það spurðist að undirrita ætti einhvers konar skuldbindingar um orkuverð þann 4. okt. sl. Þetta var rætt ítarlega í stjórn Landsvirkjunar einmitt þann sama dag, að morgni 4. okt. og það er mjög athyglisvert og það bið ég hv. 10. þm. Reykv. að hlusta vel á vegna þess að hann sagði í sinni ræðu hér áðan að það hefði sett svip sinn á meðhöndlun orkusamningsins að Sjálfstfl. væri í meiri hluta í stjórn Landsvirkjunar. Með öðrum orðum að Sjálfstfl. sem stjórnarandstöðuflokkur væri í meiri hluta í stjórn Landsvirkjunar. Af þessum orðum hv. 10. þm. Reykv. mætti ætla að það hefðu verið sjálfstæðismennirnir, hefðu verið stjórnarandstöðumennirnir sem hefðu haft uppi hvað harðasta gagnrýni í stjórn Landsvirkjunar á þetta mál þegar það var þar til umræðu 4. okt. En það var nú aldeilis ekki. Þeir riðu á vaðið hver á fætur öðrum, fulltrúar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í stjórn Landsvirkjunar þannig að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar vissum nánast ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Þar reið fyrstur á vaðið formaður þingflokks Framsfl., formaður þingflokks hv. þm. og formaður þingflokks hæstv. forsrh., og andmælti því kröftuglega að undir nokkuð yrði ritað fyrir hönd Landsvirkjunar. Og hann lét ekki þar við sitja heldur lagði fram sérstaka bókun áður en við höfðum tækifæri til að tjá okkur á einn eða annan hátt, stjórnarandstaðan, í þessu máli. Sú bókun hefur birst í blöðum og fjölmiðlum en ég tel rétt að kynna hana hér í þessari umræðu. Þetta er sem sagt bókun hv. þm. Páls Péturssonar. Þar segir:
    ,,Í lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, segir m.a. að orkusölusamningar við iðjuver megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið. Þau drög að orkusölusamningi við Atlantsál sem kynnt hafa verið í stjórn Landsvirkjunar tryggja þetta ekki og þarfnast því breytinga. Í samninginn verður að koma ákvæði um endurskoðunarrétt vegna harðræðis (sanngirnissjónarmiða). Ef spár um verðþróun ganga ekki eftir og álverð verður lægra um árabil hlýtur Landsvirkjun að verða að hækka verð til almenningsveitna fremur en stofna fyrirtækinu í voða. Gólf verður að setja í samninginn, annars er áhættan óbærileg. Áður en Landsvirkjun getur samþykkt samning verður að liggja fyrir að traustir erlendir bankar séu reiðubúnir að lána án ábyrgðar frá eignaraðilum út á samninginn það sem kostar að virkja. Mörg önnur atriði þarfnast nánari athugunar. Óhjákvæmilegt er að undirstrika sérstaklega að stjórn Landsvirkjunar hefur ekki samþykkt nein atriði draga að orkusölusamningi. Því hefur iðnrh. enga heimild frá Landsvirkjun til þess að undirrita skuldbindingar hvað varðar orkusölusamning.``
    Þetta var ekki frá sjálfstæðismönnum. Þetta var ekki frá stjórnarandstöðunni hér á þingi. Þetta var frá formanni þingflokks forsrh. Þetta lét hann bóka eftir sér fyrstur manna þegar þetta mál kom til umræðu í stjórn Landsvirkjunar.
    Hverjir voru svo næstir að bóka? Það voru þeir félagar Sigurjón Pétursson og Finnbogi Jónsson, fulltrúar Alþb., fulltrúar eins stjórnarflokksins í stjórn Landsvirkjunar. Og hvað sögðu þeir í sinni bókun:
    ,,Við tökum undir bókun Páls Péturssonar en við óskum jafnframt að eftirfarandi verði fært til bókar: Nú um nokkurn tíma hafa stjórnarmenn Landsvirkjunar haft undir höndum sem trúnaðarmál ýmsar upplýsingar um þann grunn sem samninganefnd um orkufrekan iðnað leggur til grundvallar í viðræðum sínum við Atlantsálshópinn. Þrátt fyrir það að stjórn Landsvirkjunar hefur sáralítið rætt hugsanlegt orkuverð og þó að hún eða fulltrúar í beinu umboði hennar hafi aldrei hitt eða rætt við væntanlegan orkukaupanda virðist nú vera komið að lokum samninga. Auðsjáanlega á að stilla stjórn fyrirtækisins upp andspænis fullgerðum samningi. Ráðherra orkumála hefur boðað að hann muni síðar í dag undirrita samningsdrög varðandi byggingu nýs álvers en ekki einu sinni haft fyrir því að kynna þessi samningsdrög fyrir stjórninni áður en þau eru undirrituð. Í öllum þessum málum hefur þannig verið gróflega gengið fram hjá stjórn Landsvirkjunar nánast eins og henni komi samningsgerðin ekkert við.
    Með þeim hugmyndum sem nú eru á lofti er verið að binda alla bestu virkjunarkosti þjóðarinnar til langs tíma á verði sem er umtalsvert lægra en meðalverð til álvera í hinum vestræna heimi. Veruleg hætta er á því að íslenskir orkunotendur verði í framtíðinni að greiða hærra orkuverð en ella. Þessum vinnubrögðum öllum ber að mótmæla.``
    Þetta var bókun Sigurjóns Péturssonar sem er borgarfulltrúi Alþb. í Reykjavík, eins af stærstu stjórnarflokkunum, og þetta var bókun Finnboga Jónssonar sem er varamaður hæstv. fjmrh. í stjórn Landsvirkjunar. Þetta er maðurinn sem hæstv. fjmrh. hefur sent fyrir sig inn í stjórn Landsvirkjunar meðan hann gegnir embætti fjmrh. og hann lét bóka þetta eftir sér þegar þetta mál kom fyrst til umræðu í stjórn Landsvirkjunar. Þegar þetta bókunarflóð hafði gengið yfir var það nú svo að okkur sjálfstæðismönnum var eiginlega nóg boðið og við létum ekkert bóka, töldum eiginlega nægilega gert á þessum fundi, töldum eðlilegt að staldrað yrði við og skoðað hvað raunverulega væri að gerast. Hvort væri verið að gera einhverja samninga í nafni Landsvirkjunar eða í nafni hæstv. ríkisstjórnar. Öll viðbrögð manna á þessum fundi báru það með sér að ekki væri verið að gera neina samninga í umboði hæstv. ríkisstjórnar. Þar væri hæstv. iðnrh. einn að verki. Enda fór það svo að 4. okt. var ekki undirritað neitt sem hafði í för með sér neinar skuldbindingar um orkusölusamning heldur fyrst og fremst almenn lýsing á því hvað rætt hefði verið og hvað menn hefðu gert í því sambandi.
    Í málflutningi sínum hefur hæstv. ráðherra lagt áherslu á það að stjórn Landsvirkjunar hafi fylgst með samningagerðinni og því til sönnunar bent á samþykktir stjórnar Landsvirkjunar frá því í sumar þegar samþykkt var að fara í framkvæmdir upp á 300 millj. kr. í samræmi við lögin sem samþykkt voru hér á sl. vori um breytingar á lögum um raforku. Þetta er afar óheppilegt dæmi hjá hæstv. ráðherra vegna þess að það sem gerðist í stjórn Landsvirkjunar þá var einmitt hið gagnstæða. Stjórn Landsvirkjunar treysti sér ekki til að leggja neitt mat á stöðu samningaviðræðnanna og vísaði því máli þess vegna til ríkisstjórnarinnar. Í bráðabirgðaákvæði í lögunum um raforkuver er gert ráð fyrir því að það sé heimild fyrir stjórn Landsvirkjunar að leggja í framkvæmdir upp á 300 millj. á þessu ári að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar og í greinargerð með þeim lögum er vísað til þess að þessa ákvörðun eigi að taka í ljósi framvindu samninga um álver á vegum Atlantsálshópsins.
    Þann 4. júlí ritaði hæstv. iðnrh. Landsvirkjun bréf þar sem fylgdi bréf og greinargerð ráðgjafarnefndar og álit og tillögur hennar, að rétt sé að hefja þessi verk í sumar og veitt verði heimild til lántöku þeirra vegna. Á grundvelli þessa álits taldi ráðuneytið að náðst hefði sá áfangi í samningaviðræðunum að eðlilegt væri að hefja nú þann virkjanaundirbúning sem Landsvirkjun teldi að nauðsynlegt væri að ráðast í á þessu ári til þess að unnt verði að standa við afhendingu orku til nýs álvers á árinu 1994. Óskað er eftir afstöðu Landsvirkjunar í þessu máli sem fyrst. Þetta bréf var síðan rætt strax daginn eftir á fundi Landsvirkjunar þann 5. júlí og það kemur glögglega fram í þeirri fundargerð að stjórnarmenn Landsvirkjunar töldu sig ekki hafa skilyrði til að meta stöðu samninganna, þeir hefðu ekki fengið þær upplýsingar sem þyrfti og þess vegna var samþykkt tillaga sem vísar því mati til ríkisstjórnarinnar. Og það var samþykkt svofelld tillaga: ,,Stjórn Landsvirkjunar hefur á fundi sínum í dag rætt bréf iðnrn. dags. 4. júlí 1990 um undirbúning virkjanaframkvæmda vegna fyrirhugaðs nýs áfanga við nýtingu fallvatna landsins til stóriðju með byggingu nýrrar álverksmiðju. Stjórn Landsvirkjunar telur að tæknilega og fjárhagslega sé ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í þær framkvæmdir sem um er fjallað í bréfi ráðuneytisins. Með vísan til laga nr. 74 frá 18. maí 1990, sérstaklega bráðabirgðaákvæðis laganna undir staflið tvö, leitar stjórn Landsvirkjunar eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar, hvort fyrir liggi samþykki hennar til að verja allt að 300 millj. kr. í ár til undirbúnings framkvæmda við umræddar virkjanir og hvort Landsvirkjun megi taka þá fjárhæð að láni eða jafnvirði hennar í erlendri mynt.``
    Ef fundargerðin er frekar lesin kemur þetta glögglega fram --- ég vitna t.d. í það sem ég sagði á þessum fundi og bókað er eftir mér: ,,Birgir Ísl. Gunnarsson taldi að ríkið hefði forræði þessara samninga og það væri þess að meta samningsstöðuna.``
    Og það var auðvitað ástæðan fyrir því að gripið var þannig á þessu máli á þessum fundi að stjórn Landsvirkjunar hafði enga aðstöðu þá til þess að meta í hvaða stöðu samningarnir væru og vildi alfarið vísa því mati á hendur ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin lagði síðan mat á þetta og hæstv. ráðherra sendi svo bréf aftur 17. júlí þar sem fram kom að, svo ég vitni orðrétt í bréfið: ,,Ráðuneytið telur að sá árangur hafi orðið í viðræðum um nýtt álver á samningafundum með Atlantsálsaðilunum í lok júní sl. að eðlilegt sé að hefja þegar þann undirbúning sem Landsvirkjun telur nauðsynlegan á þessu ári til þess að unnt verði að afhenda nýju álveri orku á árinu 1994."
    Þegar þetta mat lá fyrir samþykkti stjórn Landsvirkjunar að leggja í þessa framkvæmd.
    Þetta er auðvitað nauðsynlegt að rifja upp í tilefni af þessari umræðu hér allri.
    Á síðasta fundi Landsvirkjunar, þann 11. okt., þ.e. sl. fimmtudag var samþykkt ályktun sem mér finnst líka rétt að kynna hér í þessari umræðu þó hún hafi birst í fjölmiðlum, en þar segir: ,,Eins og margoft hefur komið fram er ríkur vilji fyrir því í stjórn Landsvirkjunar að unnið sé að því að orka fallvatna landsins nýtist til uppbyggingar stóriðju á Íslandi. Því hafa stjórnarmenn Landsvirkjunar fagnað þeim áhuga sem erlend stóriðjufyrirtæki hafa sýnt á því að reisa hér álbræðslu sem keypti orku sína af Landsvirkjun.
    Gefið hefur verið til kynna að ráðgjafarnefnd á vegum iðnrh. hafi þegar lokið samningum um öll meginatriði samninga sem gera þurfi svo hefjast megi handa um virkjunarframkvæmdir og byggingu verksmiðju. Í ljós hefur komið að meginatriði slíkrar samningsgerðar, orkusölusamningur, er miklu skemur á veg kominn en haldið hefur verið að almenningi. Ljóst er að slíkur málatilbúnaður og opinber umræða af því tagi sem í kjölfarið hefur fylgt hefur veikt samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart hinum erlendu viðsemjendum nú þegar málið er loks komið í hendur þess aðila sem með orkusamninginn á að fara, þ.e. stjórnar Landsvirkjunar.
    Stjórn Landsvirkjunar voru fyrst á fundi í dag formlega kynnt drög að orkusamningi þótt ljóst sé að margvísleg slík gögn hafi þegar gengið á milli aðila. Óhjákvæmilegt er að stjórnin kynni sér rækilega þessar upplýsingar og um leið nýjar álitsgerðir sem hún hefur falið starfsmönnum fyrirtækisins að vinna í

hennar hendur. Í framhaldi af því mun stjórn Landsvirkjunar ákveða næstu skref af sinni hálfu í þágu málsins í þeirri þröngu stöðu sem henni hefur verið komið í af hálfu ráðuneytisins.``
    Þessi tillaga var samþykkt af öllum stjórnarmönnum Landsvirkjunar en eðlilega sat stjórnarformaður þó hjá, Jóhannes Nordal, vegna forsögu málsins. Og ég vek athygli á því að formaður þingflokks Framsfl. samþykkti þessa tillögu og fannst kannski ekki nógu langt gengið í þessari tillögu. Þannig að auðvitað verður að vísa því til föðurhúsanna þegar hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er að velkjast í einhverjum vafa um afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig: Hver er afstaða Framsfl. í þessu máli? Hver er afstaða forustuflokksins í ríkisstjórninni í þessu máli? þegar við lesum allar þær vangaveltur og efasemdir sem forustumenn Framsfl. eru að láta frá sér fara um þetta mál. Ég skal t.d. vitna í Dag á Akureyri frá 4. okt. sl. Þar segir einn af hæstv. ráðherrum Framsfl., Guðmundur Bjarnason: ,,Ég hef sagt að ég hefði enn algjörlega óbundnar hendur um það hvernig mitt atkvæði félli í þessu máli. Ég tel að ríkisstjórnin verði að setja fram einhvers konar áætlun og mat á því óhagræði sem hlýst af því að efna hér til þenslusprengingar og byggðaröskunar.`` Þetta er eftir honum haft í blaðinu og reyndar fleiri atriði sem ég vil ekki eyða tíma manna í að lesa hér upp. Það er því auðvitað alveg ljóst að þetta mál innan hæstv. ríkisstjórnar er allt í skötulíki. Og raunverulega útilokað að henda reiður á því hver verður niðurstaða málsins innan ríkisstjórnarinnar ef reyna á að lesa eitthvað út úr þeim gagnstæðu yfirlýsingum sem ekki bara hinir almennu þingmenn heldur forustumenn í þessum flokkum, sjálfir ráðherrarnir, láta frá sér fara á opinberum vettvangi.
    Áður en ég skil við Landsvirkjun er rétt að geta þess að ég tel nauðsynlegt að næstu skref verði nú þau að stjórn Landsvirkjunar skipi af sinni hálfu nefnd til þess að hafa samningsumboð fyrir hennar hönd til þess að ræða við þá aðila sem hér eru samningsaðilar við okkur og sem mun þá væntanlega starfa jafnframt með þeim aðilum sem hæstv. iðnrh. hefur kvatt sér til ráðuneytis í þessu máli, ekki til samningagerðar heldur til ráðuneytis, eins og hann hefur sjálfur kosið að orða það.
    Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson spurði um afstöðu Sjálfstfl. Ég ætla að svara honum með nokkrum orðum um það efni sérstaklega áður en ég lýk máli mínu.
    Stefna Sjálfstfl. í stóriðjumálum er skýr og ljós. Sjálfstfl. hefur talið að orkufrekur iðnaður væri einn af þeim möguleikum sem við ættum að kappkosta að nýta. Og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn fagnað áhuga Atlantsálshópsins á byggingu álvers hér á landi og við höfum viljað greiða fyrir því máli eins og kostur er. Ég nefni sem dæmi um það að við samþykktum frv. um raforkuverð á sl. vori og greiddum sérstaklega fyrir því að það mál fengi hraða afgreiðslu hér í þinginu.
    Varðandi það álver sem hér er verið að fjalla um

nú, þá mun Sjálfstfl. vafalaust styðja ákvarðanir um byggingu nýs álvers ef samningar um það verða aðgengilegir. Ég vek athygli á að Sjálfstfl. á ekki á neinn hátt aðild að þessari samningagerð og því hljótum við að hafa þennan fyrirvara á okkar afstöðu, sem ég gat um, við höfum ekki séð þessa samninga, við höfum nú séð uppkast af samningi um orkuverðið en við höfum ekki séð aðra samninga sem um er að ræða.
    Innan Sjálfstfl. eru auðvitað skiptar skoðanir um staðsetningarmálin eins og í öllum öðrum flokkum og ég efast ekkert um að sumir þingmenn flokksins muni fjalla um það sérstaklega hér í þessum umræðum, en við höfum óneitanlega staldrað við í þessu máli upp á síðkastið og ástæðan er auðvitað afstaða einstakra forustumanna sjálfrar ríkisstjórnarinnar í málinu og ég skal ekki rifja frekar upp það sem ég hef um það sagt í þessari umræðu.
    Ég skal af gefnu tilefni frá hv. 10. þm. Reykv. fullvissa hann um --- ég bið hann að hlusta á mál mitt, ég skal bíða þangað til hann hefur lokið samtali sínu --- ég skal fullvissa hv. 10. þm. Reykv. um það að Sjálfstfl. mun taka málefnalega afstöðu til þessa máls, til frv. sem verður flutt hér á þessu haustþingi, til þessara samninga í heild og hann mun ekki láta afstöðu Alþb. hafa nein áhrif á sig í þeim efnum. Það vil ég að sé alveg skýrt af gefnu tilefni frá hv. þm.
    Við höfum hins vegar talið það og ekkert farið leynt með það að við teljum að þessi ríkisstjórn sé ófær um að koma málinu í höfn og þess vegna væri það heppilegast fyrir framgang þessa mikilvæga máls að þessi sundurþykka ríkisstjórn færi frá og þæfði þetta mál ekki lengur á milli sín og kæmi því í þá óvissu sem því hefur verið stefnt í með þessum ólíku yfirlýsingum hæstv. ráðherra.