Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það er orðið áliðið nætur. Hér hafa fimm ráðherrar talað við þessa umræðu. Einn ráðherra hefur spurt annan hvað hann hyggist fyrir í þessu máli. Einn ráðherra hefur talað gagnstætt fullyrðingum annars, eins og ég mun víkja að. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að hæstv. landbrh. er ekki staddur hér í salnum en hvort tveggja var að hann gaf yfirlýsingar gagnstæðar því sem hæstv. iðnrh. hafði áður gefið, jafnframt því sem hann hafði beint ýmsum spurningum til hæstv. umhvrh. Ég hefði því talið eðlilegt að hann væri kvaddur til þessarar umræðu. Nú sé ég að útbýtt hefur verið í dag skýrslu iðnrh. til Alþingis um stöðu samninga um nýtt álver. Það er venja, hæstv. forseti, að um slíka skýrslu sé rætt í sameinuðu Alþingi og ég mun ekki óska eftir því að hæstv. landbrh. komi hér í nótt þar sem ég þykist vita að þessi skýrsla verði rædd á fimmtudag í sameinuðu þingi, er ekki svo? ( Forseti: Sem svar við spurningu hv. 2. þm. Norðurl. e. skal það upplýst að eins og hann hefur tekið eftir var þessari skýrslu hæstv. iðnrh. dreift sl. fimmtudag. Engin ósk kom fram um að hún yrði tekin á dagskrá, en þessi utandagskrárumræða var leyfð. Það er ljóst að þetta mál á auðvitað eftir að koma aftur til kasta þingsins vegna þess að fyrr eða síðar verður lagt fram frv. þannig að engin hætta er á að þetta mál verði ekki rætt áfram hér á hinu háa Alþingi.) Hæstv. forseti. Það þarf ekki að kalla á hæstv. iðnrh. til að spyrja hann að því hvort venja sé að skýrsla um svo mikilsvert mál sé rædd í sameinuðu þingi. Það er auðvitað öldungis ljóst að fyrir því er meira en venja, það hygg ég að sé gert algjörlega undantekningalaust þegar um svo viðurhlutamikið mál er að ræða og kemur auðvitað ekki til greina að hæstv. iðnrh. geti dengt skýrslum inn á Alþingi án þess að einstökum þingmönnum gefist tækifæri til að hreyfa andmælum. Ég tala nú ekki um þegar í skýrslunum eru fullyrðingar sem yfirlýst er að öll ríkisstjórnin stendur ekki á bak við. Ég vil þess vegna ítreka, hæstv. forseti, úr því að samkomulag er um það milli hæstv. forseta og hæstv. iðnrh. að þessi skýrsla fáist ekki rædd hér á Alþingi, að ég óska eftir því að þeir nafnarnir, hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og hæstv. landbrh. Steingrímur Sigfússon, verði kallaðir hér til þessarar umræðu til þess að hægt sé að fá nánari upplýsingar um sitthvað það sem fram hefur komið hér í þessum umræðum í dag og varðar þá umræðu utan dagskrár sem hv. 1. þm. Reykv. efndi til, kemur beint inn á ræðu hæstv. iðnrh. sem var öðrum þræði greinargerð fyrir þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Ég skal ekki gera athugasemdir við það þótt hæstv. fjmrh. sé ekki við umræðuna þar sem að minni hyggju kom ekkert það fram í máli hans sem þarfnast frekari skýringa nú þegar við ræðum annars vegar um álmálið í heild sinni og hins vegar um skýrslu hæstv. iðnrh. Ég óska eftir því að það verði gert hlé á þessum fundi meðan náð er í hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. ( Forseti : Forseti telur ekki ástæðu til þess að sækja hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh., einkum þar sem forseta er kunnugt um að hvorugur þeirra getur verið hér nú. Ég vil benda hv. 2. þm. Norðurl. e. á það að þeir sem ætluðu að taka þátt í þessari umræðu hljóta að hafa lesið skýrslu hæstv. iðnrh. þannig að í raun og veru hefur hún verið til umræðu í dag. Hæstv. ráðherra hafði ekki óskað eftir því sérstaklega að mæla fyrir þessari skýrslu eða taka hana á dagskrá þar sem vitað var að þessi umræða færi fram í dag. Þannig standa mál. Verði þess óskað að skýrsla hæstv. iðnrh. komi á dagskrá verður auðvitað við því orðið. En forseti hafði talið að sú skýrsla væri hér meira og minna til umræðu í dag, en það kann að vera misskilningur. En ég verð að mótmæla því að ástæða sé til að sækja þessa tvo hæstv. ráðherra. Hér eru staddir á fundinum hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. og það er vægast sagt undarlegt ef þeir tveir hæstv. ráðherrar eru ekki menn til að svara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í þessu máli.)
    Mér þykir afskaplega leiðinlegt að hæstv. forseti skuli enn einu sinni gera sig seka um það að vera ekki forseti alls þingsins. Það er auðvitað ekki spurning um það hvort ráðherrar kjósi að ræða þessa skýrslu. Spurningin stendur ekki um það. Hæstv. ráðherra ber að gera þinginu grein fyrir skýrslunni. Það er auðvitað öldungis ljóst þegar um svo viðurhlutamikið mál er að ræða sem það sem við fjöllum um nú að hinir óbreyttu þingmenn eiga kröfu til þess að fá skýr svör við því hvernig þetta mál stendur í ríkisstjórninni, hvort það sé rétt sem hæstv. landbrh. sagði áðan að ákvörðun um staðsetningu álvers hefði ekki verið tekin í ríkisstjórninni. Á hinn bóginn lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að slík ákvörðun hefði verið tekin. Það stæði í þeirri skýrslu sem lögð hefði verið fram að ákvörðun hefði verið tekin um staðsetningu. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forseti láti þingið njóta jafnræðis í þessu máli.
    Það kann á hinn bóginn að verða skemmtileg byrjun á þessu þinghaldi að hæstv. iðnrh. skuli í skjóli forseta fara hér með miklum yfirgangi í máli sem hann ræður ekki við í ríkisstjórninni, í máli sem hann hefur leikið sér þannig að við þjóðina að einsdæmi er og eftirtekt hefur vakið í öllum stjórnmálaflokkum. Sú mikla lausung sem frá upphafi hefur fylgt því að ákveða hvar nýju álveri skuli valinn staður, sá mikli uppboðsmarkaður sem efnt var til fyrir þjóðina alla, fyrir alla landshluta þar sem einu sveitarfélagi var att gegn öðru. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að fyrir liggur nú að hæstv. iðnrh. sagði ósatt, t.d. þegar hann kom á fund Fjórðungssambands Norðlendinga í ofanverðum ágústmánuði og lýsti því þá yfir, og það er allt til skráð frá orði til orðs í fundargerðum Fjórðungsþings Norðlendinga þar sem ræður manna eru teknar orðrétt upp, að á þeim tíma lægi ekkert fyrir um það hvort álver mundi fremur koma á Keilisnesi, Reyðarfirði eða við Eyjafjörð. Það væri ekki þvílíkur munur ef rætt væri um byggingarkostnað, umhverfismál, rekstrarkostnað eða neitt annað þvílíkt sem gæti bent til þess á þeirri stundu að ástæða væri til að slá því föstu að einn staður yrði sérstaklega tekinn fram yfir af hinum erlendu viðsemjendum okkar þannig að þær hugmyndir sem við Íslendingar kynnum að hafa skiptu ekki máli í því sambandi. Ég spurði þá hæstv. iðnrh. hvort það væri í hans huga aðeins pólitísk ákvörðun hvort álverinu yrði valinn staður á Keilisnesi, Dysnesi eða við Reyðarfjörð eins og ummæli hans höfðu fallið. Þá kom auðvitað í ljós að hæstv. iðnrh. treysti sér ekki til þess að jánka því. Áður höfðum við þingmenn Norðurl. e. fyrir mitt frumkvæði óskað eftir því við hæstv. ráðherra að fá á okkar fund fulltrúa hans til þess að við gætum fengið um það sannar fregnir hvernig álmálið stæði, hvort Eyjafjörður væri enn inni í myndinni, hvort Reyðarfjörður væri enn inni í myndinni eða hvort ákvörðun hefði verið tekin um það af hinum erlendu viðsemjendum að álverinu skyldi valinn staður á Keilisnesi. Á þeim fundi lýsti Jóhannes Nordal því yfir að Reyðarfjörður væri ekki lengur inni í myndinni, eins og fram kom á fundi Fjórðungssambands Norðlendinga hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Þannig vissum við þingmenn Norðurl. e. á Fjórðungsþingi Norðlendinga að annar hvor hafði sagt okkur ósatt, formaður ráðgjafarnefndarinnar eða sá sem hann starfaði fyrir, hæstv. iðnrh.
    Nú er óhjákvæmilegt, ekki aðeins vegna þess kostnaðar sem einstök sveitarfélög hafa orðið fyrir, ekki aðeins vegna þess að ýmsir menn hafa verið hafðir að háði og spotti, ekki aðeins vegna þess að ýmsir menn úti á landi hafa látið --- ja, hvað á ég að segja, hafa svona dokað við, beðið með að taka miklar ákvarðanir þangað til í ljós kæmi hvernig með álverið færi, ekki aðeins vegna alls þessa, heldur líka vegna hins sem ég veit að hæstv. forseti tekur undir. Ef alþingismenn óska eftir því að eiga fund með fulltrúum ráðherra til þess að fá sannar fregnir af því hvernig milliríkjasamningur stendur, hvernig samningar um staðarval standa, er auðvitað með öllu óverjandi að iðnrh. sendi menn til þess að gefa rangar upplýsingar, algerlega óverjandi.
    Nú liggur það fyrir í blöðum í viðtölum við hæstv. iðnrh. frá því í september að hljóðið hefur pínulítið breyst frá einum degi til annars. Og nú er svo komið að hann segir sjálfur að staðurinn sé Keilisnes vegna þess að hinir erlendu viðsemjendur hafi tekið af skarið um það og staðarvalið af þeim sökum sé ekki á valdi okkar Íslendinga. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. iðnrh. gefi yfirlýsingu um hvenær hinir erlendu viðsemjendur gáfu hið einarða svar um það að Eyjafjörður og Reyðarfjörður kæmu ekki til greina. Hvenær kom svarið og hvernig? Hver var aðdragandi þess? Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem ég hygg að sé í ráðgjafarnefnd um stóriðju, varð fyrstur til að lýsa því yfir að hæstv. iðnrh. hafi farið með ósannindi, sagðist ekki geta þagað lengur. Það er eftirtektarvert að einstakir ráðherrar, einstakir þingmenn Framsfl. og jafnvel iðnrh. sjálfur tóku því fegins hendi að þessi þingmaður Framsfl. hér í Reykjavík skyldi loksins hafa kveðið upp úr um það hvernig málin stæðu, Guðmundur G. Þórarinsson. Það voru ekki þeir menn sem iðnrh. sendi á fund þingmanna, það var ekki iðnrh. sjálfur á fundi með Norðlendingum, vitneskjan barst ekki þannig, heldur barst vitneskjan þannig að einn af þingmönnum Framsfl. stóðst ekki mátið. Honum ofbauð leikaraskapurinn og tók þá ákvörðun að lýsa því yfir opinberlega að þjóðin hefði verið höfð að háði og spotti. Það er satt að segja hálfbroslegt í ljósi þessara staðreynda að sjá hvern þingmann Framsfl. á fætur öðrum, jafnvel þingmenn sem hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn stóriðju ef álverið komi við Keilisnes, að þeir séu í einhverjum vafa um það hver stefna Sjálfstfl. er í málinu, spyrji mjög mikið hvar Sjálfstfl. standi eins og það sé einhver vafi um það í hugum þeirra sem þekkja söguna, málflutning sjálfstæðismanna, lífsskoðanir og skoðanir hvernig Sjálfstfl. vill standa að því að nýta auðlindir þessa lands. Það veit hvert einasta landsbarn að Sjálfstfl. hefur frá öndverðu haft forustu um það að virkja fallvötnin, nýta orku landsins til mikilla hluta í anda Einars Benediktssonar eins og Búrfellsvirkjun er náttúrlega lifandi dæmi um. Mig minnir að Framsfl. hafi verið mjög hræddur við það mannvirki. Mig minnir líka að Framsfl. hafi verið óskaplega hræddur við Kísiliðjuna við Mývatn. Mig minnir að Framsfl. sé skíthræddur við það að millilandaflugvöllur komi hér sem rísi undir nafni, enda má heyra á einstökum framsóknarmönnum líka í sambandi við álmálið nú að þeir eru að sumu leyti í gömlu brókunum og hafa ekki áttað sig á því að þeim hefur verið sagt að hafa pólitísk fataskipti.
    Hæstv. forsrh. sagði þegar hann var hér að það væri mikilvægt að okkur tækist að ljúka samningum greitt og farsællega. Hann talaði um að ákvörðun yrði að hafa verið tekin eða heimildarlög um álver yrðu að liggja fyrir fyrir áramót. Hann minntist ekki einu einasta orði á það, hæstv. forseti, hvernig þetta mál stæði í ríkisstjórn, ekki einu einasta orði. Hann minntist ekki einu einasta orði á það hvernig þetta mál stæði í Framsfl., ekki á það hvaða skoðanir hv. 1. þm. Norðurl. v., þingflokksformaður Framsfl., hefði á málinu. Og hann minntist ekki heldur á það sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, 10. þm. Reykv., sagði sem er í ráðgjafarnefndinni hjá hæstv. iðnrh. Hann tók það sérstaklega fram að það væri talsvert mikið eftir enn og margt sem gæti komið í veg fyrir að samningar tækjust. Báðir þessir framsóknarmenn og kannski fleiri lögðu áherslu á það að formlega séð væri það Landsvirkjun sem ætti að semja um raforkuverðið. Ég held nú að Guðmundur hafi sagt álverðið en þeir meintu auðvitað raforkuverðið, bæði formaður flokksins og fulltrúi flokksins í Reykjavík og þykir framsóknarmönnum auðvitað gott ef þeir geta komið einhverri ábyrgð yfir á aðra svona í leiðinni. Mig minnir að fyrrv. formaður Framsfl. hafi sagt að Framsfl. væri miðjuflokkur. Hann er eftirtektarsamur maður, iðnrh., og veitti því athygli að þessum formanni veittist það bara létt að smokra sér undan með því bara að vera miðjuflokkur. Þá munar ekki um að vinna með einum í dag og öðrum á morgun, framsóknarmenn og krata, og þykir létt að velta sér til þannig að þeir geti smokrað sér undan því að bera alla

ábyrgðina, a.m.k. ef þeir halda að eitthvað sé í áhættunni. Og þess vegna er núna alltaf verið að tala um að einhverjir aðrir en ríkisstjórnin eigi að taka af skarið í álmálinu. Óbreyttir þingmenn sem hér taka til máls gera ekki jafnmiklar kröfur og fjölskylda Alþfl. gerði þegar hún heimtaði að formaður og varaformaður flokksins sættust. Það væri gott að rífast annað slagið, láta gusta svolítið af sér en ætluðust til þess að það næðust þó málefnalegar sættir, einhver niðurstaða. Hinir óbreyttu þingmenn ríkisstjórnarinnar ætlast ekki til málefnalegrar niðurstöðu af sinni ríkisstjórn í þessu máli, ekki heldur iðnrh. Þess vegna getur hæstv. landbrh. komið hér upp á eftir iðnrh. og forsrh. og sagt að þetta sé að og þetta sé að og þetta sé að og þetta sé að og látið eins og álmálið sé alls ekki ákveðið í ríkisstjórninni. Þó svo að annar ráðherrann í mínu kjördæmi, Guðmundur Bjarnason, segi að það eina sem ákveðið sé í álmálinu sé staðurinn segir um leið hinn ráðherrann, Steingrímur Sigfússon, að engin ákvörðun hafi verið tekin um það í ríkisstjórninni hvar álverið muni rísa. Og framsóknarmaðurinn, hæstv. sjútvrh., tekur skýrt fram í leiðara fyrir sínu blaði að Alþingi geti vel gripið inn í og hafnað heimildarlögum um nýtt álver á þeim grundvelli að þingmenn séu ekki ánægðir með staðarvalið. Með því gefur hann í skyn að hann kunni að vera reiðubúinn til þess að láta á þetta reyna.
    Allur þessi efi og allur þessi vafi sem er í ríkisstjórninni veldur því ekki að hæstv. forseti sjái ástæðu til þess að ræða skýrslu iðnrh. til Alþingis um stöðu samninga um nýtt álver. Þó hér við umræðurnar komi misvísandi upplýsingar frá einstökum ráðherrum kemur bara iðnrh. og hvíslar því í eyra hæstv. forseta að það sé ástæðulaust að ræða þetta í þinginu. Það sé engin ástæða til þess. Þetta sé bara prívatmál ríkisstjórnarinnar og kannski ókurteisi af stjórnarandstöðunni að fara fram á það að fá eitthvað að vita um það hvernig álmálið stendur í ríkisstjórninni. Þó er búið að lýsa því yfir af forsrh. að heimildarlög verði að fást staðfest fyrir áramót. Og þó liggur það fyrir að nk. mánudag á að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í opinberri almennri umræðu héðan frá Alþingi. Ætlar svo ríkisstjórnin að heykjast á því að einstakir þingmenn geti fengið botn í þetta mál áður? Þegar hefur hæstv. forseti neitað að kalla til hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh. Hæstv. forseti hefur fallist á beiðni hæstv. iðnrh. um það að skýrslan verði ekki tekin á dagskrá í fyrirsjáanlegri framtíð og helst aldrei. Þessu hvoru tveggja mótmæli ég. Þetta er óþinglegt, þetta er yfirgangur, þetta er ekki gæfulegt fyrir það þinghald sem nú er að byrja. Lýsir kannski ástandinu í þeirri fjölskyldu sem ríkisstjórnin er. ( Forseti: Má ég biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að gefa mér kost á að leiðrétta missagnir sem fram hafa komið hér í ræðu hans. Forseti hefur aldrei hafnað því að skýrsla hæstv. iðnrh. kæmi á dagskrá.) Jæja. ( Forseti: Hann hefur ekki óskað eftir að hún kæmi á dagskrá.) Ég gerði það víst. ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að í 29. gr. þingskapalaga segir: ,,Ef ráðherra óskar skal skýrslan tekin til umræðu. Sama gildir ef níu þingmenn óska

þess.`` Það hafa níu þingmenn ekki gert svo forseti hefur ekki haft neina ástæðu til að taka þessa skýrslu á dagskrá, auk þess sem hún kom út þegar búið var að lofa að ræða þetta mál utan dagskrár. Forseti hlýtur að mótmæla ásökunum um að iðnrh. geri hér hitt og þetta í skjóli forseta. Hv. þm. hefur talað um að allir þingmenn eigi jafnan rétt. Forseti hefur á engan hátt í allri þessari löngu umræðu gengið á nokkurs manns rétt og hlýtur að mótmæla slíkum ásökunum.)
    Það er gömul venja þegar fyrirspurn er beint til einstakra ráðherra að ætlast sé til þess að sá maður sem fyrirspurninni beinir til viðkomandi ráðherra fái tækifæri til andsvara. Hins vegar er það strax í áttina að það skuli upplýst að hæstv. iðnrh. skuli hafa gefið yfirlýsingu um það að hann óski ekki eftir að ræða um skýrsluna. Ég hygg að það verði vandalaust að fá tilskilinn fjölda þingmanna til þess að biðja um að sú umræða fari fram úr því að það er niðurstaða forseta og ráðherra að svo verði gert. Ég hélt á hinn bóginn að það mundi vera svigrúm til að ræða þessa skýrslu nú á fimmtudaginn og hafði vænst þess að svo yrði.
    Ég skil mjög vel, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. skuli hafa verulegar áhyggjur af atvinnuleysi á komandi árum. Og ég skil líka mjög vel að hv. 5. þm. Norðurl. e. skuli hafa áhyggjur af stöðu járnsmíðaiðnaðarins á Akureyri og yfirleitt áhyggjur af því alvarlega atvinnuástandi sem er í hennar kjördæmi. Ég veit ekki hvort ég á að minna hv. 5. þm. Norðurl. e. á að hæstv. forsrh. hafði um það orð að það væri þegar komið í nefnd hvernig ætti að bregðast við úti á landi eftir að byrjað væri á álverinu hér á Suðvesturlandi. Hann talaði líka um byggðanefndina sem ætlaði að gera svo mikið og svo mikið og fundur var um uppi í Borgarnesi um daginn. En það var greinilegt af því sem þeir sögðu þingmenn Framsfl., bæði hv. 5. þm. Norðurl. e. og 3. þm. Austurl., að þeir höfðu næsta litlar hugmyndir um byggðanefnd forsrh. og gerðu sér grein fyrir því að það er ekki glæsilegt ástandið fram undan. Ég man ekki hversu mörgum hefur verið sagt upp í einum þremur fyrirtækjum á Akureyri. Ef ég tel þá upp þá erum við að tala um 7 -- 800 manns. Hér er um að ræða Slippstöðina og það sem heitir Sambandsverksmiðjur Álafoss og Kaupfélags Eyfirðinga. Það gefur náttúrlega auga leið þegar bæjarfélag verður fyrir slíkri blóðtöku að ástandið er ekki glæsilegt.
    Það var um ummæli forsrh. um Byggðastofnun eins og annað í þessu máli, hann lét í ljósi fagrar óskir um að Byggðastofnun yrði efld, en þegar fjárlagafrumvarpið er lesið kemur í ljós að einungis er gert ráð fyrir þriðjungi þeirrar fjárhæðar til Byggðastofnunar sem stjórn hennar telur nauðsynlegt til að halda í horfinu og eru það ekki slakari menn en hv. 3. þm. Norðurl. v. og 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds og Stefán Guðmundsson, sem standa að því áliti. Þannig að það er ekki aðeins að með hinu nýja álveri eigi að brjóta niður, hvað á ég að segja, þann kjark sem var úti á landi með þeim leikaraskap sem var í kringum staðarvalið. Það liggur jafnframt fyrir að ekki er vilji til þess að halda í horfinu í sambandi við Byggðastofnun. Ef við horfum á aðra framkvæmdaliði blasir sama myndin við. Og auðvitað er niðurstaðan sú að dreifbýlið mun stynja þungan undan þessari ríkisstjórn, hefur stunið þungan nú þegar og mun stynja enn þyngra þegar kemur fram á næsta ár. En til allrar hamingju er það nú svo að mjög fer að styttast í því að þessi ríkisstjórn sitji við völd.