Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu minnar hér áðan spurði ég hæstv. forseta að því hvort rætt yrði um skýrslu iðnrh. nk. fimmtudag. Þá reis hæstv. iðnrh. úr sæti sínu, gekk til forseta, og þeirra sameiginlega niðurstaða varð sú að þessi skýrsla yrði ekki rædd á fimmtudag. Nú stendur ekki á því hygg ég að níu þingmenn muni óska eftir því að skýrslan verði rædd. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fara fram á það við hæstv. forseta að hann sjái til þess að ráðherrar verði við þegar skýrslan verður rædd til þess að hægt sé að bera saman einstök ummæli þeirra og draga fram sannleikann bæði í sambandi við sögu álmálsins og einnig draga fram hvernig þetta mál stendur innan ríkisstjórnarinnar. Það er alveg óþolandi að hægt sé að halda áfram þeim feluleik um álmálið sem verið hefur um hríð.