Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. e. hlýtur forseti að lýsa því yfir að honum er stórlega misboðið vegna þeirra rangfærslna sem í máli hans koma fram. Ég ætla enn að leyfa mér að lesa upphaf 29. gr. laga um þingsköp, en þar segir svo til skýringar hv. þingheimi: ,,Ef ráðherra óskar að gera grein fyrir opinberu málefni gerir hann það með skýrslu til Alþingis er skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Ef ráðherra óskar skal skýrslan tekin til umræðu. Sama gildir ef níu þingmenn óska þess.`` Ég þarf ekki að lesa lengra. Forseti hefur ekki frumkvæði um hvort skýrsla kemur á dagskrá. Ef ráðherra óskar þess kemur hún að sjálfsögðu á dagskrá, eða ef níu þingmenn óska þess. Hvorugt hefur gerst, þannig að forseti sá enga ástæðu og hafði enga ástæðu til að taka skýrsluna á dagskrá. Og ég bið nú hv. 2. þm. Norðurl. e. að viðurkenna að engin rök eru fyrir málflutningi sem þessum. Það er engin sameiginleg niðurstaða hæstv. iðnrh. og mín að skýrslan skuli ekki koma á dagskrá. Ef hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur frumkvæði um að níu þingmenn biðji um það þá verður að sjálfsögðu við því orðið og sú umræða færi síðan fram eftir þingsköpum. Þá held ég að þetta mál hljóti að vera alveg ljóst.
    Ég vil nú biðja hv. þm. lengstra orða og með tilliti til þess að nú er klukkan korter gengin í tvö, að menn eyði ekki tíma í umræðu sem þessa um þingsköp. Þetta eru alveg ljós þingsköp. Og þar sem þessi umræða er nú mjög langt komin og var leyfð á degi sem nú er raunar liðinn, og með tilliti til þess að örfáir þingmenn eru á mælendaskrá vil ég nú fara þess á leit að þessari umræðu megi ljúka með sæmilegum friði. Óskar hv. 2. þm. Norðurl. e. enn að tala um þingsköp?