Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom áðan er klukkan núna korter gengin í tvö og við höfum rætt þetta mál nokkuð lengi dags. Í ljós hefur komið að mikill og djúpstæður ágreiningur virðist ríkja, ekki eingöngu í stjórnarherbúðunum heldur á milli einstakra hæstv. ráðherra um það í hvaða stöðu þetta mikilvæga mál er. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hv. 2. þm. Norðurl. e. óskaði eftir því að á fimmtudaginn yrði tekin fyrir skýrsla hæstv. ráðherra þar sem hann taldi það eðlilegt að hæstv. ráðherra hefði þegar óskað eftir umræðu um skýrsluna vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þm., að ekki virtist eiga að kalla til þessarar umræðu þá hæstv. ráðherra sem höfðu gert fyrirspurnir til annarra hæstv. ráðherra og skipt sér þannig af umræðunni að nauðsynlegt var að fá þá til þess að hlýða á umræðuna sem eftir er.
    Mér er þess vegna spurn, virðulegur forseti, og beini þeim tilmælum til forseta og jafnframt til hæstv. ráðherra, hvort ekki megi semja um það annað hvort að fresta þeirri umræðu sem hér hefur verið hafin til fimmtudagsins og sleppa því þá í góðu samkomulagi að ræða skýrsluna sérstaklega, eða að öðrum kosti ef fram koma óskir í fyrramálið frá níu þingmönnum um að ræða skýrsluna þá sé sú umræða tekin nk. fimmtudag til að slíta sem minnst í sundur þessa umræðu. Enda er ljóst að hæstv. forseti treystir sér ekki til þess að kalla hér til fundarins tvo hæstv. ráðherra, annan sem segist ætla að vera við umræðuna, þ.e. hæstv. ráðherra, og hinn sem skipti sér af umræðunni með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að biðja um að hann verði viðstaddur þessa umræðu hér, hvenær sem henni verður fram haldið, eða þá í nánustu framtíð umræðu um þá skýrslu sem fyrir liggur, en í henni eru atriði sem hæstv. samg.- og landbrh. hefur lýst yfir að ekki fái staðist. Ég vænti þess að á meðan ég hef flutt þetta mál mitt hér hafi hæstv. forseta gefist tækifæri til þess að íhuga það hvort hægt sé að verða við annarri hvorri þessari ósk. ( Forseti: Þar sem fram er komin beiðni um frestun á þessari umræðu frá fleiri en einum hv. þm. er forseta auðvitað nauðugur einn kostur að verða við því þó forseti vilji lýsa þeirri skoðun sinni að þegar umræða utan dagskrár er leyfð er óeðlilegt með öllu að sú umræða dragist yfir á fleiri daga. Venjan hefur verið sú að slík umræða er leyfð ákveðinn dag og ætlast til þess að henni ljúki.
    Þar sem mér sýnist að nú sé þessi umræða komin í þóf sem forseti sér ekki ástæðu til að eyða svefntíma manna yfir er þessari umræðu nú frestað.)