Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem við ræðum hér og flutt er af hv. þm. Kvennalistans er einfalt í sniðum en tekur á býsna stóru máli, þar sem lagt er til að það ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar setningu bráðabirgðalaga verði fellt niður.
    Ég er sammála efni þessa frv. og tel að það mæli mjög sterk rök með því að afnema þetta ákvæði í stjórnarskrá landsins og í rauninni sé engu hætt til þó að svo sé gert miðað við nútímaaðstæður og möguleika á að kveðja Alþingi til funda með skömmum fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til. Það hefur verið til umræðu á undanförnum þingum, eins og fram hefur komið hér í umræðunni í tengslum við önnur frv. sem varða breytingu á stjórnskipunarlögum, að þrengja réttinn til setningar bráðabirgðalaga og það ber vott um það að þingmenn hafa verið að færast nær þeirri skoðun að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar væri ekki lengur nauðsynlegt og bæri að þrengja það eða fella brott með öllu. Það liggja sögulegar ástæður fyrir þessu ákvæði í okkar stjórnarskrá og eins og fram hefur komið þá er þetta meira en aldargamalt ákvæði, tekið inn þegar á árinu 1874 við gjörólíkar aðstæður í íslensku þjóðfélagi. Það er ekki hægt að færa fram sannfærandi rök fyrir því að viðhalda slíku ákvæði í stjórnarskránni. Ástæðan fyrir því að þetta frv. er hér fram komið geri ég ráð fyrir að sé ítrekuð setning bráðabirgðalaga sem deilur hafa verið um og þá sérstaklega bráðabirgðalaga nr. 87 frá 3. ágúst 1990 um launamál, en í kjölfar setningar þeirra spruttu miklar umræður einmitt um réttmæti þess að setja bráðabirgðalög og viðhalda því ákvæði í stjórnarskránni, fyrir utan svo umræður um efni þeirra sérstaklega.
    Það er nú svo að þau mál sem berast hér inn á Alþingi vakna oft og verða til vegna sérstakra aðstæðna og atburða í þjóðfélaginu. Það er mjög eðlilegt að þær deilur sem risu út af setningu þessara laga verði tilefni þess að Alþingi endurmeti þessi mál frá grunni og taki afstöðu til þess sem lagt er til með frv., að fella niður þetta ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Ég tel að það eigi ekki að flækja þetta mál að þarflausu með því að taka það upp í samhengi við einhverja víðtæka endurskoðun á stjórnarskránni eða þingsköpum Alþingis, sem vissulega er réttmætt og nauðsynlegt að fara yfir, eins og forsetar þingsins hafa lagt til. Kannski skilar það árangri á þessu þingi þó að ég dragi nokkuð í efa að líkurnar séu mjög miklar á þingi sem gert er ráð fyrir að standi styttri tíma en venjubundið er vegna alþingiskosninga og þar sem oft er örðugra að fá frið um vinnu af þessu tagi í aðdraganda alþingiskosninga. Það er skylt að skoða þau mál í heild sinni en ég hvet eindregið til þess að þetta atriði sem hér er rætt og hér er gerð tillaga um verði ekki bundið því að einhver víðtæk samstaða takist um stór mál sem varða störf Alþingis eins og spurninguna um starfsemi Alþingis í fleiri en einni þingdeild.
    Það væri freistandi, virðulegur forseti, að ræða setningu einstakra bráðabirgðalaga á undanförnum árum í þessu samhengi en ég ætla ekki að falla í þá

freistni. Þó að ég hafi verið andvígur setningu bráðabirgðalaga sem ríkisstjórnin setti í ágústbyrjun um launamál, þá gefst tækifæri til að ræða það efni þegar leitað verður staðfestingar á þeim bráðabirgðalögum hér á Alþingi. Ég ætla því ekki að fjölyrða um það að þessu sinni. Ég tel hins vegar að það mál sem hér er flutt sé liður í því að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera Alþingi sjálfstæðara gagnvart framkvæmdarvaldinu og það tel ég vera rétta stefnu. Ég tel að það sé mjög rík nauðsyn á því að Alþingi eflist, að þingmenn í rauninni reisi rönd við vaxandi áhrifum framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvalds. Eins og oft hefur verið sagt, á Alþingi það sem betur fer við sjálft sig hvað það gerir í þessum efnum og flutningur þessa frv. er vottur um það að menn séu að taka við sér í þeim efnum.
    Það hefur verið minnst hér á ýmis atriði sem snerta aðra þætti í þingstörfum og gætu lotið að þessu. Ég get nefnt hér sem eitt dæmi spurninguna um það hvort ráðherrar í ríkisstjórn eigi um leið að vera á Alþingi sem alþingismenn. Það mál hefur verið fært inn í frv. til stjórnskipunarlaga sem minnst hefur verið á hér og hv. þm. Páll Pétursson flutti hér inn á þingið sem 1. flm. Ég er þeirrar skoðunar að þannig breytingu ætti að gera og það væri liður í því sama sem hér er rætt, að efla Alþingi, sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. En þetta gildir einnig um setningu og útfærslu á lagatextum sem Alþingi afgreiðir og samþykkir en þar höfum við gengið býsna langt í því á liðnum árum að veita framkvæmdarvaldinu mjög rúmar heimildir til undanþága án þess að það sé tekið fram og mörkuð um það stefna hvaða viðmiðun skuli höfð ef undanþágur eru veittar. Það gildir einnig um heimildir til að setja reglugerðir, býsna rúmar reglugerðir. Nýlegt dæmi um það efni frá liðnu sumri er setning reglugerðar um gjaldeyris - og viðskiptamál, fjármagnsflutning o.fl. sem hæstv. viðskrh. gaf út og gjörbreytti skipan þessara mála án þess að nokkrar umræður færu fram um málið á Alþingi og án þess að þinginu gæfist kostur á að taka afstöðu til þeirrar breytingar sem þarna var um að ræða og er ein stærsta breytingin sem gerð hefur verið í viðskiptalegu umhverfi um langa hríð. Ég ætla ekki að ræða málið efnislega en bendi á þetta því að þetta er að mínu mati hliðstætt því í rauninni að setja bráðabirgðalög án þess að kveðja þingið saman.
    Ég ítreka, virðulegur forseti, stuðning minn við þetta mál og vænti þess að þessi hv. þingdeild sjái sér fært að taka afstöðu til þess fyrr en síðar. Og ég vænti þess að þetta frv. verði lögfest fyrr en seinna. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að þær sérstæðu kringumstæður sem hér hefur verið minnst á gætu gert það nauðsynlegt að hafa einhver ákvæði um möguleika á setningu bráðabirgðalaga inni í lögum. Ég tel að við slíkum aðstæðum geti framkvæmdarvaldið brugðist og er skylt að bregðast, þ.e. neyðarréttarákvæði af þessum toga séu það sjálfsögð við afbrigðilegar og óvenjulegar aðstæður að ekki þurfi að tengja það við setningu almennra bráðabirgðalaga.