Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem voru gefin út 29. júní sl. Tilefni þeirra var að þegar sérfræðingar fóru að skoða grannt þann texta laga um ábyrgðadeild fiskeldislána sem samþykkt voru hér á Alþingi á síðasta þingi þá var það álit þeirra að nauðsynlegt væri til þess að eyða réttaróvissu um yfirtöku ábyrgðadeildarinnar á sjálfskuldarábyrgðum sem Framkvæmdasjóður Íslands hefur gengist undir að gera þá orðalagsbreytingu á lögunum sem hér er lögð til.
    Það var álit þeirra sem að undirbúningi þessara bráðabirgðalaga stóðu að á grundvelli gagna, nál. og umræðna sem fram fóru hér á þingi þegar lögin voru afgreidd væri ljóst hver ætlun löggjafans hefði verið. Ég tel þess vegna að í þessum lögum sé ekki að finna efnisbreytingu frá þeim skilningi sem í málið var lagður þegar lögin voru sett, heldur fyrst og fremst frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum til þess að fullnægja þeim skýru og afdráttarlausu kröfum sem réttaröryggi við færslu slíkra ábyrgða frá einum aðila til annars hefur í för með sér.
    Ég tel í sjálfu sér ekki þörf á því að segja meira um þetta frv. og mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.